Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 451  —  347. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    Í stað orðanna „1. janúar 1999“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 1. janúar 2001.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög nr. 26/1994, um fjöleignarhús, gengu í gildi 1. janúar 1995. Í 1. mgr. 16. gr. laganna er tekið fram að þinglýst eignaskiptayfirlýsing skuli vera skilyrði fyrir þinglýsingu á eigna­yfirfærslum í fjöleignarhúsum, enda liggi ekki fyrir þinglýstur fullnægjandi og glöggur skiptasamningur. Með 7. gr. laga nr. 136/1995 var sú breyting gerð á lögum nr. 26/1994 að við þau var bætt ákvæði til bráðabirgða. Fól breytingin í sér að fyrirmælum 1. mgr. 16. gr. var frestað til 1. janúar 1997. Frestur sá og aðlögunartími sem gefinn var með þessari til­hliðrun var ætlaður eigendum og húsfélögum til undirbúnings og gerðar eignaskiptayfirlýs­inga og hlutaðeigandi stjórnvöldum til fræðslu, kynningar og annarra undirbúningsráðstaf­ana. Með lögum nr. 127/1996 var sú breyting gerð á bráðabirgðaákvæðinu að gildistöku 1. mgr. 16. gr. var frestað til 1. janúar 1999.
    Komið hefur í ljós að þörf er á lengri fresti en veittur var með lögum nr. 127/1996 til þess að eðlileg aðlögun að fyrirmælum 16. gr. laga um fjöleignarhús geti orðið. Af þessu tilefni hefur félagsmálaráðherra borist erindi frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík, Húseigendafé­laginu og Félagi fasteignasala, en þessir aðilar koma allir við sögu við framkvæmd eigna­skiptayfirlýsinga. Í erindinu er vísað til þess að líkt og árin 1996 og 1997 muni að óbreyttu skapast öngþveiti á fasteignamarkaði og hjá embætti byggingarfulltrúa í Reykjavík. Könnun á fjölda eignaskiptayfirlýsinga hefur leitt í ljós að heildarfjöldi eignaskiptayfirlýsinga í Reykjavík geti verið rétt um 12.000. Frá því að lög nr. 26/1994 tóku gildi og til 1. nóvember 1998 hafa verið staðfestar um 800 yfirlýsingar eða u.þ.b. 6,6% af áætluðum fjölda. Ljóst er að mikið starf er óunnið á þessu sviði, einkanlega þegar haft er í huga að áætlað er að um 3.000 fasteignir séu árlega seldar í Reykjavík. Að athuguðu máli telur félagsmálaráðherra rétt að leggja til með þessu frumvarpi að fullri gildistöku ákvæðis 16. gr. laga nr. 26/1994 verði frestað fram til 1. janúar 2001, enda verði markvisst unnið að því af hálfu réttra aðila að sú dagsetning gangi eftir.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignahús,
nr. 26/1994, með síðari breytingum.

    Frumvarpið felur í sér breytingu á ákvæði til bráðabirgða. Samkvæmt því frestast gildistaka 16. gr. laganna sem fjallar um þinglýsta eignaskiptayfirlýsingu sem skilyrði fyrir þing­lýsingu á eignayfirfærslum í fjöleignarhúsum. Gildistakan frestast um fjögur ár, þ.e. frá 1. janúar 1999 til 1. janúar 2003.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi nokkur áhrif á útgjöld ríkissjóðs.