Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 262  —  233. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25 22. apríl 1967.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)1. gr.

    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Við smíði varðskips er eigi skylt að láta fara fram útboð og er heimilt að leita tilboða frá einum eða fleiri aðilum. Sama gildir um viðhald varðskips þegar sérstakir öryggishagsmunir krefjast.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að í lögum um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25/1967, verði mælt fyrir um samningsgerð við smíði varðskipa og viðhald þeirra. Þykir nauðsynlegt að reglur þar að lútandi verði lögfestar áður en hafin verður fyrirhuguð smíði á nýju varð­skipi.
    Samkvæmt 1. gr. laganna um Landhelgisgæslu Íslands eru helstu hlutverk hennar að hafa með höndum almenna löggæslu á hafinu umhverfis landið, jafnt innan sem utan landhelgi. Einnig ber Landhelgisgæslunni að tilkynna, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem sjófarendum eða almenningi getur stafað hætta af. Þá ber Land­helgisgæslunni að aðstoða við framkvæmd almannavarna eftir því sem ákveðið verður hverju sinni. Með hliðsjón af eðli þessara verkefna Landhelgisgæslunnar er nauðsynlegt vegna öryggishagsmuna ríkisins að fullur trúnaður ríki um gerð og eiginleika varðskipa. Af þessum sökum þykir ekki fært að viðhafa almennt útboð á alþjóðlegum markaði við smíði varðskipa eftir ákvæðum laga um opinber innkaup, nr. 52/1987, eins og þeim var breytt með lögum nr. 55/1993 í kjölfar aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þess í stað er lagt til að heimilt verði að leita tilboða frjálst hjá einum eða fleiri verktökum eða seljendum tækjabúnaðar í varðskip. Með þessu móti verður frekar unnt að búa svo um hnút­ana að öryggishagsmunir verði tryggðir.
    Á grundvelli sömu öryggishagsmuna og eiga við um smíði varðskipa getur verið ástæða til að víkja frá almennum reglum um útboð varðandi viðhald varðskipa. Þessi rök eiga þó ekki við í öllum tilvikum og verður að meta hverja framkvæmd fyrir sig í þessu tilliti. Með hliðsjón af þessu er lagt til að sama regla gildi um viðhaldsverkefni þegar sérstakir öryggis­hagsmunir krefjast. Þegar það á ekki við bæri hins vegar að fara með viðhaldsframkvæmdir eftir almennum reglum.
    Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hefur Ísland gengist undir þjóðréttarlegar skuldbindingar varðandi opinber innkaup. Þær skuldbindingar eru þó ekki fortakslausar og hindra ekki aðila samningsins í að gera ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að girða fyrir uppljóstrun upplýsinga andstætt mikilvægum öryggishagsmunum sínum, sbr. a-lið 123. gr. samningsins. Þá er Ísland bundið af tilskipun ráðsins nr. 93/36/EBE um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um vörukaup, en þar segir í b-lið 1. mgr. 2. gr. að til­skipunin gildi ekki um vörukaupasamninga sem lýstir eru leynilegir eða ef beita verður sér­stökum öryggisráðstöfunum við framkvæmd þeirra í samræmi við gildandi lög eða stjórn­sýslufyrirmæli í viðkomandi aðildarríkjum eða ef grundvallarhagsmunir ríkisins krefjast þess. Frumvarpið er reist á þessum reglum og hefur því verið gætt skuldbindinga Íslands á alþjóðavettvangi.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um
Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25 22. apríl 1967.

    Í frumvarpinu er lagt til að ekki verði skylt að láta fara fram útboð vegna smíði varðskips þrátt fyrir ákvæði laga nr. 52/1987, um opinber innkaup. Þess í stað er lagt til að heimilt verði að leita tilboða hjá einum eða fleiri aðilum. Sama gildir um viðhald varðskips þegar sérstakir öryggishagsmunir krefjast þess. Hugsanlegt er að þetta frumvarp geti haft í för með sér hærri framkvæmda- og viðhaldskostnað þar sem færri eiga kost á að bjóða í verkið en annars hefði verið.