Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 320  —  114. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (refsiábyrgð lögaðila).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Boga Nilsson ríkissaksóknara og Guðjón Rúnarsson og Birgi Ármanns­son frá Verslunarráði Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Verslunarráði Íslands, ríkissaksóknara, skattrannsóknarstjóra ríkisins, lögreglustjóranum í Reykjavík, Lögmannafélagi Íslands og ríkislögreglustjóra.
    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði almenn ákvæði í almenn hegningarlög um refsi­ábyrgð lögaðila og er lagt til að inn í hegningarlögin verði tekin ákvæði um skilyrði slíkrar refsiábyrgðar, hverjir geti sætt henni og hvaða viðurlög komi þar til greina. Í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, er byggt á persónulegri refsiábyrgð og persónubundnum viður­lögum og gera lögin ekki sérstaklega ráð fyrir að lögð sé refsiábyrgð á lögaðila. Með frum­varpinu er þó ekki lagt til að í hegningarlögunum sé kveðið á um að lögaðilar beri almennt refsiábyrgð til jafns við einstaklinga, og felur það ekki í sér sjálfstæða refsiheimild en setur hins vegar það almenna skilyrði fyrir refsiábyrgð lögaðila að í sérrefsilögum sé að finna heimild til þess að refsa lögaðilum.
    Nokkrar umræður spunnust í nefndinni um ákvæði 1. gr. frumvarpsins. Í c-lið 1. gr. kemur fram sú meginregla að refsiábyrgð lögaðila sé bundin því að einhver á hans vegum hafi með saknæmum hætti unnið refsinæman eða ólögmætan verknað í starfsemi lögaðilans. Jafnframt kemur fram í ákvæðinu að í sérrefsilögum megi kveða á um frávik frá þessu skilyrði. Skiln­ingur allsherjarnefndar er að veigamikil rök þurfi að vera fyrir hendi til þess að víkja frá meginreglunni og að nauðsynlegt sé að þau liggi ljós fyrir við lögfestingu slíkra ákvæða. Einnig telur nefndin brýnt að heildstæð endurskoðun fari fram á þeim ákvæðum laga sem leggja refsiábyrgð á lögaðila þannig að samræmi verði á milli ákvæðanna. Leggur nefndin til að gerðar verði minni háttar breytingar á tveimur ákvæðum frumvarpsins í samræmi við ábendingar sem nefndinni bárust.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi breytingum:
     1.      Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting á a-lið 1. gr. að fellt verði brott ákvæði þess efnis að lögaðila verði gerð svipting starfsréttinda. Í ákvæðinu er fjallað um refsingar og telst svipting starfsréttinda ekki til eiginlegra refsinga, því þykir óeðlilegt að mæla fyrir um slíkt hér.
     2.      Þá eru lagðar til tvær breytingar á c-lið 1. gr. Annars vegar er lagt til að orðið „einhver“ í 1. málsl. ákvæðisins falli brott. Hins vegar er lagt til að við greinina bætist nýr máls­liður þar sem kveðið er á um að lögaðila verði gerð refsing þó að ekki verði staðreynt hvaða aðili á hans vegum hafi framið refsinæman eða ólögmætan verknað. Er breytingin lögð til þar sem að ákvæði frumvarpsins þykir ekki kveða nægilega skýrt á um að ekki sé nauðsynlegt að staðreyna hvaða maður á vegum lögaðilans hafi gerst sekur um verknaðinn heldur sé nægilegt að sýnt hafi verið fram á að refsiverður verknaður hafi verið framinn af einhverjum á hans vegum.
    Hjálmar Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. nóv. 1998.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Jón Kristjánsson.


Jóhanna Sigurðardóttir.



Árni R. Árnason.


Kristín Halldórsdóttir.


Siv Friðleifsdóttir.



Kristján Pálsson.


Ögmundur Jónasson.