Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 833  —  519. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um flutning á starfsemi Vegagerðarinnar til Borgarness.

Flm.: Magnús Stefánsson, Þorvaldur T. Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hefja undirbúning að flutningi á starfsemi aðalstöðva Vegagerðarinnar frá Reykjavík til Borgarness.

Greinargerð.


    Mestur hluti opinberrar þjónustu og opinberra stofnana er staðsettur á höfuðborgarsvæð­inu þrátt fyrir að um langt skeið hafi flest stjórnmálasamtök haft þá stefnu að auka starfsemi hins opinbera á landsbyggðinni. Þrátt fyrir miklar umræður mörg undanfarin ár hefur of lítið gerst í þessum efnum þótt nefna megi dæmi um slíkt. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa Land­mælingar Íslands verið fluttar frá Reykjavík til Akraness, unnið er að undirbúningi flutnings Lánasjóðs landbúnaðarins frá Reykjavík til Selfoss, Framleiðnisjóður landbúnaðarins mun verða í Borgarnesi í stað Reykjavíkur, hluti af starfsemi Íbúðalánasjóðs hefur verið færður frá Reykjavík til Sauðárkróks og þróunarsvið Byggðastofnunar hefur verið fært frá Reykja­vík til Sauðárkróks. Auk þessa má nefna að Byggðastofnun hefur leitast við að auka starf­semi tengda stofnuninni úti á landsbyggðinni í samstarfi við heimamenn á hverju svæði.
    Mikil fjölgun hefur orðið á störfum hjá hinu opinbera á höfuðborgarsvæðinu á undanförn­um árum en á sama tíma hefur landsbyggðin nánast verið sett hjá í þessum efnum. Langmest af nýrri opinberri starfsemi hefur verið staðsett á höfuðborgarsvæðinu þótt finna megi und­antekningar frá því, svo sem þegar Verðlagsstofa skiptaverðs var stofnuð og staðsett á Akur­eyri. Ljóst er að sú ógnvænlega þróun sem verið hefur varðandi búsetu í landinu kallar á að­gerðir og stjórnvöld verða að beita sér mun meira fyrir því að auka hlut landsbyggðarinnar í opinberri starfsemi.
    Árið 1992 skipaði Davíð Oddsson forsætisráðherra nefnd til að vinna tillögur um flutning stofnana frá höfuðborgarsvæðinu á landsbyggðina. Nefndin skilaði niðurstöðu um mitt ár 1993 og lagði fram tillögur um flutning nokkurra stofnana. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa aðstæður í þjóðfélaginu um margt breyst. Ein af tillögum nefndarinnar var að flytja starfsemi Vegagerðarinnar frá Reykjavík til Borgarness. Í röksemdum fyrir því kemur m.a. fram að vel fari á að Vegagerðinni sé valið aðsetur þar sem krossgötur eru á helstu umferðar­æðum landsins og að heimkynni séu ekki í mikilli fjarlægð frá Reykjavík þar sem æðstu stjórnvöld eru staðsett. Hringvegurinn liggur um bæinn og með tilkomu Hvalfjarðarganga er akstursvegalengd frá Reykjavík til Borgarness nú um 70 km. Þessu til viðbótar hefur bylt­ing í fjarskipta- og upplýsingatækni gert fjarlægðir að engu.
    Vegagerðin rekur nú umdæmisstöð í Borgarnesi. Hugmyndir hafa verið uppi um að færa þá starfsemi til í bænum og er heimild til þess í fjárlögum fyrir árið 1999. M.a. af því tilefni verður að teljast rökrétt að hrinda tillögu nefndar forsætisráðherra frá 1993 í framkvæmd. Í áliti nefndarinnar kemur fram sú skoðun að til athugunar komi að flytja starfsemi Vegagerðarinnar í áföngum til Borgarness ef einstakar deildir hennar eru taldar það sjálfstæðar að því verði komið við og eins verði að gera ráð fyrir þeim umþóttunartíma sem full hag­kvæmni krefst í þessum efnum.
    Ljóst er að flutningur á opinberri starfsemi eins og hér um ræðir varðar mjög hagsmuni starfsmanna stofnunarinnar. Því er lykilatriði að gott samstarf sé um málið við starfsmenn og að þeir taki fullan þátt í undirbúningi þess. Miðað við þá reynslu sem fengist hefur af flutningi opinberrar starfsemi milli staða er þetta mikilvægt því eðlilegt er að slíkar tillögur kalli fram neikvæð viðbrögð starfsmanna. Hagsmunir þeirra eru miklir og því verður að leiða málið til lykta á jákvæðan hátt í samstarfi við þá.
    Flutningsmenn tillögu þessarar telja að starfsemi Vegagerðarinnar væri vel staðsett í Borgarnesi og að með flutningi stofnunarinnar þangað mætti skjóta styrkari stoðum undir at­vinnustarfsemi og búsetu í sveitarfélaginu. Það hefði jákvæð áhrif á byggð í Borgarfjarðar­héraði og raunar á Vesturlandi öllu.