Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 259  —  232. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, nr. 36 8. september 1931.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Þjónandi prestar og prófastar skulu fá greiddan rekstrarkostnað embætta sinna frá bisk­upsstofu samkvæmt reglum sem kirkjuþing setur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með samkomulagi milli ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 var samið um að kirkjan léti af hendi kirkjujarðir, að frátöldum prestssetrum, og að andvirði seldra kirkju­jarða rynni í ríkissjóð. Á móti greiði ríkissjóður laun biskups Íslands, vígslubiskupa og 138 starfandi presta og prófasta kirkjunnar. Ef fækkar eða fjölgar í þjóðkirkjunni skal framlag ríkisins lækka eða hækka eftir tilteknum reglum. Ákvæði þessa efnis var lögfest með 60. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar, nr. 78 26. maí 1997.
    Hér var um rammasamkomulag að ræða sem lét ýmsu ósvarað varðandi laun, rekstrar­kostnað prestsembætta og ýmis önnur atriði sem tengjast samkomulaginu. Var því talið nauð­synlegt að kveða nánar á um launagjöld, embættiskostnað vegna prestsembætta, rekstrargjöld biskupsstofu o.fl., svo að unnt væri að ákveða fjárframlög á fjárlögum.
    Kostnaðarliðir í embættiskostnaði presta og prófasta eru einkum aksturskostnaður, síma­gjöld, póstburðargjöld, skrifstofukostnaður og endurgjald fyrir afnot eigin húsnæðis. Presta­félag Íslands hafði á síðastliðnu ári óskað endurskoðunar á reglum um embættiskostnað presta og hafði nokkur lagfæring verið gerð. Hins vegar voru ýmis álitaefni óleyst og nauð­synlegt var að biskup Íslands kæmi að málinu, m.a. vegna fyrirkomulags á sendingu vottorða og skýrslna frá prestum og próföstum til biskups og annarra innri málefna þjóðkirkjunnar.
    Þeirri hugmynd var varpað fram, einkum í ljósi þess hve mikið sjálfstæði þjóðkirkjan hef­ur fengið í eigin málum, að ef til vill væri réttast að yfirstjórn þjóðkirkjunnar tæki yfir um­sýslu með greiðslu embættiskostnaðar presta og prófasta.
    Í viðræðum biskups Íslands og ráðuneyta dóms- og kirkjumála og fjármála var talið æski­legt, í ljósi aukins sjálfstæðis og ábyrgðar er þjóðkirkjan fékk með lögum nr. 78/1997, að gerður yrði samningur við embætti biskups Íslands um yfirtöku á rekstrarkostnaði vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnaði biskupsstofu, framlagi til kristnisjóðs og sér­framlögum til þjóðkirkjunnar. Hafist var handa á biskupsstofu um gerð launalíkans, er mælir launaútgjöld, og hafa ráðuneytin staðfest það fyrir sitt leyti. Viðræður um önnur atriði hafa staðið yfir á þessu ári. Lauk viðræðunum síðan með samningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, sem undirritaður var af biskupi Íslands, dóms- og kirkjumálaráðherra og fjármálaráð­herra 4. september 1998. Lagt er til að lögin taki gildi um leið og samningurinn, 1. janúar 1999.
    Samningurinn fylgir frumvarpi þessu sem fylgiskjal, þannig að ekki er ástæða til að rekja efni hans nema varðandi breytingar sem lúta að greiðslu embættiskostnaðar presta og pró­fasta.
    Skipting prestsembættanna 138 er nú sem hér greinir: 16 prófastar, 112 sóknarprestar og prestar (hétu áður aðstoðarprestar), fjórir héraðsprestar og sex sérþjónustuprestar.
    Í 3. gr. samningsins er kveðið á um að ríkið greiði árlega fjárframlag til að standa straum af rekstrarkostnaði prestsembætta og prófasta og annars kostnaðar en launa og launatengdra gjalda sem tilgreind eru í úrskurðum kjaranefndar. Kirkjuþingi er ætlað að setja reglur um greiðslu rekstrarkostnaðar prestsembætta og prófasta, er taki gildi 1. janúar 1999. Fyrir sama tíma skal vera búið að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um embættiskostnað presta og enn fremur að fella niður reglur dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um greiðslu embættis­kostnaðar presta og prófasta frá 15. júní 1989, með síðari breytingum.
    Í frumvarpinu er lagt til að felld verði brott gildandi 1. gr., en þar segir að sóknarprestar fái greiddan ferða- og skrifstofukostnað embættis síns og fer upphæðin eftir stærð prestakall­sins, svo og að ráðherra ákveði, að fengnum tillögum biskups, fyrir fram til fimm ára í senn, embættiskostnað hvers prestakalls. Upphæðin greiðist prestinum mánaðarlega á sama hátt og embættislaun.
    Í stað þessa er lagt til að biskupsstofa annist greiðslu embættiskostnaðarins og að kirkju­þing setji reglur um þessar greiðslur. Hér er því gert ráð fyrir að biskupsstofa fái árlega til­tekna fjárhæð, sem samningur kveður á um hver skuli vera. Þá mun kirkjuþing framvegis ákveða embættiskostnaðinn, en ekki kirkjumálaráðuneytið í samráði við biskup Íslands og Prestafélag Íslands, eins og hingað til hefur gilt.




Fylgiskjal I.



(3 síður myndaðar)


Karl Sigurbjörnsson,
biskup Íslands.
Þorsteinn Pálsson,
dóms- og kirkjumálaráðherra.
Geir H. Haarde,
fjármálaráðherra.



Fskj. 1.


(2 síður myndaðar)


Fskj. 2.


(1 síða mynduð)


Fskj. 3.


(2 síður myndaðar)



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um embættiskostnað
presta og aukaverk þeirra, nr. 36 8. september 1931.

    Í frumvarpinu er ákvæði um embættiskostnað presta breytt á þann veg að kirkjuþing setji reglur og ákveði rekstrarkostnað prestsembætta í stað kirkjumálaráðherra. Eins og fram kem­ur í greinargerð með frumvarpinu er breyting þessi afleiðing af samningi um fjárhagsleg sam­skipti ríkis og kirkju. Í þeim samningi er kveðið á um að heildarframlag ríkisins vegna emb­ættiskostnaðar prestsembætta skuli vera 89,5 m.kr. á ári. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir 1998 er lögð til 6 m.kr. hækkun vegna þessa og í frumvarpi til fjárlaga fyrir 1999 er gert ráð fyrir framangreindu framlagi. Frumvarpið hefur því ekki frekari kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.