Ferill 369. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 573  —  369. mál.




Frumvarp til laga



um breytingar á lögum um fæðingarorlof.

Flm.: Guðný Guðbjörnsdóttir, Kristín Halldórsdóttir.



I. KAFLI
Breytingar á lögum um fæðingarorlof, nr. 57/1987, með síðari breytingum.

1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, eiga rétt á fæðingar­orlofi í allt að tólf mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. þó ákvæði laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, um lengingu fæðingarorlofs af sér­stökum ástæðum. Foreldrar geta tekið hluta fæðingarorlofs með hlutastarfi og lengist þá or­lofið í hlutfalli við vinnu. Þá geta foreldrar einnig báðir verið í orlofi á sama tíma að fullu eða að hluta. Af tólf mánaða fæðingarorlofi eru sex mánuðir sérstaklega ætlaðir móður, þrír mán­uðir ætlaðir föður en þremur mánuðum geta foreldrar skipt að vild. Taki faðir ekki fæðing­arorlof sem honum er sérstaklega ætlað fellur sá hluti orlofsins niður.

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er konu að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæð­ingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Beri fæðingu að fyrir áætlaða töku fæð­ingarorlofs telst fæðingarorlofið hafið á fæðingardegi.
    Upphaf tólf mánaða fæðingarorlofs vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. 2. gr., miðast við þann tíma þegar barnið kemur á heimilið, enda staðfesti barnaverndar­nefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef barn, sem ættleiða á, er sótt til útlanda skal ættleiðandi foreldri þó heimilt að hefja töku fæðingarorlofs við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt. Ákvæði 1. mgr. á einnig við þegar barn er ættleitt eða tekið í fóstur.

3. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, skulu fá greitt sem samsvarar fullum launum sínum í fæðingarorlofi. Um greiðslu fæðingarstyrks og fæðingar­dagpeninga og greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og lengingu á slíkum greiðslum af sérstökum ástæðum fer eftir ákvæðum laga um almannatryggingar.


4. gr.

    Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. gr. eiga foreldrar sem gegna launuðum störfum og eiga lögheim­ili á Íslandi frá gildistöku laga þessara til 1. janúar árið 2002 einungis rétt á fæðingarorlofi í allt að níu mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Frá þeim tíma til 1. janúar árið 2002 miðast orlofið við tíu mánuði, en tólf mánuði frá þeim tíma, sbr. þó í öllum tilvikum ákvæði almannatryggingalaga um lengingu fæðingarorlofs af sér­stökum ástæðum. Af níu mánaða fæðingarorlofi er einn mánuður eingöngu ætlaður föður, af tíu mánuðum eru tveir mánuðir ætlaðir föður, en af tólf mánuðum þrír mánuðir. Samanlagt fæðingarorlof foreldra verður aldrei lengra en níu mánuðir frá gildistöku laga þessara til 1. janúar 2002, tíu mánuðir frá þeim tíma til 1. janúar 2003, en 12 mánuðir frá þeim tíma. Taki faðir ekki fæðingarorlof sem honum er sérstaklega ætlað fellur sá hluti orlofsins niður.

II. KAFLI


Breytingar á lögum um almannatryggingar,


nr. 117/1993, með síðari breytingum.


5. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sex mánuði“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: tólf mánuði.
     b.      Í stað orðsins „kjarasamningum“ í 2. mgr. kemur: lögum þessum eða kjarasamningum.
     c.      Í stað orðanna „sex mánuði“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: tólf mánuði.

6. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      3. málsl. a-liðar orðast svo: Þeir sem eiga rétt samkvæmt lögum þessum eða kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi eiga þó ekki rétt á greiðslum fæðingardagpen­inga samkvæmt ákvæði þessu.
     b.      Í stað orðanna „sex mánuði“ í c-lið kemur: tólf mánuði.
     c.      F-liður fellur brott.

7. gr.


    16. gr. a orðast svo:

Fæðingarorlofssjóður.


     a.      Stofna skal sérstakan sjóð, fæðingarorlofssjóð, sem varðveita skal hjá Tryggingastofnun ríkisins. Foreldrar, sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi, eiga rétt á greiðslu úr sjóðnum samkvæmt þessari grein. Það er þó háð því skilyrði að foreldrar hafi að jafnaði átt lögheimili hér á landi og starfað hér á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðinguna og eigi lögheimili hér við fæðingu barnsins. Nánar skal kveðið á um lögheimilisskilyrði í reglu­gerð. Þeir sem eiga rétt samkvæmt kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi eiga þó ekki rétt til greiðslu úr fæðingarorlofssjóði samkvæmt ákvæði þessu þann tíma sem óskert laun eru greidd.
     b.      Greiðslur úr fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi skulu nema fjárhæð sem samsvarar heildarlaunum þeirra samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Ákvæði 16. gr. um lengingu fæðingarorlofs af sérstökum ástæðum gilda einnig um foreldra sem fá greiðslur úr fæðingarorlofssjóði.

     c.      Greiðslur úr fæðingarorlofssjóði greiðast úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins gegn framvísun vottorðs læknis og sönnunar um launagreiðslur og atvinnuþátttöku við­komandi samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.
     d.      Útgjöld lífeyristrygginga vegna greiðslna úr fæðingarorlofssjóði skulu greidd af framlagi atvinnurekenda til lífeyristrygginga.

8. gr.


    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 15., 16. og 16. gr. a skulu fæðingarstyrkur, fæðingardagpeningar og greiðslur úr fæðingarorlofssjóði einungis greidd í níu mánuði í stað tólf frá 1. janúar 2000 til 1. janúar 2002, í tíu mánuði frá þeim tíma til 1. janúar 2003 en í tólf mánuði frá þeim tíma, sbr. þó ákvæði greinanna um framlengingu á greiðslum af sérstökum ástæðum.

III. KAFLI


Gildistaka.


9. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000.

Greinargerð.


    Núverandi löggjöf um fæðingarorlof er um margt ófullnægjandi. Árið 1974 var samþykkt frumvarp sem tryggði konum sem „forfölluðust frá vinnu“ atvinnuleysisbætur í 90 daga. Fram að þeim tíma höfðu aðrar konur en þær sem voru opinberir starfsmenn aðeins átt rétt á ákveð­inni lágmarksupphæð í fæðingarstyrk við fæðingu barns. Árið 1980 var umsjón greiðslna í fæðingarorlofi flutt frá Atvinnuleysistryggingasjóði til lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar. Sama ár var öllum konum tryggður lágmarksréttur til fæðingarstyrks. Árið 1987 var greiðsl­um skipt í annars vegar fæðingarstyrk, sem er óháður atvinnuþátttöku, og hins vegar fæðing­ardagpeninga, sem miðast við vinnuframlag. Jafnframt voru greiðslur í fæðingarorlofi lengdar fyrst í fjóra mánuði en í áföngum upp í sex mánuði árið 1990. Konur sem eru opinberir starfs­menn eða félagar í Sambandi íslenskra bankamanna fá greidd laun frá vinnuveitanda í fæð­ingarorlofi í stað greiðslna frá Tryggingastofnun. Á vorþingi 1997 var gildandi lögum um fæðingarorlof, nr. 57/1987, og lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, breytt. Sú endur­skoðun fól í sér nokkrar réttarbætur fyrir foreldra og börn, fyrst og fremst vegna fjölbura- og fyrirburafæðinga. Að mati flutningsmanna var með þeim breytingum hins vegar alls ekki gengið nægilega langt í því að bæta stöðu allra foreldra í fæðingarorlofi og þá sérstaklega feðra. Frá 1. janúar 1998 hafa feður þó fengið tveggja vikna sjálfstæðan rétt til fæðingar­orlofs. Fæðingarorlof þetta skal taka innan átta vikna frá fæðingu eða heimkomu barnsins.
    Ef litið er til Norðurlandanna er fæðingarorlof styst á Íslandi og í Danmörku eða sex mán­uðir ef um einburafæðingu er að ræða. Fæðingarorlof hefur verið níu mánuðir í Finnlandi og tólf mánuðir í Svíþjóð. Í Noregi er fæðingarorlof 52 vikur eða 12 mánuðir á 80% launum eða 42 vikur á fullum launum. Í Finnlandi er greidd sama upphæð og þegar um sjúkradagpeninga er að ræða og í Svíþjóð miðast greiðslur við laun á vinnumarkaði, en hlutfallið hefur verið breytilegt í gegnum tíðina. Nú eru greidd 80% af launum, en hlutfallið breyttist úr 75% í 80% um áramótin 1997–98. Í Danmörku fá launþegar full laun. Á Íslandi eru greiðslur vegna fæð­ingarorlofs háðar atvinnuþátttöku og vinnuveitendum. Þetta yfirlit sýnir að annars vegar er litið á fæðingarorlof sem hluta af bótagreiðslum almannatrygginga en hins vegar er litið á það sem samningsbundinn rétt launþega til að halda launum sínum á meðan á fæðingarorlofi stendur.
    Breytingar á lögum um fæðingarorlof hafa oft komið til endurskoðunar. Haustið 1989 var skipuð nefnd sem átti að fjalla um breytingar á lögum um fæðingarorlof. Sú nefnd samdi frumvarp sem aldrei var lagt fram. Þar var lagt til að greiðslur í fæðingarorlofi yrðu ákveðið hlutfall af tekjum, eða 80%. Opinberir starfsmenn voru á móti frumvarpinu, m.a. vegna þess að þeir töldu að það hefði leitt til skerðingar á kjörum þeirra og því verið skref aftur á bak.
    Á árunum 1983–87 lögðu kvennalistakonur í þrígang fram frumvarp um að lengja fæðing­arorlof úr þremur mánuðum í sex en það fékkst ekki samþykkt. Árið 1987 var hins vegar sam­þykkt frumvarp ríkisstjórnarinnar um lengingu fæðingarorlofs í sex mánuði í áföngum. Á ár­unum 1990–94 lögðu kvennalistakonur þrívegis fram frumvarp um lengingu fæðingarorlofs í níu mánuði. Helstu nýjungar í frumvarpi Kvennalistans voru eftirfarandi: Að lengja fæðing­arorlofið um þrjá mánuði eftir fæðingu; að tryggja öllum mæðrum hvíldartíma fyrir fæðingu; að fæðingarorlof verði þremur mánuðum lengra eftir fjölburafæðingu; að fæðingarorlof ætt­leiðandi foreldra, uppeldis- eða fósturforeldra lengist í áföngum til jafns við fæðingarorlof annarra foreldra; og síðast en ekki síst að foreldrar geti dreift greiðslum fæðingarorlofs eftir ákveðinn tíma þannig að hægt sé að lengja fæðingarorlofið á þann hátt ef foreldrar æskja þess. Á 117. löggjafarþingi árið 1993–94 lagði Jóhanna Sigurðardóttir fram þingsályktunartil­lögu um að ríkisstjórnin skipaði nefnd til að endurskoða lög og reglugerðir um fæðingarorlof þar sem m.a. átti að huga að rétti feðra og lengingu fæðingarorlofs í áföngum. Árin 1995 og 1996 lögðu Ögmundur Jónasson o.fl. fram tillögu til þingsályktunar um a.m.k. tveggja vikna fæðingarorlof feðra á launum. Árið 1995, á 120. löggjafarþingi, fluttu kvennalistakonur til­lögu til þingsályktunar um fæðingarorlof (226. mál, þskj. nr. 307). Tillögugreinin hljóðaði á eftirfarandi hátt:
    „Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að láta semja frumvarp til laga um fæðingar­orlof sem byggist á eftirfarandi markmiðum:
          að tryggja feðrum sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í þrjá mánuði,
          að tryggja ungbörnum umönnun beggja foreldra á fyrsta æviárinu með því að lengja fæðingarorlof í tólf mánuði í áföngum,
          að gera foreldrum kleift að taka fæðingarorlofið á lengri tíma með hlutagreiðslum að eigin vali,
          að tryggja öllum mæðrum hvíldartíma fyrir fæðingu,
          að tryggja feðrum sérstakt fæðingarorlof í tvær vikur eftir fæðingu barns, sem ekki skerðir fæðingarorlof móður,
          að fæðingarorlof verði lengra eftir fjölburafæðingu,
          að fæðingarorlof ættleiðandi foreldra, uppeldis- eða fósturforeldra lengist í áföngum til jafns við fæðingarorlof annarra foreldra,
          að endurskoða fjármögnun fæðingarorlofs þannig að stofnaður verði sérstakur fæðingarorlofssjóður sem allir atvinnurekendur, jafnt í opinberum rekstri sem einkarekstri, greiði til ákveðið hlutfall af launum allra launþega, svokallað fæðingarorlofsgjald,
          að bæta kjör foreldra í fæðingarorlofi þannig að launþegar haldi sínum launum úr fæðingarorlofssjóði. Að auki greiði Tryggingastofnun ríkisins áfram fæðingarstyrk vegna þess kostnaðarauka sem fæðing barns hefur í för með sér. Þetta eigi við um fæðingar allra barna.“
    Frumvarpið sem hér er lagt fram byggist í meginatriðum á sömu markmiðum.

    Umfjöllunin um að konur, eða foreldrar, njóti sömu réttinda til fæðingarorlofs þarf að taka mið af því hvort verið er að greiða fólki fyrir að eignast börn óháð atvinnuþátttöku eða hvort atvinnuþátttaka og laun á vinnumarkaði móta réttarstöðuna og greiðslurnar. Konur sem eru opinberir starfsmenn eða félagar í Sambandi íslenskra bankamanna fá laun frá vinnuveitanda í fæðingarorlofi en ekki greiðslur frá Tryggingastofnun. Þær konur sem starfa hjá ríkinu halda launum sínum óskertum fyrstu þrjá mánuði fæðingarorlofs en fá eftir það grunnlaun. Þær hafa einnig rétt til að lengja fæðingarorlofið með því að vinna hluta úr degi.
    Þetta á hins vegar ekki við um feður. Fjármálaráðuneytið hefur túlkað lögin þannig að karlar sem vinna hjá ríkinu eigi ekki rétt á launuðu fæðingarorlofi. Eiginmenn kvenna sem eru ríkisstarfsmenn eiga heldur ekki rétt á dagpeningum frá Tryggingastofnun. Þannig hafa ríkisstarfsmenn í raun takmarkaða möguleika til að skipta greiðslum í fæðingarorlofi milli foreldra. Kærunefnd jafnréttismála hefur a.m.k. tvisvar fengið kæru vegna þessa og einu sinni hefur mál af þessu tagi farið fyrir Jafnréttisráð. Í áliti kærunefndar Jafnréttisráðs frá 10. sept­ember 1993 segir m.a.: „Með framkvæmd almannatryggingalaganna stendur stór hluti feðra … án nokkurs réttar til greiðslna, taki þeir fæðingarorlof og eru beittir misrétti sem engin efn­isleg rök virðast fyrir.“ Í niðurstöðum sínum beinir kærunefndin þeim tilmælum til fjármála­ráðuneytisins að það „hlutist til um að gerðar verði þær ráðstafanir sem þarf til þess að viður­kenndur verði og tryggður réttur feðra í þjónustu ríkisins til launa í fæðingarorlofi“.
    Litlar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að tryggja þessi réttindi feðra, samanber þó þá réttarbót sem gekk í gildi um sl. áramót þegar karlar öðluðust sjálfstæðan rétt til tveggja vikna fæðingarorlofs. Formlega geta feður fengið greiðslur í fæðingarorlofi í allt að fimm mánuði með leyfi móður, en það skerðir fæðingarorlofsgreiðslur til hennar sem því nemur.
    Í eftirfarandi töflu er gerð grein fyrir fæðingarorlofsgreiðslum Tryggingastofnunar ríkisins árin 1995–97. Að auki er talið að fyrstu ellefu mánuði þessa árs hafi um 1050–1100 feður nýtt sér sjálfstæðan rétt til 14 daga fæðingarorlofs.

Fæðingarorlofsgreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins.

Fullir dagpeningar, konur Hálfir dagpeningar, konur Fæðingarstyrkur,
konur
Fæðingardagpeningar karlar
1995 4.177 252 5.004 10
1996 4.233 274 5.039 15
1997 4.170 257 4.943 13

    Reynsla annars staðar á Norðurlöndum sýnir að hægt er að hafa áhrif í þessu mikilvæga jafnréttismáli ef lög og reglur eru samin með jafnrétti kynjanna fyrir augum. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga þann kynbundna launamun sem enn ríkir. Ef einstaklingar halda ekki launum sínum í fæðingarorlofi má búast við að það foreldrið sem er tekjulægra nýti allt fæðingarorlofið nema það sé bundið við báða foreldra þannig að það nýtist ekki til fulls nema báðir foreldrar taki sinn hluta. Fáir sænskir feður fóru t.d. í fæðingarorlof fyrr en lögin urðu þannig að þeirra hluti nýttist ekki nema þeir tækju hann. Nú taka um 50% sænskra feðra ein­hvers konar leyfi í tengslum við fæðingu barns. Ef miðað er við börn fædd í Svíþjóð árið 1991 höfðu 25% feðra tekið að meðaltali 23 daga leyfi þegar börnin voru sex mánaða. Þegar börnin voru ársgömul höfðu 39% feðra tekið að meðaltali 53 daga leyfi. Við lok ársins 1992 höfðu 45,5% sænsku feðranna tekið að meðaltali 63 daga leyfi. Reynslan sýnir að feður taka frekar leyfi eftir að barnið er orðið sex mánaða. Í Noregi eru fjórar vikur af 42 eða 52 vikum sérstaklega ætlaðar föðurnum og eru ekki yfirfæranlegir til móðurinnar. Eftir að núgildandi löggjöf var samþykkt þar fyrir þremur árum taka um 80% norskra feðra fæðingarorlof en áður gerðu það 2–3% feðra. Þá eru ekki meðtaldir svokallaðir pabbadagar sem eru 1–2 vikur eftir fæðingu í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi og eru eingöngu ætlaðir feðrum. Á svip­aðan hátt taka nú yfir 50% danskra feðra einhvers konar leyfi í tengslum við fæðingu barns.
    Flutningsmenn leggja mikla áherslu á nauðsyn þess að tryggja mun betur rétt beggja for­eldra til töku fæðingarorlofs, m.a. þriggja mánaða sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. Það er mat flutningsmanna að á meðan kynbundinn launamunur er eins mikill og raun ber vitni verði slíkt ekki gert með því að heimila feðrum að taka hluta af leyfi móður. Hér er því lagt til að feður fái þriggja mánaða sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs sem einungis þeir geti nýtt, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða sem gerir ráð fyrir því að lenging fæðingarorlofs og sjálf­stæður réttur föður lengist í áföngum.
    Þá er það mat flutningsmanna að nauðsynlegt sé að breyta fyrirkomulagi á greiðslum í fæðingarorlofi þannig að stefnt verði að því að foreldrar fái full laun í fæðingarorlofi. Því er lagt til að stofnaður verði sérstakur sjóður, fæðingarorlofssjóður, sem sé varðveittur hjá Tryggingastofnun ríkisins. Greiðslur úr þeim sjóði eiga að tryggja foreldrum full laun í fæð­ingarorlofi samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur, en fjármunir sjóðsins greiðast eins og fæðingardagpeningar úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Útgjöld lífeyristrygginga vegna greiðslna úr fæðingarorlofssjóði skulu greidd af framlagi atvinnurekenda til lífeyristrygginga. Á árinu 1997 námu þessar greiðslur 1.285 millj. kr., en á fjárlögum í ár er gert ráð fyrir 1.525 millj. kr. Þetta frumvarp kallar á mun hærri fjár­veitingar bæði vegna áfangalengingar fæðingarorlofsins úr sex í tólf mánuði og vegna þess að gert er ráð fyrir að fólk á almennum vinnumarkaði haldi launum sínum í fæðingarorlofi líkt og ríkisstarfsmenn og bankamenn. Lifandi fædd börn á Íslandi voru 4.280 árið 1995, 4.329 árið 1996 og 4.073 árið 1997. Þar sem frjósemi kvenna er 2,1 um þessar mundir má gera ráð fyrir að kostnaður við fæðingarorlof nemi um árslaunum á starfsævi hvers vinnandi manns. Hér er gert ráð fyrir að heimavinnandi fái fæðingarstyrk eins og verið hefur og að vinna námsmanna verði áfram metin sem vinna með tilliti til fæðingardagpeninga sem þyrftu að hækka í hlutfalli við laun á vinnumarkaði.
    Veruleg umræða um fæðingarorlof á sér nú stað í velflestum OECD-landanna, um vaxandi atvinnuþátttöku kvenna á öllum sviðum og þá kröfu að foreldrar sitji við sama borð varðandi réttindi og skyldur til fæðingarorlofs. Stórfyrirtæki og atvinnurekendur sýna málinu yfirleitt mikinn áhuga því að mikið er í húfi, ekki síst þegar um sérhæfðan mannafla er að ræða.
    Með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu skuldbinda stjórnvöld sig til að tryggja launafólki sama lágmarksrétt hér á landi og gildir í löndum Evrópusambandsins. Með tilskip­un um vinnuvernd barnshafandi kvenna frá 19. október 1992 eru aðildarlöndin skyldug til að lögbinda að minnsta kosti 14 vikna fæðingarorlof með óskertum launum eða dagpeningum sem jafngilda veikindalaunum konunnar. Ljóst er að nauðsynlegt er að breyta reglum um fæð­ingarorlof hér á landi til að standa við ákvæði ofannefndrar tilskipunar en aðlögunartíminn, sem er tvö ár, er þegar útrunninn. Fæðingarorlofskerfið hefur ekki þróast í takt við breyting­arnar í þjóðfélaginu. Fólk eignast æ færri börn, foreldrar af báðum kynjum vinna að jafnaði utan heimilis og æ fleiri líta á það sem sjálfsögð mannréttindi barna jafnt sem mæðra og feðra að fá að njóta samvista á fyrsta ári barnsins. Ekki verður lengur unað við ríkjandi ástand og því er þetta frumvarp flutt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    
    Lagðar eru til breytingar á ákvæði 2. gr. laga um fæðingarorlof. Í fyrsta lagi er lagt til að fæðingarorlof verði lengt úr sex mánuðum í tólf, en slíkt verður þó ekki gert í einu lagi, sbr. ákvæði til bráðabirgða. Í því ákvæði er gert ráð fyrir því að fæðingarorlofið verði níu mánuðir frá 1. janúar 2000 til 1. janúar 2002, tíu mánuðir frá þeim tíma til 1. janúar 2003 og tólf mán­uðir frá þeim tíma, sbr. athugasemdir við 4. gr. Þá er í öðru lagi kveðið á um að foreldrar geti tekið hluta fæðingarorlofsins með hálfu starfi og að orlofið lengist þá sem þeim tíma nemur. Í þriðja lagi er lagt til að ákvæði f-liðar 16. gr. almannatryggingalaga verði tekið upp í lögin en þar er gert ráð fyrir því að foreldrar geti skipt með sér fæðingarorlofi, t.d. verið báðir í orlofi á sama tíma að fullu eða að hluta. Í fjórða lagi er síðan lagt til að af tólf mánaða fæð­ingarorlofi verði sex mánuðir sérstaklega ætlaðir móður, þrír sérstaklega ætlaðir föður en þremur mánuðum geti foreldrar skipt að vild. Ef faðir nýtir sér ekki sjálfstæðan rétt sinn til fæðingarorlofs fellur hann niður, sbr. hér einnig ákvæði til bráðabirgða, athugasemdir við 4. gr.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að sá réttur sem feður hafa þegar fengið til 14 daga sjálfstæðs fæðingaror­lofs verði hluti af því þriggja mánaða sjálfstæða orlofi sem þeim er ætlaður með frumvarpi þessu. Það er foreldrum í sjálfsvald sett hvernig þeir skipta með sér orlofinu og því í þeirra valdi að ákveða hvort þau verði bæði hjá barni sínu tvær vikur af fyrstu átta vikunum í lífi þess. Sama regla gildir ef barn er ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur.

Um 3. gr.


    Lagt er til að foreldrar sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi fái greidd full laun í fæðingarorlofi eða samsvarandi hlutfall launa ef um hlutastarf er að ræða. Ákvæði um greiðslur í fæðingarorlofi er að finna í 15. og 16. gr. almannatryggingalaga og nýmæli um fæðingarorlofssjóð verður í 16. gr. a, skv. 8. gr. þessa frumvarps. Ráðherra skal ákveða með reglugerð nánari skilgreiningu á fullum launum.

Um 4. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að í ákvæði til bráðabirgða komi fram að þrátt fyrir breytingar á ákvæðum 2. og 3. gr. laga um fæðingarorlof muni lenging fæðingarorlofs úr sex mánuðum í tólf ekki gerast í einu lagi og að ákvæðin komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en árið 2003, sbr. athugasemdir við 1. gr.

Um 5. gr.


    Lagðar eru til nokkar breytingar á 15. gr. almannatryggingalaga til samræmis við breyting­ar sem gera ráð fyrir lengingu fæðingarorlofs, sbr. athugasemdir við 1. gr., og fjármögnun, sbr. athugasemdir við 6. og 7. gr. Með hliðsjón af nýmæli 8. gr. frumvarpsins um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði, sem skulu svara til fullra launa samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur, mun ákvæði 15. gr. almannatryggingalaga um fæðingarstyrk í framtíðinni fyrst og fremst taka til þeirra kvenna sem ekki eru á vinnumarkaði.

Um 6. gr.


    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 16. gr. almannatryggingalaga til samræmis við breyt­ingar sem gera ráð fyrir lengingu fæðingarorlofs, sbr. athugasemdir við 1. gr., og ákvæði um fæðingarorlofssjóð og greiðslur úr sjóðnum, sbr. athugasemdir við 7. gr. Þá er lagt til að f-liður 16. gr. verði felldur brott, en seinni málsliður hans hefur verið tekin upp í 2. gr. laga um fæðingarorlof, sbr. athugasemdir við 1. gr. Fyrri málsliður f-liðar fellur því brott þar sem talið er rétt að foreldrar ákveði sjálfir hvenær faðir tekur fæðingarorlof sitt enda getur staðið mis­jafnlega á hjá foreldrum. Ákvæði 16. gr. um fæðingardagpeninga mun því í framtíðinni, með hliðsjón af nýmæli 16. gr. a um fæðingarorlofssjóð, fyrst og fremst taka til námsmanna sem fullnægja nánari skilyrðum ákvæðisins.

Um 7. gr.


    Lagt er til það nýmæli að stofnaður verði sérstakur sjóður, fæðingarorlofssjóður, sem varð­veittur verði hjá Tryggingastofnun ríkisins. Greiðslur úr sjóðnum eiga að tryggja foreldrum full laun í fæðingarorlofi samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Fjárhæðir sem greidd­ar verða úr sjóðnum greiðast úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum á sama hátt og fæðingardagpeningar. Útgjöld lífeyristrygginga vegna greiðslna úr fæðingarorlofssjóði skulu greidd af framlagi atvinnurekenda til lífeyristrygginga. Samkvæmt lauslegum útreikningum má ætla að kostnaðarauki vegna breytinga samkvæmt frumvarpinu, ef það verður samþykkt, 1. janúar árið 2003 þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda, verði á bilinu 2,1–3 milljarðar kr.

Um 8. gr.


    Með hliðsjón af ákvæði til bráðabirgða um lengingu fæðingarorlofs í áföngum, sbr. athugasemdir við 4. gr., er hér lagt til að í ákvæði til bráðabirgða í almannatryggingalögum verði kveðið á um greiðslur í samræmi við fyrrnefnt ákvæði.

Um 9. gr.


    Lagt er til að lög þessi öðlist ekki gildi fyrr en 1. janúar 2000. Með því gefst nokkur tími til þess að undirbúa það að greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi aukast með tilkomu fæð­ingarorlofssjóðs, sbr. nánar umfjöllun í greinargerð.