Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 273  —  242. mál.
Tillaga til þingsályktunarum þátttöku Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Flm.: Svanfríður Jónasdóttir, Sighvatur Björgvinsson,


Ásta R. Jóhannesdóttir, Gísli S. Einarsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að Ísland verði aftur aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Mótmæli Alþingis við hvalveiðibanni yrðu hluti þeirra ráðstafana.

Greinargerð.


    Ísland gerðist aðili að alþjóðasáttmálanum um skipan hvalveiða árið 1948 en sagði aðild­inni upp, sem jafngilti úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, árið 1991 á þeim forsendum að ráðið starfaði ekki í samræmi við sáttmálann.
    Árið 1982 samþykkti Alþjóðahvalveiðiráðið tímabundna stöðvun hvalveiða í atvinnuskyni frá ársbyrjun 1986. Það bann skyldi síðan endurskoðað í ljósi þess mats sem lægi fyrir á ástandi hvalastofna árið 1990. Vísindaveiðar Íslendinga voru í raun framlag til þess að slíkt mat gæti orðið sem áreiðanlegast og lauk þeim árið 1989. Síðan þá hefur ekki verið veiddur hvalur við Ísland því að þrátt fyrir að vísindanefnd ráðsins samþykkti á grundvelli rannsókn­anna að tilteknir hvalastofnar þyldu takmarkaðar veiðar ákvað meiri hluti ráðsins að endur­skoða ekki veiðibannið. Alþingi samþykkti með naumum meiri hluta árið 1983 að nýta ekki rétt landsins til að gera fyrirvara við samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um tímabundna stöðvun veiða í atvinnuskyni.
    Þótt Ísland hafi sagt sig úr ráðinu á þeim forsendum að vera í ráðinu kæmi í veg fyrir sjálf­bæra nýtingu hvalastofna og þrátt fyrir tilraun til að skapa möguleika á að hefja að nýju hval­veiðar í samtökum með Norðmönnum, Grænlendingum og Færeyingum, NAMMCO, hafa hvalveiðar ekki hafist enn, nú sjö árum síðar. Íslenskir vísindamenn telja að hvalastofnar við Ísland séu í vexti, enginn þeirra sé í útrýmingarhættu og einhverjir þoli í raun sambærilegar veiðar og voru stundaðar fram að gildistöku hvalveiðibannsins. Þá hefur stjórnarnefnd NAMMCO nú í haust staðfest það mat vísindanefndar samtakanna að veiði á 292 hrefnum teldust sjálfbærar veiðar. Þrátt fyrir það hefur sjávarútvegsráðherra ekki í hyggju að flytja þingsályktunartillögu um að leyfa veiðar á hrefnu eða hvölum í atvinnuskyni, sbr. munnlegt svar hans 14. október sl. við fyrirspurn á þskj. 28.
    Í greinargerð með þingsályktunartillögu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar frá 1994 um hvalveiðar kom fram að ef Íslendingar hæfu aftur hvalveiðar tækju eftirlitsreglur óhjákvæmi­lega mið af umfjöllun hvalveiðiráðsins og þeim ákvörðunum sem þar væru teknar. Í hafréttar­samningi Sameinuðu þjóðanna og einnig í framkvæmdaáætlun Ríó-ráðstefnunnar er mælt fyrir um skyldu ríkja til samstarfs í þessum efnum og 65. gr. hafréttarsamningsins fjallar sér­staklega um þessar skyldur hvað varðar sjávarspendýr. Þar segir að ríki „skuli starfa saman með verndun sjávarspendýra í huga og skuli hvað hvali snertir einkum starfa á vettvangi við­eigandi alþjóðastofnana að verndun og stjórnun þeirra og rannsóknum á þeim“.
    Þegar Ísland sagði sig úr ráðinu á sínum tíma var álitið að fleiri ríki fylgdu því fordæmi. Það gerðist ekki. Noregur sem er eina fullvalda ríkið ásamt okkur í NAMMCO hefur haldið áfram að starfa innan Alþjóðahvalveiðiráðsins og stundar hrefnuveiðar í skjóli þess. Ekki eru líkur á að Norðmenn yfirgefi Alþjóðahvalveiðiráðið, enda virðast þeir telja að staða þeirra væri mun verri utan ráðsins. Þeir hafa m.a. bent á það sem merki um viðhorfsbreytingar í ráðinu að þeir skuli komast upp með að hefja hvalveiðar að nýju. Sé litið til stöðu Norðmanna virðist einsýnt að hagsmunum okkar væri betur borgið með því að vera einnig í ráðinu. Japanir stunda einnig veiðar í vísindaskyni. Þær veiðar fara fram þrátt fyrir veru þeirra í Alþjóðahvalveiðiráðinu og eru löglegar samkvæmt sáttmálanum rétt eins og vísindaveiðar okkar á sínum tíma.
    Ekki er nóg að veiða, það þarf líka að selja, en allt er óljóst um sölu hvalaafurða. Í utan­dagskrárumræðu vorið 1996 kom fram í máli sjávarútvegsráðherra að því miður væri það staðreynd að eins og sakir stæðu væri ekki kostur á að flytja hvalaafurðir úr landi en lengi hefði legið fyrir að við gætum ekki selt Japönum hvalaafurðir þó að við hæfum veiðar á meðan við stæðum utan ráðsins. Samþykkt ráðsins frá áttunda áratugnum bannar að lönd innan ráðsins kaupi hvalaafurðir af ríkjum utan þess. Einnig hafa verið gerðar samþykktir sem lúta að verslun með skotfæri til hvalveiða.
    Þrátt fyrir að við stöndum nú utan ráðsins og séum þar með ekki formlega bundin af ákvörðunum þess um veiðibann, þrátt fyrir að vísindamenn, bæði á Hafrannsóknastofnun og á vegum NAMMCO, telji að líffræðilegar forsendur séu ákjósanlegar varðandi veiðar og sjálfbæra nýtingu hvalastofnanna og þess vegna hægt að hrinda stefnu Íslands í framkvæmd, þrátt fyrir skýrslur á skýrslur ofan með fyrirheitum um hvalveiðar, ef ekki í ár þá á næsta ári, og þrátt fyrir umræður og heitingar á Alþingi þá veiðum við ekki hval. Augljóst er því að þrátt fyrir meinta ástæðu úrsagnar okkar úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, sem var sú að afstaða ráðsins til hvalveiða byggðist ekki á vísindalegum forsendum heldur pólitískum, höfum við áttað okkur á því að pólitísk afstaða ráðsins hefur einnig ráðið ákvörðunum og gerðum okkar utan ráðsins. Annað er ekki hægt að álykta af aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda í öll þessi ár.
    Rökin fyrir því að standa utan ráðsins eru harla léttvæg í ljósi þess að við allar ákvarðanir verður að taka tillit til stefnumótunar ráðsins, hversu óvísindaleg sem hún kann að vera. Hvort sem við stöndum utan ráðsins eða innan virðumst við bundin af ákvörðunum þess. Möguleikar til að hafa áhrif á stefnu þess eru mestir ef við eigum þar sæti því að ráðið er og verður um fyrirsjáanlega framtíð helsti vettvangur umræðu um hvalveiðar, og baráttu fyrir því að hvalveiðar verði hafnar á ný. Þar sitja enn fulltrúar helstu hvalveiðiþjóðanna og einnig þeirra þjóða sem hafna hvalveiðum í atvinnuskyni og þar er baráttan háð um þessi mál.
    Alþingi samþykkti með naumum meiri hluta árið 1983 að nýta ekki rétt landsins til að gera fyrirvara við samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um tímabundna stöðvun veiða í atvinnuskyni, svokallaðan núllkvóta, en slíkur fyrirvari hefði þýtt að Ísland hefði ekki verið bundið af sam­þykktum ráðsins. Sem lið í þeirri ákvörðun að ganga aftur í ráðið yrði Alþingi að samþykkja að gera slíkan fyrirvara, þ.e. að mótmæla banni við hvalveiðum, og yrði það liður í þeim ráð­stöfunum sem samþykkt þessarar ályktunar felur í sér. Ekki liggur óyggjandi fyrir hvort unnt er að ganga í alþjóðasamtök með fyrirvara en á það yrði að reyna sem og á velvilja þeirra þjóða sem vilja fá okkur aftur í ráðið eða hafa skilning á stöðu okkar.
    Fyrir Alþingi liggur tillaga um „að hvalveiðar skuli leyfðar frá og með árinu 1999 á þeim tegundum og innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til. Sjávarútvegs­ráðherra er falin framkvæmd veiðistjórnar á grundvelli gildandi laga“. Víðtækur stuðningur virðist vera við tillöguna. Eðlilegt er að í tengslum við afgreiðslu hennar verði jafnframt afgreidd sú tillaga sem hér er gerð um þátttöku í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Til stuðnings þeirri skoðun má nefna að í bréfi starfshóps sem skipaður var 1996 til að undirbúa tillögu til þings­ályktunar um hvalveiðar Íslendinga kemur fram að Alþjóðahvalveiðiráðið (IWC) sé helsti vettvangur umræðu um hvalveiðar og baráttu fyrir endurupptöku þeirra. Jafnframt taldi starfs­hópurinn rétt að kanna hvaða möguleika endurnýjuð aðild Íslands að Alþjóðahvalveiðiráðinu kynni að hafa í för með sér.