Ferill 464. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 763  —  464. mál.




Frumvarp til laga



um styrktarsjóð námsmanna.

Flm.: Hjálmar Árnason, Guðni Ágústsson,     Ísólfur Gylfi Pálmason,


Magnús Stefánsson, Lúðvík Bergvinsson.



1. gr.
Hlutverk.

    Hlutverk styrktarsjóðs námsmanna er að styrkja efnilega nemendur til náms við fram­haldsskóla eftir nánari reglum sem stjórn sjóðsins setur.
    Styrktarsjóður námsmanna er sjálfstæð stofnun með eigin stjórn og sjálfstæðan fjárhag.

2. gr.
Stjórn.

    Menntamálaráðherra skal skipa sjóðnum sjö manna stjórn til fjögurra ára í senn. Tveir stjórnarmanna skulu skipaðir án tilnefningar en Samtök iðnaðarins, Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands, Stúdentaráð Háskóla Íslands og Iðnnemasamband Íslands tilnefna einn mann hver. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
    Stjórnin kýs sér formann og skiptir með sér verkum að öðru leyti.
    Reikningar sjóðsins skulu yfirfarnir af löggiltum endurskoðanda.
    Stjórnin setur sjóðnum starfsreglur og úthlutunarreglur sem skulu staðfestar af mennta­málaráðherra. Stjórninni er m.a. heimilt að ákveða skiptingu ráðstöfunarfjár eftir námsgrein­um, sviðum eða verkefnum, sbr. þó 4. gr.
    Stjórnin tekur ákvörðun um úthlutun námsstyrkja í samræmi við samþykktar úthlutunar­reglur. Ákvörðun stjórnarinnar verður ekki kærð til menntamálaráðherra.
    

3. gr.
Tekjur.

    Tekjur styrktarsjóðs námsmanna eru:
     1.      Árlegt framlag úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni.
     2.      Frjáls framlög einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga.
     3.      Vaxtatekjur.
     4.      Aðrar tekjur.

4. gr.
Ráðstöfun tekna.

    Stjórn sjóðsins tekur ákvörðun um ráðstöfun tekna.
    Þeim sem leggur til fé í sjóðinn, öðrum en ríkissjóði, er heimilt að binda framlag sitt skil­yrðum. Skilyrtu framlagi ásamt vaxtatekjum af því verður eingöngu ráðstafað í samræmi við skilyrði sem sett eru af hálfu styrktaraðila, svo framarlega sem þau rúmast innan lögbundins hlutverks sjóðsins. Stjórn sjóðsins er skylt að fara eftir slíkum fyrirmælum.
    Stjórn sjóðsins er ekki skylt að ráðstafa öllu ráðstöfunarfé sjóðsins ár hvert.
    Þóknun stjórnarmanna og önnur rekstrargjöld skulu greidd af tekjum sjóðsins.

5. gr.
Skattalegt hagræði af framlögum.

    Við ákvörðun skatta geta einstaklingar dregið framlög til styrktarsjóðs námsmanna frá tekjum sínum skv. II. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breyt­ingum, á því ári sem framlag er veitt.
    Lögaðilar og sjálfstætt starfandi einstaklingar geta dregið framlög sín til styrktarsjóðs námsmanna frá tekjum sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkri starfsemi á því ári sem framlag er veitt.
    

6. gr.
Umsóknir.

    Eigi síðar en í júlí ár hvert skal stjórnin auglýsa styrki til umsóknar fyrir komandi skólaár.
    Stjórnin setur reglur um form og efni umsókna, fylgigögn með umsóknum og umsóknar­fresti.
    Í auglýsingu skal koma fram svo skýrt sem verða má hvaða styrkir eru í boði, umsóknar­frestur, afhendingarstaður umsóknar og hvaða atriði ráði vali á styrkþega.

7. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að komið verði á fót sérstökum styrktarsjóði námsmanna sem veiti efnilegum nemendum óafturkræfa styrki til framhaldsnáms við innlenda eða erlenda skóla.
    Gert er ráð fyrir því að ríkissjóður leggi fram nokkurt fé ár hvert en jafnframt er gert ráð fyrir að sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar muni leggja fjármuni í sjóðinn.
    Menntamálaráðherra er falið að skipa sjö manna sjóðstjórn sem ætlað er að semja úthlut­unarreglur og annast rekstur sjóðsins að öðru leyti.
    Hugmyndin er m.a. sú að þeir sem leggja fé í sjóðinn geti bundið framlög sín skilyrðum og mætti til dæmis nefna að ákveðnu framlagi megi eingöngu verja til ákveðins náms eða jafnvel til náms við ákveðna stofnun. Gert er ráð fyrir því að sjóðurinn starfi nokkuð sjálf­stætt og er ekki gert ráð fyrir afskiptum ráðherra af málefnum sjóðsins að öðru leyti en því að skipa stjórn og staðfesta úthlutunarreglur. Ákvörðun stjórnar um úthlutun styrkja er fullnaðarákvörðun um úthlutun og verður henni ekki skotið til menntamálaráðherra með stjórnsýslukæru.
    Frumvarpið mælir fyrir um sérstakt skattalegt hagræði fyrir þá sem leggja til fjármuni í styrktarsjóð námsmanna. Nýmæli er að einstaklingar geti lækkað skattstofna sína með fram­lögum sem þessum en lögaðilar og sjálfstætt starfandi einstaklingar hafa getað dregið frá tekjum sínum gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningar­mála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa sem rekstrarkostnað, sbr. 2. tölul. 31. gr. laga, nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. 15.–18. gr. reglugerðar, nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starf­semi. Hugsanlegt er að framlög til styrktarsjóðs námsmanna falli undir 31. gr. skattalaga og reglugerðina eða að breyting á reglugerðinni nægi til að leyfa frádrátt framlaganna frá at­vinnurekstrartekjum. Þrátt fyrir þetta þykir heppilegra að hafa skýrt ákvæði um að framlög séu frádráttarbær. Þá er samkvæmt frumvarpinu ekki gert ráð fyrir hámarki frádráttar eins og mælt er fyrir um í fyrrnefndum ákvæðum. Um skattalega meðferð styrkja og formkröfur að öðru leyti fer eftir gildandi skattalögum og má gera ráð fyrir að skattyfirvöld geri sam­bærilegar kröfur um sönnun frádráttar og greinir í 17. og 18. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Um skattalega meðferð styrkveitingar hjá styrkþega fer eftir reglum skattalaga.