Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 526  —  332. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um byggingarsamvinnufélög.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Vilhjálmsson og Inga Val Jóhannsson frá félagsmálaráðuneyti. Þá komu á fund nefndarinnar Ragnar Hafliðason frá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Sig­ríður Jónsdóttir og Gunnar Jónatansson frá Búseta hsf.
    Frumvarpi þessu er ætlað, verði það að lögum, að koma í stað VI. kafla núgildandi laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, með síðari breytingum, en þau munu falla úr gildi 1. janúar 1999. Hefur orðalagi aðeins verið lítillega breytt með tilliti til stofnunar Íbúðalána­sjóðs.
    Við umfjöllun í nefndinni var fjármálastarfsemi slíkra félaga skoðuð sérstaklega. Ákvað nefndin að leggja til þá breytingu á ákvæði til bráðabirgða II að félagsmálaráðherra verði gert að láta kanna sérstaklega eftirlit með slíkri starfsemi félaga af þessu tagi. Þá telur nefndin óeðlilegt að tilgangur slíks félags sé m.a. að taka til ávöxtunar fé félagsmanna sinna, eins og gert er ráð fyrir í a-lið 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Leggur nefndin því til að umræddur liður verði felldur brott.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með áðurnefndum breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 16. des. 1998.



Kristín Ástgeirsdóttir,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Rannveig Guðmundsdóttir.



Siv Friðleifsdóttir.


Kristján Pálsson.


Pétur H. Blöndal.



Magnús Stefánsson.


Guðný Guðbjörnsdóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.