Ferill 502. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 814  —  502. mál.




Fyrirspurn



til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um meðferð upplýsinga úr sjúkraskrám og gagna­grunn á heilbrigðissviði.

Frá Hjörleifi Guttormssyni.



     1.      Hverjum er fyrir hönd heilbrigðisstofnana ætlað að samþykkja afhendingu upplýsinga sem unnar eru úr sjúkraskrám til rekstrarleyfishafa?
     2.      Verður leitað samþykkis fyrir afhendingu upplýsinga úr hverri einstakri sjúkraskrá eða á hvern hátt er gert ráð fyrir að afstaða verði tekin til slíkrar afhendingar?
     3.      Hver er að mati ráðherra eigandi að upplýsingum sem skráðar eru eftir sjúklingum og um sjúklinga í sjúkraskrár?
     4.      Hefur læknir skýlausan rétt til að hafna því að upplýsingar sem frá honum og sjúklingi hans eru komnar, hafa verið færðar í sjúkraskrá og eru hluti af trúnaðarsambandi læknis og sjúklings fari í gagnagrunn á heilbrigðissviði?
     5.      Þarf einstaklingur að mati ráðherra að hafa verið eða vera talinn sjúkur og leita sér lækninga til að tekið sé við ósk frá honum um að upplýsingar um hann verði ekki fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði, sbr. 8. gr. laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði?
     6.      Verður eyðublað til úrsagnar úr gagnagrunni á heilbrigðissviði sent á hvert heimili í landinu eða á annan hátt til allra landsmanna?
     7.      Verða upplýsingar úr sjúkraskrám ósjálfráða, vanheilla og látinna einstaklinga afhentar rekstrarleyfishafa til flutnings í gagnagrunn á heilbrigðissviði? Hver tekur afstöðu til afhendingar upplýsinga sem varða framangreinda aðila og hver ber ábyrgð á henni?
     8.      Hvernig verður tryggt að upplýsingar um þá sem hafna því að upplýsingar um þá verði fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði verði samt sem áður ekki skráðar og hver ber ábyrgð á því að slíkt gerist ekki?
     9.      Hvernig á að standa að flokkun mismunandi upplýsinga um einstaka sjúklinga ef viðkomandi hefur leyft að tilteknar upplýsingar verði fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði en aðrar ekki? Hver ber ábyrgð á slíkri flokkun og hvar fer hún fram?
     10.      Hver er túlkun ráðherra á ákvæði 8. gr. laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði þar sem segir að landlæknir skuli sjá til þess að dulkóðuð skrá yfir viðkomandi sjúklinga sé ávallt aðgengileg þeim sem annast flutning upplýsinga í gagnagrunn á heilbrigðissviði? Hvernig verður staðið að framkvæmd þessa ákvæðis?
     11.      Hvernig á að tryggja að landlæknir einn viti hverjir neiti skráningu og flutningi upplýsinga um sig í gagnagrunn á heilbrigðissviði, sbr. athugasemdir við 8. gr. frumvarps til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði (109. mál, þskj. 109, á 123. löggjafarþingi)?


Skriflegt svar óskast.