Ferill 156. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 227  —  156. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Ísólfs Gylfa Pálmasonar um landbrot á Suðurlandi.

    Landbúnaðarráðuneytið leitaði til Landgræðslu ríkisins um svör við fyrirspurninni en stofnunin annast þennan málaflokk í umboði ráðuneytisins samkvæmt lögum nr. 43/1975, um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna.

     1.      Er til heildarúttekt á landbroti af eftirtöldum ám á Suðurlandi:
             Skaftá í Skaftárhreppi,
             Klifanda og Hafursá í Mýrdalshreppi,
             Svaðbæslis- og Kaldaklofsá í Rangárvallasýslu,
             Markarfljóti í Rangárvallasýslu,
             Þjórsá í Árnessýslu,
             Stóru-Laxá og Hvítá í Árnessýslu?

    Til eru margar áætlanir og úttektir fyrir hluta vatnsfalla en engin heildaráætlun fyrir vatnsföll frá upptökum til ósa.
    Samkvæmt lögum um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna, nr. 43/1975, með áorðnum breytingum, starfar matsnefnd fyrirhleðslna í öllum sýslum landsins. Matsnefndirn­ar fara nokkuð reglulega, og eftir því sem tilefni gefst til, í skoðunarferðir með hlutaðeigandi heimamönnum og landeigendum og taka út brýnustu verkefnin. Um Rangárvallasýslu var síð­ast farið 5. október sl. Mikið gagnasafn er til um umræddar ár, sérstaklega þá hluta Markar­fljóts og Þjórsár sem renna um byggð. Úttekt á landbroti af völdum fallvatna um allt land yrði kostnaðarsamt, þó svo einungis yrðu metnar þær ár þar sem um umtalsvert landbrot er að ræða. Heildarúttekt sem stæði undir nafni mundi kosta 30–40 millj. kr. Áætlanir yrði síð­an að endurskoða áður en hafist er handa hverju sinni þar sem verkefnið getur tekið miklum breytingum.
            
     2.      Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar á næstu árum til að stemma stigu við frekari landeyðingu og í sumum tilfellum því að vegamannvirki skemmist?
    Á Suðurlandi bíða mörg afar brýn verkefni úrlausnar, sérstaklega í kjölfar mikilla flóða um mánaðamótin ágúst/september sl. Fyrirhleðsluverkefni í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu eru hins vegar í verulegri skuld við önnur verkefni á landinu. Til er nokkurt fé til minni háttar framkvæmda í Árnessýslu, væntanlega við Stóru-Laxá.
    Miðað við sömu fjárveitingu og verið hefur og að ekki verði nein flóð og skemmdir á varnargörðum verður unnt að takast á við landbrot í Vestur-Skaftafellssýslu, t.d. við Klif­anda, árið 2013, en í Rangárvallasýslu ætti að vera unnt að hefja vinnu árið 2003, miðað við sömu forsendur. Við Markarfljót bíða eins og víða annars staðar nokkur aðkallandi verkefni. Fjárveitingar sem eru eyrnamerktar því hafa á síðustu árum farið til viðhalds mannvirkja og minni háttar aðgerða. Áríðandi er á að hraða framkvæmdum við Markarfljót.
    Gott samstarf er á milli Vegagerðarinnar og Landgræðslu ríkisins sem fer með þennan málaflokk fyrir hönd ráðherra. Vegagerðin ver árlega miklu fé til að tryggja að ár renni undir brýr og skaði ekki vegamannvirki.

     3.      Hvað er áformað að verja miklu fjármagni í fyrirhleðslur á næstu árum?
    Á fjárlögum ríkisins er árlega varið tæpum 20 millj. kr. til fyrirhleðslna á öllu landinu. Árlega eru framkvæmdir á 35–40 stöðum, en við stærri vatnsföll þarf víða að hlaða garða sem hver um sig kostar mun meira en fjárveiting heils árs fyrir allt landið.
    Það er mat Landgræðslunnar að til að vinna allra brýnustu varnaraðgerðir þurfi árlega að veita a.m.k. 50 millj. kr. til viðhalds eldri mannvirkja og til að verjast allra hraðvirkasta landbrotinu. Á síðustu árum hefur megináhersla verið lögð á að halda við og bjarga eldri varnargörðum. Nýbyggingar varnargarða eru fáar. Þá er fremur reynt að verja bakka þar sem rof á sér stað en veita ekki ám úr farvegum. Einnig er lögð áhersla á að framkvæma ekki um­fram fjárveitingar á fjárlagalið fyrirhleðslna, þ.e. landgræðslufé er ekki notað til fyrir­hleðslna.
    Í kjölfar fyrirhleðslna fyrr á árum hafa þúsundir hektara af jökuláraurum gróið upp, en hins vegar eyðast árlega gróin lönd, tún og engi þar sem ekki er hægt að koma nægum vörn­um við sakir of lítilla fjárveitinga.