Ferill 49. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 349  —  49. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um virðisaukaskatt.

     1.      Hvert hefur hlutfall virðisaukaskatts af innlendri starfsemi verið í heildarinnheimtu virðisaukaskattsins árlega sl. átta ár?
    Taflan hér að neðan sýnir virðisaukaskatt sem greiddur var við innflutning, virðisauka­skatt sem lagður var á innan lands og virðisaukaskatt samtals, svo og virðisaukaskatt sem lagður var á innan lands sem hlutfall af heildarálagningunni.


Virðisaukaskattur í millj. kr.

Ár Innflutningur Innan lands Samtals Innan lands, %
1990 20.349 19.070 39.419 48,38
1991 24.027 20.521 44.548 46,06
1992 22.092 23.415 45.507 51,45
1993 21.894 23.790 45.684 52,08
1994 23.331 22.614 45.945 49,22
1995 26.253 20.123 46.376 43,39
1996 31.235 18.523 49.758 37,23
1997 33.691 21.842 55.533 39,33

     2.      Hvaða skýringu hefur fjármálaráðherra á lækkandi hlutfalli virðisaukaskatts af innlendri starfsemi? Eru áform um að bregðast við þeirri þróun?
    Hlutfallið sem fram kemur í svari við 1. lið endurspeglar þau tengsl sem eru á milli virðis­aukaskatts sem greiddur er við innflutning og virðisaukaskatts sem skilað er samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum innan lands. Virðisaukaskattur við innflutning kemur að verulegu leyti fram sem innskattur á virðisaukaskattsskýrslum og dregur þar með úr skilum á virðis­aukaskatti innan lands. Árin 1992 og 1993 var innflutningur lægri en árið á undan og þá hækkaði hlutfall innlendra skila. Frá og með árinu 1994 fór innflutningur aftur vaxandi ár frá ári og lækkaði þá hlutfall innlendra skýrsluskila. Á árinu 1996 varð mesta aukning á virðisaukaskatti í innflutningi á þessu tímabili en þá hækkaði hann um tæpa 5 milljarða kr. Hlutfall skila innan lands lækkaði það ár um rúm 6%.
    Skipting virðisaukaskatts eftir skilum við innflutning og samkvæmt skýrslum innan lands er ekki góð vísbending um þróun álagningar virðisaukaskatts af ýmsum ástæðum. Helsta ástæðan er eins og áður getur að langstærstur hluti þess virðisaukaskatts sem greiddur er við innflutning verður að innskatti við innlenda álagningu. Önnur ástæða er að lagabreytingar geta skekkt hlutfallið, svo sem var árið 1994 þegar tekið var upp sérstakt þrep virðisauka­skatts á matvæli. Matvæli eru að stórum hluta innlendar framleiðsluvörur þannig að áhrif þeirrar lagabreytingar hafa m.a. verið að meira dró úr skattskilum innan lands en við inn­flutning. Þá er ljóst að þróun útflutnings hefur áhrif á þetta hlutfall þar sem aukinn innflutningur sem fer til framleiðslu útflutningsafurða leiðir til lækkandi hlutfalls innlendrar álagn­ingar. Sama á við um aukinn innflutning til fjárfestinga og birgðasöfnunar.

     3.      Er ætlunin að herða eftirlit með virðisaukaskattsskilum gjaldskyldra aðila, m.a. til að sporna við innskattssvikum? Ef svo er, hvernig?
    Eins og fram kemur í svari við 6. lið hefur verið ákveðið að fram fari viðamikil athugun á sem flestum þáttum virðisaukaskattskerfisins. Sérstaklega verður tekið fyrir eftirlit með skilum. Í því sambandi verður lagt mat á núverandi eftirlit, skipulag þess og mannaflaþörf. Þá verður skoðað eftirlit með tekjuskráningu, svartri atvinnustarfsemi, ólöglegri innsköttun, rafrænum viðskiptum og flokkun í skattþrep.

     4.      Er ástæða til að ætla að um aukin virðisaukaskattssvik sé að ræða? Eru áform um að gera könnun á því hvort svo sé og hvers vegna?
    Engar tölulegar upplýsingar liggja fyrir um þróun virðisaukaskattssvika frá ári til árs. Í raun eru ekki til áreiðanlegar aðferðir til meta umfang skattsvika. Þó hefur verið reynt að leggja mat á umfang skattsvika hér á landi og eru niðurstöður birtar í skýrslum tveggja skatt­svikanefnda. Fyrri skýrslan kom út árið 1986 en sú síðari árið 1993. Niðurstöðurnar bentu til þess að umfang skattsvika væri svipað þau ár sem metin voru. Ekki virðist ástæða til að ætla að skattsvik hafi minnkað.

     5.      Er ráðherra sammála því mati sem fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar í maí sl. að fjölgun starfsmanna við skatteftirlit muni fljótt skila sér í aukinni og bættri inn­heimtu? Ef svo er, er það ætlunin að fjölga í starfsliði við skatteftirlit og skattrann­sóknir?
    Úttekt Ríkisendurskoðunar byggist m.a. á viðtölum við starfsmenn hjá ríkisskattstjóra, Ríkisbókhaldi, fjármálaráðuneyti, skattstofum, skattrannsóknarstjóra ríkisins o.fl. og er full ástæða til að taka ályktanir sem fram koma í skýrslunni alvarlega, m.a. um fjölgun starfs­manna við skatteftirlit og skattrannsóknir. Góður og vel þjálfaður starfsmaður í skatteftirliti mun örugglega stuðla að aukinni og bættri innheimtu. Í væntanlegri úttekt á virðisaukaskatts­kerfinu verður eins og áður segir sérstaklega athugað hver mannaflaþörfin er við núverandi aðstæður, m.a. við skatteftirlit.

     6.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við þeim ábendingum um virðisaukaskattskerfið sem fram komu í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá maí 1998?
    Ákveðið hefur verið í ljósi reynslu sem fengist hefur af rekstri virðisaukaskattskerfisins í átta ár, þar á meðal því sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að hrinda af stað viðamikilli athugun á sem flestum þáttum sem skattinn varðar. Í þeirri athugun verður m.a. gerð úttekt á:
          upplýsinga- og vinnslukerfum virðisaukaskattskerfisins, m.a. kannaðir möguleikar og kostir á rafrænum skilum á skilagreinum og greiðslum, svo og að skilagreinar tengist stöðluðu tekjuskattsframtali,
          eftirliti með skilum virðisaukaskatts, núverandi eftirlit verði skoðað og gerðar tillögur til úrbóta, meðal annars verði athugað eftirlit með tekjuskráningu, svartri atvinnustarf­semi, ólöglegri innsköttun, rafrænum viðskiptum og flokkun í skattþrep,
          hvernig tekjur af virðisaukaskatti hafa þróast frá upphafi í samanburði við aðrar hagstærðir,
          hvort æskilegt sé að breyta lögum um virðisaukaskatt í þeim tilgangi að gera skattframkvæmd einfaldari og markvissari,
          mannaflaþörf virðisaukaskattskerfisins við framkvæmd og eftirlit.