Ferill 541. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 865  —  541. mál.




Skýrsla



um dómsmálaráðherra um stöðu umferðaröryggismála fyrir árið 1998.

(Lögð fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. Almennt.
    Skýrsla um stöðu umferðaröryggismála sem nú er lögð fyrir Alþingi er í samræmi við þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 28. febrúar 1996, um stefnumótun er varðar aukið umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun. Í ályktuninni segir m.a.: „Dómsmálaráðherra kynni Alþingi í byrjun hvers árs stöðu umferðaröryggismála og hvernig áætluninni miðar í átt að settu marki. Starfs- og framkvæmdaáætlun verði endurskoðuð árlega.“ Meginefni þessarar skýrslu er í aðalatriðum samhljóða skýrslu vinnuhóps sem dómsmálaráðherra skipaði í ágúst 1996 til að sjá um framkvæmd umferðaröryggisáætlunarinnar og gera nýjar tillögur um verk­efni og áherslur í umferðaröryggismálum.
    Í vinnuhópnum sem nefndur hefur verið umferðaröryggisnefndin eru: Þórhallur Ólafsson, formaður Umferðarráðs, formaður, Georg Kr. Lárusson, varalögreglustjóri í Reykjavík, og Rögnvaldur Jónsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Vegagerðarinnar. Með hópnum starfa Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, og starfsmenn Umferðarráðs, þeir Óli H. Þórðarson framkvæmdastjóri, Sigurður Helgason upplýsingafulltrúi og Örn Þor­varðarson deildarsérfræðingur.
    Í skýrslunni er einkum fjallað um stöðu umferðaröryggismála eins og hún var í árslok 1998, hvernig miðað hefur í átt að settu markmiði og á hvað umferðaröryggisnefndin leggur megináherslu á árinu 1999.
    Alþingi hefur ályktað að stefnt skuli að því að alvarlegum slysum og banaslysum í um­ferðinni fækki fyrir árslok árið 2000 þannig að þau verði færri en 200 á ári í lok tímabilsins. Þrátt fyrir þetta markmið er það áfangi að þeirri framtíðarsýn að enginn láti lífið í umferð­inni eða slasist alvarlega. Til að þessu takmarki verði náð þurfa allir aðilar sem að umferðar­öryggismálum koma að samræma störf sín og vinna markvisst að sameiginlegum verkefnum og markmiðum. Eins og áður verður megináhersla lögð á fá en afmörkuð verkefni, en þau eru valin með tilliti til reynslu síðastliðins árs þar sem slysatölur voru vandlega skoðaðar og orsakir slysanna greindar. Hagkvæmustu og arðbærustu aðgerðirnar voru valdar og þær sem líklegastar eru til að skila þeim árangri sem stefnt er að.
    Á árinu 1999 verða meginviðfangsefnin:
          bílbelti og öryggisbúnaður,
          umferðareftirlit á þjóðvegum,
          of hraður akstur og
          ölvunarakstur.
    Margir aðilar tengjast umferðaröryggisstarfinu beint eða óbeint. Afar mikilvægt er að störf allra séu samræmd með einhverjum hætti og að aðilar leggi saman krafta sína að ein­stökum verkefnum. Náist víðtæk samstaða í þjóðfélaginu um áðurnefndar áherslur má búast við að árangur náist og að umferðarslysum fækki. Þrátt fyrir þessar megináherslur mun að sjálfsögðu verða unnið að öðrum þáttum í umferðaröryggisstarfinu af sama krafti og áður.
    Á árinu 1998 náðist góður árangur í vissum þáttum umferðaröryggisstarfsins. Einnig hafa verið gerðar veigamiklar breytingar á umferðarlögum og reglum jafnframt því sem ný tækni hefur verið tekin í notkun við umferðarlöggæslu. Lögreglan hefur einnig breytt um áherslur og verið sýnilegri. Virkari löggæsla er veigamikill þáttur í umferðaröryggisstarfinu og án öflugrar löggæslu verður settum markmiðum ekki náð. Nefndin leggur því til að við embætti ríkislögreglustjóra verði starfsemi þjóðvegalögregludeildar efld, en í byrjun ársins voru tveir starfsmenn ráðnir í deildina. Hlutverk hennar er að styrkja umferðarlöggæslu á landsbyggð­inni, sjá um skyndiskoðun ökutækja og starfrækja, ásamt lögregluembættum á landsbyggð­inni, öndunarsýnabíl og hraðamyndavélabíla, auk annarra verkefna.
    
Árangur af innheimtu umferðarsekta batnaði verulega eftir að nýtt miðlægt innheimtukerfi var tekið í notkun í ársbyrjun og hefur innheimtan reyndar aldrei verið betri. Búist er við að um 90–95% innheimtist án atbeina dómstóla og öll mál verði fullreynd. Þessi árangur er eftirtektarverður, sérstaklega vegna þess að fjöldi sekta hefur aldrei verið meiri. Búa nú allir landsmenn við sama sektarkerfi og fá sömu meðhöndlun og er það mikil framför.

Sektarinnheimta hjá lögreglustjórum Innheimt árið 1997
millj. kr.
Innheimt árið 1998
millj. kr.
Aukning
1997–98
Landið allt 194,4 305 56,9%
Reykjavík 63,6 146 229,6%
Utan Reykjavíkur 130,8 159 21,6%

Tafla 1. Samtals voru 35.636 sektarboð og sektargerðir sendar út árið 1998 fyrir 45.213 brot á umferðarlögum. Engar áreiðanlegar upplýsingar eru til um fjölda sekta fyrir árið 1997. Öll mál fá nú sömu meðferð og þeim er lokið að fullu. Ökumenn geta ekki búist við því að sleppa við að greiða sektir og kostnaður eykst hjá þeim sem ekki greiða innan tiltekins frests, sem er 30 dagar.

    Árangur náðist við að koma umferðarhraða að lögmæltum mörkum, sérstaklega um tíma síðastliðið sumar, og var lögreglan víða virkari og sýnilegri en áður. Jafn ökuhraði eykur umferðaröryggi verulega og er til þæginda fyrir alla í umferðinni.
    Talsverð reynsla hefur fengist af punktakerfinu á þessu eina ári sem liðið er síðan það var tekið í notkun. Árangurinn virðist vera góður, en þó er of fljótt að fullyrða hvort um varan­legan árangur sé að ræða og verður að skoða málið að ári liðnu til að marktæk reynsla fáist. Mikilvægt er að árangurinn sé metinn með því að rannsaka vel þau gögn sem fyrir liggja eftir fyrsta árið.
    Góð reynsla hefur fengist af þeim umferðaröryggisnefndum sem stofnaðar hafa verið um landið. Starf þeirra verður treyst með tilkomu umferðaröryggisfulltrúa á landsbyggðinni. Þess ber að geta að árangur af samstarfsverkefni Slysavarnafélags Íslands og Umferðarráðs við ráðningu umferðaröryggisfulltrúa á landsbyggðinni hefur farið fram úr björtustu vonum. Á síðastliðnu ári voru sex umferðaröryggisfulltrúar starfandi yfir sumartímann. Önnuðust þeir samræmingu í umferðaröryggisstarfinu og unnu að ýmsum nýjum verkefnum ásamt hundruðum félaga úr sveitum Slysavarnafélagsins um land allt.
    Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur hafið störf og starfsmaður var ráðinn til að sinna helstu verkefnum hennar. Góð reynsla var af notkun öndunarsýnatækja og er nauðsynlegt að huga að fjölgun þeirra, sérstaklega á landsbyggðinni. Í Reykjavík var 471 ökumaður færður til öndunarsýnatöku. Þar af reyndust 392 vera yfir leyfilegum mörkum. Bifreið ríkislögreglustjóra var á ferðinni um allt land í samvinnu við viðkomandi lögregluembætti. Þar voru tekin 65 sýni og reyndust 43 ökumenn vera undir áhrifum áfengis. Notkun öndunarsýnabifreiðar­innar hafði töluvert forvarnargildi, sérstaklega þar sem hún var notuð við útisamkomur og skemmtanir víða um land.

Fjöldi mála Heildarfjöldi mála/hlutfall
Hraðamyndavélar 2.283 16.861/ 13,5%
Rauðljósamyndavélar 55 1.052/ 5,2%
Öndunarsýni, lögreglan í Reykjavík 392 1.259/ 32,1%
Öndunarsýni, bíll ríkislögreglustjóra 65 sýnatökur/43 sviptir 1.259/ 3,4%

Tafla 2. Reynsla af notkun öndunarsýnatækja er góð og forvarnaráhrif mikil, sérstaklega af bílnum sem fer á milli staða. Reynslutími myndavéla er liðinn og ekkert því til fyrirstöðu að nota þær að fullu á þessu ári. Gerð verður tilraun þar sem myndavélarnar verða að notaðar til að mynda ökumenn og farþega sem ekki nota bílbelti.

    Tvær hraðamyndavélabifreiðar á vegum embættis ríkislögreglustjóra voru í notkun víða um landið síðastliðið sumar. Lögreglumenn á bifreiðunum unnu í samvinnu við lögreglu­embættin á landsbyggðinni. Alls voru 2.283 ökumenn sektaðir. Reiknað er með að á árinu 1999 verði notkun myndavélabílanna margfölduð enda er reynslutímabilinu nú lokið. Stað­setning og notkun bílanna verður skipulögð í samræmi við óskir lögregluembættanna og með tilliti til slysastaða.
    Kærðir voru 55 ökumenn sem óku gegn rauðu ljósi. Notkun rauðljósamyndavéla verður stóraukin á þessu ári en langan tíma hefur tekið að sigrast á ýmsum erfiðleikum sem upp hafa komið. Keyptur hefur verið viðbótarbúnaður sem tryggir 100% öryggi vélanna og mælir auk þess hraða og skráir upplýsingar sem áhugavert er að skoða. Á árinu er stefnt að margföldum afköstum og að stöðum verði fjölgað.
    Upplýsinga- og áróðursmál voru með hefðbundnu sniði á árinu 1998. Sérstakt átak trygg­ingafélaga og annarra gegn ölvunarakstri í desember, ásamt hefðbundnu starfi um verslunar­mannahelgina voru stærstu einstöku verkefnin. Árangurinn fyrir jólin 1997 var einstaklega góður því engir slösuðust vegna ölvunaraksturs meðan á átakinu stóð. Þá náðist góður árang­ur í desember 1998. Þá slösuðust færri í umferðarslysum en oft áður enda þótt margir hefðu verið teknir vegna ölvunar við akstur. Einnig var samvinnuverkefni milli Umferðarráðs, Toyota og Íslandsbanka um verslunarmannahelgina þar sem reynt var að höfða til ölvaðra ökumanna með nýjum hætti. Er þetta verkefni einstakt vegna aðildar einkaaðila í beinum áróðursmálum.
    Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í mars að taka þátt í hlutafélagi um gerð væntanlegs akstursæfingasvæðis sem byggt verður í samvinnu Ökukennarafélags Íslands, sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Sambands íslenskra tryggingafélaga, Reykjavíkurborgar, Vegagerð­arinnar, Umferðarráðs og fleiri aðila.
    Nýjar reglur um sektir og önnur viðurlög tóku gildi í maí 1998. Þar er sérstök áhersla lögð á ökuleyfissviptingar og samræmdar sektarfjárhæðir. Nýmæli eru einnig varðandi hraðasektir og sviptingar, þ.e. að nú er gert ráð fyrir þyngri viðurlögum við brotum í þétt­býli.

2. Staða og markmið.
    Árið 1998 var fjöldi alvarlega slasaðra og látinna í umferðinni heldur meiri en árið 1997 eða samtals 227. Hins vegar hefur sigið á ógæfuhliðina hvað varðar banaslys í umferð, en mun fleiri létust árið 1998 eða 27, en 15 árið 1997. Er þetta umtalsverð aukning og mun fleiri banaslys en urðu að meðaltali á árunum 1991–96, en þau voru um 18. Hafa ber í huga að um tiltölulega fá tilvik er að ræða, en fjöldinn er samt óásættanlegur og utan tölfræðilegra marka um frávik. Tölur um slasaða og látna byggjast á skýrslu Umferðarráðs um slys skráð af lögreglu.
























Mynd 1. Á árinu 1998 náðist ekki sett markmið og var um fjölgun að ræða frá árinu á undan. Munar þar mestu að fleiri létust í umferðinni en undanfarin ár. Aftur á móti var fjöldi alvarlegra slasaðra svipaður og á síðastliðnu ári, þó heldur meiri.

    Nefndin leggur til að á árinu 1999 verði undirmarkmið að auka notkun bílbelta og annars öryggisbúnaðar í 95–100%. Til þess að það megi takast þarf ný úrræði sem byggjast m.a. á aukinni löggæslu með breyttum aðferðum og nýjum árangursríkum áróðursaðferðum. Þessar aðgerðir þarf að samræma til að árangur náist.
    Á undanförnum tveimur árum hefur einkabílum fjölgað mikið, einnig hefur akstur aukist og fleiri hafa réttindi til að aka bílum. Þannig eru fleiri nýir ökumenn en áður. Þetta leiðir til þess að slysum fjölgar. Á móti kemur að bílar eru öruggari og yfirleitt meiri öryggisbún­aður í þeim, svo sem öryggispúðar (loftpúðar).

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


















Mynd 2. Rúmlega helmingur allra alvarlegra umferðarslysa varð innan þéttbýlismarka, en athyglisvert er að flestir lifðu þau af. Má leiða að því líkum að hraði sé þar minni og löggæsla meiri. Einnig eru viðbragðsaðilar betur búnir og sjúkrahús nærri vettvangi.

    Það sem einkennir banaslys á árinu 1998 eins og 1997 er hversu stór hluti þeirra varð í dreifbýli eða alls 20, þar af mörg á vegum með hlutfallslega lítilli umferð. Fimm banaslys­anna urðu í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu og tvö annars staðar í þéttbýli. Eins vekur athygli hve margir þeirra ökumanna og farþega í bílum sem létust, eða um 65%, notuðu ekki bílbelti eða annan öryggisbúnað. Þá eru a.m.k. fjögur banaslys rakin til ölvunaraksturs, sem er svip­að hlutfall og mörg undanfarin ár.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu




















Mynd 3. Þrír af hverjum fjórum sem létust í umferðarslysum lentu í slysi utan þéttbýlismarka. Á undanförnum árum hefur hlutfall þeirra sem látast í umferðarslysum utan þéttbýlismarka hækkað verulega. Er þetta ekki í samræmi við reynslu annarra þjóða og gerist á sama tíma og vegakerfið hefur batnað mikið. Sennileg skýring er að umferðarhraði hefur aukist og bílbelti eru ekki notuð.

    Kostnaður vegna umferðarslysa er gríðarlegur en að mati Hagfræðistofnunar Háskóla Ís­lands kosta umferðarslys þjóðfélagið um 12–15 milljarða kr. á ári. Kostnaður vegna bana­slysa er þó ekki metinn nema að litlu leyti. Evrópusambandið metur tjón vegna hvers bana­slyss í umferðinni til 100 millj. kr. (1 millj. ECU).
    Ef kostnaðarmat ESB er notað hefur kostnaður vegna banaslysa á þessu ári aukist um 900 millj. kr. sé miðað við meðaltal áranna 1991–96. Ekki er nokkur vafi á að mjög arðbært er að fjárfesta í auknu umferðaröryggi og að skynsamlegar fjárfestingar skila sér margfalt til baka. Annars staðar á Norðurlöndum hefur á undanförnum árum verið lögð mjög aukin áhersla á umferðaröryggismál og hafa þjóðirnar yfirleitt sett sér metnaðarfullar áætlanir og markmið um fækkun umferðarslysa.

























Mynd 4.      Eins og fram kemur á myndinni eru sveiflur meiri hér á landi vegna þess hve tölur eru lágar. Þrátt fyrir slæmt ár 1998 eru Íslendingar samt sem áður meðal þeirra sem hafa lægstu slysatíðni í heiminum. Noregur og Svíþjóð eru enn í fararbroddi hvað varðar umferðaröryggismál. Við þurfum að tryggja okkur sess með þeim og helst gera betur.

    Til að dragast ekki aftur úr nágrannaþjóðum okkar hvað varðar hlutfallslega lítinn fjölda látinna og slasaðra í umferðinni þurfa Íslendingar að leggja aukna áherslu á umferðaröryggi og gera a.m.k. jafnvel og helst betur en viðmiðunarþjóðir okkar sem eru Norðurlöndin. Staða okkar í umferðarmálum er hluti af menningu okkar og lífsgæðum.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Mynd 5. Mörg banaslys má rekja til þess að bílbelti voru ekki notuð. Leiða má líkur að því að 14 færri hefðu látið lífið í umferðarslysum á síðastliðnu ári hefðu bílbelti verið notuð. Af þessu má sjá að skýr fylgni er á milli of lítillar notkunar bílbelta og fjölda banaslysa.

    Nefndin leggur til að skoðaðar verði gaumgæfilega áætlanir Svía um „núll-framtíðarsýn“ eða „Null vision“ sem miðar að því að enginn látist eða slasist alvarlega í umferðinni í fram­tíðinni.

3. Aðgerðir og verkefni 1998.
a. Yfirlit.
    Sjaldan hafa verkefni og aðgerðir verið jafn miklar og á yfirstandandi ári og má fullyrða að flestallir aðilar sem láta sig umferðaröryggismál varða hafi lagt sig fram um að ná árangri. Mikilvægt er að opinberir aðilar geri sínar eigin áætlanir, í samræmi við ályktun Al­þingis frá 28. febrúar 1996. Mörg sveitarfélög vinna nú þegar eftir umferðaröryggisáætlun og þeim sveitarfélögum fjölgar stöðugt sem leggja aukna áherslu á umferðaröryggi.
    Umferðarlöggæsla var aukin á árinu sem er að líða. Á þessu ári þarf að leggja aukna áherslu á eftirlit á svartblettum og þar sem reynslan hefur sýnt að búast megi við umferðar­slysum. Samvinna er nú þegar hafin milli lögreglu og veghaldara um að veghaldarar sendi lögreglu upplýsingar um svartbletti og þá staði þar sem slysatíðni er mikil.
    Í umferðarverkefnum lögreglu fyrir sumarið er gert ráð fyrir aukinni áherslu á þjóðvegi á landsbyggðinni enda hafa flest alvarleg umferðarslys orðið þar á síðustu árum þrátt fyrir að umferðarmannvirki hafi verið lagfærð með bundnu slitlagi, einbreiðum brúm verið fækk­að, merkingar bættar og lýsing sett við hættulega staði. Þess vegna leggur nefndin til að lög­gæsla á þjóðvegum verði stórefld.
    Á árinu var lokið tengingu lögreglunnar við landsskrá brota, m.a. á umferðarsviðinu. Málsmeðferð og skilvirkni lögreglunnar hefur styrkst í sessi með samræmdri skráningu brot­anna sem er liður í því að ná markmiðum umferðaröryggisáætlunarinnar.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Mynd 6. Störf umferðaröryggisfulltrúa á landsbyggðinni skiluðu góðum árangri sumarið 1998. Nú hafa verið stofnaðar umferðaröryggisnefndir í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu. Verkefni þeirra eru fjöl­mörg og mikilvægt er að efla umferðaröryggisstarfið á landsbyggðinni í náinni framtíð.

b. Samvinnuverkefni.
    Eins og undanfarin ár var lögð áhersla á að þeir aðilar sem starfa að umferðaröryggismálum vinni saman.
    Könnun á notkun öryggisbúnaðar fyrir börn í bílum var gerð í samstarfi Slysavarnafélags Íslands, Umferðarráðs, nemenda í leikskólaskor Kennaraháskóla Íslands og samtakanna Betri borg fyrir börn og gert var fræðsluefni um sama efni.
    Samstarf lögreglu, Umferðarráðs og Vegagerðarinnar hélt áfram um aðgerðir til að draga úr ökuhraða, m.a. á þjóðvegum. Því var og beint gegn ölvunarakstri, hvatt var sérstaklega til varkárni í framúrakstri og hvatt var til aukinnar notkunar bílbelta.
    Sérstakt samstarfsverkefni Umferðarráðs og Slysavarnafélags Íslands var um ráðningu umferðaröryggisfulltrúa í sex landshlutum yfir sumarmánuðina.
    Umferðarráð festi kaup á tækjavagni sem er útbúinn til að nýtast á slysavettvangi þannig að allar merkingar væru eins og best verður á kosið við slíkar aðstæður. Auk þess er í honum annar búnaður til notkunar þegar slys verða. Það er lögreglan í Reykjavík sem hefur þennan búnað en hann var keyptur fyrir fé úr umferðaröryggissjóði.

c. Lög og reglur.
    Á árinu 1998 var haldið áfram að efla viðurlagakerfið vegna umferðarlagabrota með það fyrir augum að gera það skilvirkara og einfaldara. Eins og fram kemur í umferðaröryggis­áætlun til ársins 2001 var og talið nauðsynlegt að herða viðurlög við einstökum brotum og hækka sektamörk almennt. Með það fyrir augum hlutaðist dómsmálaráðherra til um að settar voru reglugerðir er lúta að sektamálum ásamt því að gerð var tillaga um breytingar á um­ferðarlögum að því er varðar notkun í farsíma við akstur.
    Nýjar regur um sektir tóku gildi 14. maí 1998. Þar er sérstök áhersla lögð á ökuleyfis­sviptingar og samræmdar sektarfjárhæðir. Nýmæli eru einnig um hraðasektir og sviptingar en nú er gert ráð fyrir þyngri viðurlögum við brotum í þéttbýli.
    Með heimild í 115. gr. laga um meðferð opinberra mála sem breytt var 1997 var sett ný reglugerð nr. 39 16. janúar 1998, um lögreglustjórasáttir. Reglugerðin tekur almennt á þeim málum sem lögreglustjórum er heimilt að ljúka. Umferðarlagabrot eru stærsti hluti þeirra mála. Megintilgangur reglugerðarinnar er að samræma meðferð sektamála og hefur hún því veruleg áhrif á alla meðferð umferðarlagabrota.
    Með heimild í 4. mgr. 100 gr. umferðarlaganna sem breytt var 1997 var sett reglugerð nr. 280 14. maí 1998, ásamt viðaukum um sektir og önnur viðurlög vegna umferðarlagabrota og brota á reglum settum samkvæmt þeim. Meginbreytingin frá fyrri reglugerðum kemur fram í viðaukunum, en þar er mælt fyrir um sektarfjárhæðir og sviptingartíma ökuréttar vegna algengustu brota á umferðarlögum eða reglum sem settar hafa verið samkvæmt þeim. Þessi breyting horfir til samræmingar á ákvörðun sektarfjárhæða á landsvísu. Viðurlög eru og nokkuð hert frá því sem áður var.
    Í tillögum um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum um bann við notkun far­síma við akstur er lagt til að notkun farsíma við akstur verði einungis heimil ef notaður er handfrjáls búnaður. Lagt er til ákvæðið taki ekki gildi fyrr en sex mánuðum eftir að lögin verða birt, að brot á lögunum verði refsilaus í eitt ár og að handfrjáls búnaður verði án tolla og vörugjalda.
    Gefnar hafa verið út reglugerðir um frágang á hraðatakmarkara í bifreið, nr. 71/1998, um flutning á hættulegum farmi, nr. 92/1998, um skoðun ökutækja, nr. 378/1998, um stærð og þyngd ökutækja, nr. 528/1998, og um rannsóknarnefnd umferðarslysa, nr. 681/1998. Unnið hefur verið að reglugerð um ökukennara og ökuskóla í ráðuneytinu og er sú vinna á lokastigi.

d.Ökuhraði.
    Í samræmi við umferðaröryggisáætlun til ársins 2001 hefur mikil áhersla verið lögð á að koma í veg fyrir ólöglegan ökuhraða, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Hraðamyndavélar voru m.a. notaðar við umferðareftirlit og einnig var mikið um hraðamælingar með hefðbundnum aðferðum. Þá voru hraðamælingartæki Umferðarráðs og nokkurra sveitarfélaga, svokallaðir „hraðavitar“, mikið notuð víða um land, m.a. í tengslum við störf umferðaröryggisfulltrúa.
    Ríkislögreglustjóri lagði á árinu áherslu á samstarf lögregluliða og samhæfingu þeirra við framkvæmd löggæsluverkefna. Í því sambandi gaf hann út fyrirmæli til lögregluliða um sam­starf við umferðareftirlit, m.a. um verslunarmannahelgina, og um bílbelti. Víða á þjóðvegum náðist árangur í að draga úr ökuhraða þó svo að tölur sýni að alvarlegum slysum á þjóðveg­um hafi fjölgað frá því sérstöku þjóðvegaeftirliti lögreglunnar var hætt árið 1994.

Aukning á meðalhraða Aukning á hámarkshraða Athugasemdir
Suðurlandsvegur
Selfoss – Reykjavík
91.9 km/t . 91.9 km/t
+ 0 %
119 km/t .121 km/t
+ 1,7%, mest 134 km/t
Aukin löggæsla
Reykjanesbraut
Hafnarfjörður – Keflavík
93,1 km/t . 93,4 km/t
+ 0%
123 km/t .129,7 km/t
+ 5,4%, mest 145 km/t
Aukin löggæsla
Umræður
Grindavíkurvegur
91,2 km/t . 95,5 km/t
+ 4,7%
130,7 km/t . 138,3 km/t
+ 5,8%, mest 149 km/t
Minni löggæsla
Norðurlandsvegur
í Norðurárdal
82,1 km/t . 94,8 km/t
+ 8,2%
113,5 km/t .134 km/t
+ 18,1%, mest 142 km/t
Hraði umfram mörk Banaslys
ESB -5 km/t hraðaminnkun -25% fækkun banaslysa Gangandi vegfarendur
Danmörk -5 km/t hraðaminnkun -19% fækkun banaslysa Akandi – gangandi
Noregur -3 km/t hraðaminnkun -15% fækkun banaslysa Akandi vegfarendur

Tafla 3. Taflan sýnir áhrifin á alvarleg slys ef hraði er minnkaður um að meðaltali um 3–5 km/klst. Heimildir: Vegagerðin, Norsk Trafikk sikkerhetshåndbok, Danska vegagerðin, ESB, Strategic Road Safety Plan, 10. feb. 1997.

    Hraðamyndavélar voru teknar formlega í notkun 26. maí 1998 að undangengnu reynslu­tímabili og mikilli undirbúningsvinnu. Settar voru reglur um notkun vélanna og málsmeðferð. Lögreglumenn fengu sérstaka kennslu í notkun myndavélanna sem notaðar voru víða um land í samvinnu við lögregluna á hverjum stað. Ljóst er að vélarnar hafa mikið eftirlits- og varn­aðargildi, málsmeðferð er skjótvirk og örugg þannig að þessi búnaður hefur sannað gildi sitt í því að ná markmiðum umferðaröryggisáætlunarinnar.

e. Ölvunarakstur
    Ríkislögreglustjóri setti í apríl 1998 reglur um töku öndunarsýna í ölvunarakstursmálum. Öndunarsýni er jafnsett blóðsýni við sönnunarfærslu í ölvunarakstursmálum samkvæmt um breytingu sem gerð var á umferðarlögunum á árinu 1997. Haldin voru námskeið fyrir lög­reglumenn sem annast töku öndunarsýna og var búnaðurinn tekinn í notkun 26. maí 1998. Tvö tæki eru í notkun, annað er á lögreglustöðinni í Reykjavík en hitt í sérbúinni bifreið ríkislögreglustjóra sem notuð var víða um land í samvinnu við lögreglustjórana. Í tengslum við þessi nýmæli var efnt til kynningarfunda fyrir alla lögreglustjóra, ríkissaksóknara og dómara um meðferð mála.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Mynd 7. Fækkun slysa vegna ölvunaraksturs er athyglisverð. Greinilegur árangur er að nást, sérstaklega á árinu 1998. Á síðastliðnu ári fjölgaði þeim verulega sem sviptir voru ökuréttindum vegna ölvunaraksturs, alls 1.217 ökumenn (2.059 grunaðir).

f. Bílbelti og öryggisbúnaður fyrir börn.
    Umferðarkannanir lögreglu og Umferðarráðs og kannanir umferðaröryggisfulltrúa og félaga í Slysavarnafélagi Íslands á notkun bílbelta og annars öryggisbúnaðar í bílum leiða í ljós að enn vantar mikið á að bílbeltanotkun geti talist vera fullnægjandi. Þó ber að geta þess að könnun á notkun öryggisbúnaðar fyrir börn í bílum leiddi í ljós talsverða aukningu, en enn vantar talsvert á að allir noti þann búnað á réttan hátt. Stórefla þarf þátt löggæslu í því skyni að framfylgja ákvæðum umferðarlaga um notkun bílbelta. Ljóst er að nauðsynlegt er að halda áfram fræðslustarfi um gildi bílbelta og afleiðingar þess að nota þau ekki. Allar rann­sóknir hafa leitt í ljós að ef takast mætti að fá alla ökumenn og farþega í bílum til að nota til­tækan öryggisbúnað væri hægt að fækka alvarlegum slysum og banaslysum mjög mikið eða um eða yfir 50%. Þá má ekki gleyma því aukna öryggi sem öryggispúðar fyrir framan og til hliðar við framsæti bifreiða veita í árekstrum.

g. Ungir ökumenn.
    Hlutdeild ökumanna á aldrinum 17–24 ára í umferðarslysum er mun meiri en í öðrum aldursflokkum. Margt bendir til að hlutur ungs fólks í slysum hafi minnkað á undanförnum árum sé miðað við slysatölur Umferðarráðs eða úr því að vera 33% árið 1987 í 20% árið 1996.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Mynd 8. Þrátt fyrir að sérstök áhersla hafi verið lögð á unga ökumenn í forvarnarstarfinu fjölgar slysum af völdum þeirra hlutfallslega. Gert er ráð fyrir að punktakerfið muni hafa áhrif á þessa þróun í framtíðinni.

    Hins vegar er hann langt í frá ásættanlegur og því er þörf á að auka vinnu á þeim vett­vangi. Þannig þarf sérstaklega að huga að orsökum tíðra banaslysa meðal ungra ökumanna og farþega þeirra og leita leiða til að koma í veg fyrir þau. Af 27 sem létust í umferðarslysum á árinu 1998 voru 10 á aldrinum 15–25 ára.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Mynd 9. Ungum ökumönnum sem létust í umferðarslysum á síðastliðnu ári fjölgaði miðað við meðaltal undanfarinna ára.

    Þegar byggt verður akstursæfingasvæði á höfuðborgarsvæðinu vonast menn til að efla megi undirbúning ungra ökumanna áður en þeir fá ökuréttindi og gera þá hæfari til að takast á við þá ábyrgð sem því fylgir að stjórna ökutæki.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu























Mynd 10.
Eins og sést á myndinni eru það ungir ökumenn sem safna flestum punktunum. Þrisvar sinnum fleiri karlmenn fá punkta en konur. Þetta er í samræmi við erlendar niðurstöður, svo sem frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Aldursdreifing innan hvers hóps er svipuð. Alls hefur 41 ökumaður fengið punkta sem nægja til sviptingar. Auk þess eru 15.634 ökumenn sem eru með sektir og punkta sem nægja til ökuleyfissviptingar.
h. Umferðarmannvirki.
    Notkun löggæslumyndavéla sem taka myndir af bílum sem ekið er gegn rauðu ljósi hófst á árinu 1997. Gerðar hafa verið breytingar á umferðarlögunum til að einfalda málarekstur hjá lögreglu og gera hann markvissari. Ný myndavél hefur verið keypt sem auk þess að taka myndir af bílum sem ekið er yfir gatnamót gegn rauðu ljósi mælir hraða þeirra. Þannig geta ökumenn nú verið sektaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi, fyrir of hraðan akstur og fyrir að nota ekki bílbelti, allt í sama skiptið. Þessi myndavél verður tekin í notkun á árinu 1999 og mun efla lögreglueftirlit mjög mikið því að gatnamótum þar sem unnt verður að nota slíkar myndavélar verður fjölgað frá því sem verið hefur.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Mynd 11. Fjöldi slysa á gatnamótum hefur minnkað. Má rekja fækkunina til notkunar rauðljósamyndavéla (sem voru teknar í notkun í febrúar 1997) og umræðna um þær. Einnig hefur önnur aukin löggæsla haft já­kvæð áhrif.

    Vegagerðin hefur unnið eftir eigin umferðaröryggisáætlun síðastliðin tvö ár. Mest áhersla hefur verið lögð á breikkun eða endurnýjun einbreiðra brúa. Einnig hefur Vegagerðin styrkt kaup á hraðamyndavélum, öndunarsýnatækjum og rauðljósamyndavélum. Vegagerðin keypti einnig ásamt Umferðarráði 70 GPS-staðsetningartæki sem afhent voru lögreglunni í þeim tilgangi að staðsetja slys með meiri nákvæmni. Í samstarfi við Umferðarráð hefur Vegagerð­in staðið að áróðri í fjölmiðlum og sett upp viðvörunarskilti fyrir vegfarendur við þjóðvegi. Vegagerðin hefur einnig lagfært slysastaði og gert ýmsar aðrar ráðstafanir til að fækka slys­um.
    Mjög mikil aukning hefur orðið á gerð hringtorga í Evrópu og Norður-Ameríku. Hér á landi hefur þessi þróun verið mun hægari en samt hefur verið gert þó nokkuð af hringtorgum, sérstaklega í þéttbýli. Þar sem borið hafði á því að ekið væri yfir hringtorgin í dreifbýli setti Vegagerðin nýjar reglur um merkingu þeirra og má segja að akstur þvert yfir hringtorgin heyri nú sögunni til.
    Á síðasta ári voru breikkaðar 14 brýr og eru flestar á umferðarmestu vegunum. Slysum við einbreiðar brýr fækkar en stefnt er að því að allar styttri brýr á umferðarþungum vegum verði tvíbreiðar í framtíðinni.

4. Aðgerðir og verkefni árið 1999.
a. Almennt.
    Nú eins og áður álítur umferðaröryggisnefndin að besta leiðin til að ná árangri sé að ein­beita sér að fáum lykilatriðum og forgangsraða verkefnum og að unnið sé á breiðum grund­velli með þátttöku allra sem að umferðaröryggismálum koma.
    Að þessu sinni verður lögð áhersla á fjögur meginviðfangsefni:
          bílbelti og öryggisbúnað,
          umferðareftirlit á þjóðvegum,
          of hraðan akstur og
          ölvunarakstur.
    Mikilvægt er að víðtæk samvinna sé um meginviðfangsefnin og að allir landsmenn leggi hönd á plóg til að koma í veg fyrir óþarfa slys í umferðinni með allri þeirri sorg og þjáningu sem þeim fylgir.

b. Verkefni ýmissa stofnana og fyrirtækja árið 1999.
Dómsmálaráðuneyti.
    Dómsmálaráðuneytið er nú aðili að „High-Level Group“ sem er æðsta stofnun Evrópu­sambandsins sem fer með umferðaröryggismál. Mikilvægt er að Íslendingar séu virkir þátt­takendur í þessu starfi en hagur okkar er ótvíræður vegna þeirra rannsókna og upplýsinga sem við fáum aðgang að með aðild að þessari stofnun.
    Í samræmi við samþykkt Evrópusambandsins eru Íslendingar nú skuldbundnir til að taka upp skyndiskoðun ökutækja samkvæmt reglugerð. Verður skyndiskoðunin á vegum umferðar­deildar ríkislögreglustjóraembættisins en á hennar vegum verður starfrækt þjóðvegalögregla á næsta ári.

Ríkislögreglustjóri.
    Ríkislögreglustjóri mun á árinu 1999 leggja fyrir lögreglustjórana að auka eftirlit á þjóð­vegum og á hálendi. Mun sérstök þjóðvegalögregludeild ríkislögreglustjóra verða lögreglu­liðum til stuðnings, m.a. með tækjabúnað og til að aðstoða við sérhæfð verkefni. Í því sam­bandi þarf að koma til aukin samvinna lögreglu, Vegagerðar, Umferðarráðs, Skráningar­stofu, tryggingafélaga, Landhelgisgæslu og ýmissa frjálsra félagasamtaka sem láta sig um­ferðaröryggi varða.
    Stefnt er að því að halda uppi sýnilegri og virkri löggæslu á þjóðvegum og auka tæknibún­að við umferðareftirlit. Ríkislögreglustjóri leggur áherslu á að öndunarsýnamælar verði komnir í notkun hjá stærstu lögregluliðum landsins á gildistíma umferðaröryggisáætlunarinn­ar. Fjölgað verði lögreglubifreiðum og nýrri tækni og aðferðum beitt við hraðamælingar og umferðarlöggæslu. Tryggja þarf að ekki þurfi nema einn lögreglumann til að sanna sök í máli. Annars staðar á Norðurlöndum er komin góð reynsla hjá lögreglunni við notkun „laser“-tækjabúnaðar við hraðamælingar og stefnt er að því að lögreglan hér á landi taki í notkun sams konar búnað.
    Notkun tæknibúnaðar við löggæslu krefst nákvæmni og mikils undirbúnings. Ríkis­lögreglustjóri mun beita sér fyrir að vandað verði til þeirrar vinnu þannig að allur undirbún­ingur meðferðar mála verði sem allra bestur.

Vegagerðin.
    Vegagerðin hefur sett reglur sem miða að því að öll hönnunargögn við nýframkvæmdir sem kosta meira en 50 millj. kr. verði yfirfarin af sérstökum vinnuhóp með það að markmiði að tryggja eins og kostur er að tekið sé tillit til umferðaröryggis við byggingu umferðarmann­virkja. Einnig hefur hún sett nýjar vinnureglur um greiningu á slysastöðum og lagfæringar á þeim og eiga þær að tryggja markvissari vinnubrögð.
    Vegagerðin hefur lagt á það áherslu að vinna með öðrum aðilum að umferðaröryggismál­um og hefur komið á samráðsfundum með ríkislögreglustjóra, Umferðarráði, lögreglunni í Reykjavík og embætti gatnamálastjórans í Reykjavík. Markmið fundanna er að samræma að­gerðir, skiptast á upplýsingum og vinna saman að vissum verkefnum í umferðaröryggismál­um.

Umferðarráð.
    Umferðarráð sinnir sínum margvíslegu hefðbundnu verkefnum, en mun eins og áður leggja áherslu á að auka samstarf allra þeirra aðila sem tengjast umferðaröryggismálum og vinna að þeim þáttum sem umferðaröryggisáætlunin gerir ráð fyrir. Mun í því sambandi verða lögð sérstök áhersla á að samhæfa enn frekar fræðslu og áróður samhliða meginviðfangsefnum lögreglu hverju sinni. Áfram verður leitað allra tiltækra leiða til að fá alla, jafnt ökumenn og farþega í bílum, til að nota bílbelti í akstri og leitast við að koma þannig í veg fyrir alvar­legustu afleiðingar slysa í umferðinni. Eru í því sambandi m.a. bundnar vonir við öflugt sam­starf við bifreiðatryggingafélögin og samstarfi við Bindindisfélag ökumanna um kynningu á mikilvægi bílbelta verður haldið áfram með svokölluðum „veltibíl“ Bindindisfélags öku­manna og Umferðarráðs.
    Í samstarfi við Slysavarnafélag Íslands verður leitað leiða til að ráða umferðaröryggis­fulltrúa í a.m.k. einhverjum landshlutum, en ljóst er að einhver tími mun líða þar til slíkir drifkraftar umferðaröryggisstarfs verða í öllum umdæmum, allan ársins hring.
    Stefnt er að því að efla útvarp Umferðarráðs enn frekar, m.a. með aukinni áherslu á um­ferð í dreifbýli.
    Umferðarráð mun leggja aukna áherslu á umferðarfræðslu í skólum og hafa verið unnar á vegum ráðsins mjög markvissar hugmyndir um eflda fræðslu í skólum landsins.
    Umferðarráð mun hvetja foreldra og forráðamenn barna og unglinga til þess að velta fyrir sér hversu mikið er í húfi í umferðarmálum og fá alla til að gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera þátttakandi í umferðinni. Þar er um að ræða ábyrgð á börnum og að foreldrar átti sig á mikilvægi aukinnar og bættrar ökukennslu. Kapp verður lagt á að efla og bæta ökupróf og gera þau að betri mælikvarða á hæfni ökumanna til að takast á við þær fjöl­breyttu hættur sem eru í umferðinni.
    Í samstarfi við Ökukennarafélag Íslands er stefnt að útgáfu á fræðslu- og kynningarefni um ökunám og verður það sent til allra unglinga rétt áður en þeir verða 16 ára og mega þar með hefja ökunám.
    Reynt verður að koma á markvissu samstarfi við ungt fólk, samtök framhaldsskólanema og fleiri til að unga fólkið sjálft geri sér grein fyrir hversu mikið er í húfi í umferðarmálum sem eru í raun eitt af stærstu hagsmunamálum ungs fólks í hinum vestræna heimi.
    Finna þarf ný úrræði til að koma í veg fyrir að fólk aki eftir að hafa neytt áfengis með megináherslu á að fólk skilji bílinn eftir heima þegar farið er á samkomur þar sem áfengi er haft um hönd, en einnig að fólk hafi áhrif á samferðafólk sitt og komi í veg fyrir að menn aki eftir drykkju.
     Bílbeltanotkun. Stefna ber að stóraukinni notkun bílbelta og annars öryggisbúnaðar fyrir ökumenn og farþega í bílum. Markmiðið er að 95% allra fullorðinna ökumanna og farþega í bílum noti bílbelti og öll börn, án undantekninga.
    Til að það geti gerst þarf að koma til viðamikið og markvisst samstarf margra aðila sem byggist á aukinni löggæslu og mikilli fræðslu og upplýsingamiðlun.
    Um gæti verið að ræða samstarf Umferðarráðs, lögreglu, tryggingafélaga, bílainnflytj­enda, olíufélaga og annarra sem reka starfsemi sem á einhvern hátt tengist akstri og umferð.
     Öryggispúðar (loftpúðar). Auka þarf miðlun upplýsinga um öryggispúða, þær hættur sem þeim geta fylgt og hvernig beri að standa að notkun þeirra, m.a. með tilliti til barna.
     Aldraðir og umferðaröryggi. Hefja þarf starf sem hefur það að markmiði að auka umferðaröryggi aldraðra. Fyrir liggur að öldruðum fjölgar mjög hratt á næstu árum og við því þarf að bregðast varðandi umferðaröryggi. Huga þarf að öldruðum bæði sem ökumönnum og gangandi vegfarendum.
     Aftanákeyrslur. Þær eru stærsti einstaki flokkur umferðaróhappa hér á landi eða allt að fjórðungur þeirra. Mikilvægt er að fækka þessum óhöppum. Það gerist fyrst og fremst með áróðri og fræðslu. Lykillinn að árangri er að ökumenn breyti aksturslagi sínu, auki bil á milli bíla og séu betur vakandi í akstri.
    Í framhaldi af gildistöku reglugerðar um ökuskírteini 1997 þarf að endurskoða og gefa út námskrár fyrir alla réttindaflokka. Allir ökuskólar munu framvegis starfa með starfsleyfi frá Umferðarráði og munu efla og auka við kennslu samkvæmt námskrám. Í því starfi þurfa þeir aðstoð og stuðning ökunámsdeildar Umferðarráðs. Samfara því starfi verður gengið frá kynningarefni og leiðbeiningum af ýmsu tagi fyrir ökunema, leiðbeinendur, ökuskóla og öku­kennara. Þá stendur yfir endurskoðun og nýsamning kennsluefnis fyrir ökunema á vegum Ökukennarafélags Íslands sem þörf er á að styðja. Haldið verður áfram að endurskoða skrif­leg próf fyrir flokka A, B, M og T auk þess að þjálfa upp ný verkleg próf, svo sem á eftir­vagna fyrir bifreið og verkleg próf til réttinda á stór bifhjól. Hafinn verður undirbúningur að tölvuvæðingu skriflegra prófa.
    Til viðbótar við þessi atriði þarf að halda áfram fjölbreyttu fræðslu- og upplýsingastarfi, sem er í föstum skorðum, með sérstöku tilliti til áherslna í umferðaröryggisáætlun.

Sveitarfélög.
    Nokkur sveitarfélög hafa gert sérstaka umferðaröryggisáætlun og vilja með því leggja sitt af mörkum til að takast megi að ná markmiðum umferðaröryggisáætlunar stjórnvalda. Meðal leiða sem farnar hafa verið er fjölgun hringtorga, þar sem þau eiga við, en það er talið draga verulega úr slysatíðni. Til dæmis er gerð hringtorga í Kópavogi talin hafa dregið úr slysa­hættu, en það hversu ný þau eru gerir að verkum að tölfræðilegur samanburður er naumast marktækur. Þá hafa sveitarfélög einnig lagt aukna áherslu á öryggi gangandi vegfarenda. Á þéttbýlisstöðum víða um land, þar sem mikil umferð er í gegnum bæina, er sífellt leitað leiða til að auka öryggi vegfarenda. Sem dæmi um þetta má nefna Vík í Mýrdal en þar eru nú uppi metnaðarfullar áætlanir um úrbætur.

Vátryggingafélög.
    Vátryggingafélag Íslands hf. mun halda áfram með umferðarmálafundi í framhaldsskólum í samstarfi við Félag framhaldsskólanema. Einnig verða haldnir fundir fyrir unga ökumenn í húsnæði félagsins. Vátryggingafélag Íslands mun einnig gangast fyrir fræðslu meðal eldri borgara og fyrir atvinnubílstjóra. Þá verða birtar auglýsingar í ljósvakamiðlum, dagblöðum og í kvikmyndahúsum.
    Á vegum Sjóvár-Almennra trygginga hf. er fyrirhugað að halda áfram námskeiðum fyrir bifreiðastjóra ýmissa stórra fyrirtækja. Einnig verður framhald á námskeiðum fyrir unga ökumenn á aldrinum 17–20 ára, en allar líkur eru á því að 100. námskeiðið verði haldið vor­ið 1999. Félagið tekur á hverju ári á móti stórum hluta ökunema á höfuðborgarsvæðinu þar sem þeir fá fræðslu um tryggingar og fleira. Nemendur í 10. bekk grunnskóla koma í heim­sóknir og fá kynningu um umferðaröryggismál.

Slysavarnafélag Íslands
    Rík áhersla verður lögð á að efla starf umferðaröryggisfulltrúa á landsbyggðinni, ekki síst vegna tíðra banaslysa í dreifbýli. Tengist það m.a. eflingu umferðarfræðslu í skólum og fleiru. Hvatt verður til aukinnar notkunar bílbelta og tekið þátt í samstarfi við Umferðarráð um kannanir á notkun öryggisbúnaðar fyrir börn, bæði barnabílstóla og hjólreiðahjálma. Reynt verður að virkja einstakar deildir innan félagsins í þessu starfi auk mikils fjölda ann­ars fólks sem tilbúið er að leggja umferðaröryggismálum lið.

Lögregluskóli ríkisins.
    Í grunnnámsdeild er unnið eftir gildandi námskrá og þar er haft að leiðarljósi að kenna verðandi lögreglumönnum umferðarlög og reglugerðir til að þeir geti tekið á flestum þeim verkefnum sem upp koma í umferðarlöggæslu og auka áhuga þeirra á henni almennt.
    Akstursþjálfun lögreglunema hefur verið í gagngerri endurskoðun að undanförnu og verð­ur hún aukin frá því sem verið hefur. Stefnt er að því að lögreglunemar hljóti akstursþjálfun á starfsþjálfunartímanum og einnig á síðari önn. Markmiðið með akstursþjálfun er að gera nemana að betri ökumönnum m.a. í forgangsakstri við störf sín. Stjórn skólans telur að með því að leggja aukna áherslu á akstursþjálfun lögreglunema í starfsþjálfun og í skólanum muni lögreglumenn framtíðarinnar verða enn hæfari til að leysa þann þátt starfans vel af hendi og að þar með minnki hættan á að því að slys og óhöpp verði í tengslum við forgangsakstur lög­reglubifreiða.
    Árið 1999 munu verða haldin námskeið fyrir starfandi rannsóknarlögreglumenn. Þar verða umferðarmálefni ásamt öðru til umfjöllunar og verður fjallað um rannsóknir umferðar­slysa og umferðarlagabrota með það að markmiði að gera rannsóknargögn þannig úr garði að þau nýtist ávallt sem best við framhaldsmeðferð mála. Ávinningurinn af því á fyrst og fremst að verða sá að betri og nákvæmari rannsóknargögn verði til auk þess sem með því skapast færi á að afla gleggri upplýsinga um atvik.
    Skólinn hefur í starfsliði sínu einn kennara sem hefur hlotið leiðbeinandaréttindi á önd­unarsýnamæla og hraðamyndavélar og getur því, í samræmi við óskir ríkislögreglustjóra, menntað starfandi og verðandi lögreglumenn í notkun nýrra löggæslutækja. Á árinu 1998 voru haldin námskeið í meðferð öndunarmælis og hraðamyndavélar í Lögregluskólanum. 13 lögreglumenn fengu réttindi á hraðamyndavélar og 22 á öndunarsýnamæla.
    Lögregluskólinn hefur unnið að gerð handbókar fyrir lögreglumenn um umferðarmál. Stefnt var að því á árinu, í samráði við ríkislögreglustjóra, að koma þeirri handbók í endanlegt horf og búa hana til prentunar. Með hliðsjón af aukinni notkun „netsins“ við að koma upplýsingum á framfæri við lögreglumenn var ákveðið að fresta um sinn að prenta handbók í umferðarfræði. Eru uppi hugmyndir um að koma henni inn á tölvukerfi lögreglunnar eða gera hana aðgengilega á annan hátt. Hefur ráðuneytið lýst yfir vilja til þess að Lögregluskól­inn taki þátt í þeirri vinnu og nýti þá reynslu sem fyrir er við gerð handbókar um umferðar­mál.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa.
    Undanfarin tvö ár hefur rannsóknarnefndin unnið að undirbúningi þess að rannsaka vissa flokka slysa í þeim tilgangi að leggja fram tillögur sem miða að fækkun slysa. Undirbúningi er lokið og hóf nefndin störf í ársbyrjun 1999. Reglugerð um starfsemi rannsóknarnefndar­innar hefur verið staðfest af dómsmálaráðherra og einnig eru starfsreglur hennar tilbúnar. Á fjárlögum í ár er ekki veitt fé til slysarannsókna en það er forsenda þess að nefndin geti starfað af krafti. Ekki þarf að fjölyrða um nauðsyn þess að rannsaka vissa flokka slysa þar sem það er oft forsenda þess að hægt sé að fyrirbyggja frekari slys af sama toga.



Fylgiskjal I.


Verkefnalisti sem birtur var í athugasemdum við þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi 28. febrúar 1996 um stefnumótun er varðar aukið umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun.

     1.      Dómsmálaráðuneytið hefur yfirumsjón umferðaröryggismála. Dómsmálaráðherra skipi starfshóp til að fjalla um verkaskiptingu milli dómsmálaráðuneytis og samgönguráðu­neytis með það að markmiði að samnýta betur tækniþekkingu og tryggja skilvirkari framkvæmd umferðaröryggismála í landinu. Starfshópurinn hefur ekki verið skipaður. Óformlegar viðræður hafa átt sér stað.
     2.      Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal starfrækt á ný og rannsaki hún alvarlegustu umferðarslysin ásamt því að vera ráðgefandi fyrir Alþingi í sérstökum málum er varða umferðaröryggi. Nefndin tók til starfa 1. janúar 1999 samkvæmt reglugerð nr. 681/1998.
     3.      Stofnaður verði sjóður sem veiti fé til rannsóknarverkefna á umferðaröryggissviði. Sjóðurinn geti einnig stutt áhugaverðar aðgerðir ef sýnt þykir að þær stuðli að meira umferðaröryggi, t.d. hjá sveitarfélögum. Nú er innheimt umferðaröryggisgjald við aðal­skoðun, nýskráningu og eigandaskipti hverrar bifreiðar að upphæð 100 krónur. Til að efla umferðaröryggisstarfið er lagt til að hækka gjaldið í 150 krónur. Umferðarráð nýti hluta þessarar fjárhæðar til að styrkja einstök umferðaröryggisverkefni sem áhugaverð eru. Ef ákveðið verður að heimila sérnúmeraplötur og á þær lagt sérstakt umferðar­öryggisgjald sem renni til Umferðarráðs verði það fé einnig notað í sama tilgangi. Einnig er æskilegt að vátryggingafélög, Vegagerðin og fleiri aðilar leggi fé í sjóðinn. Sjóðurinn hefur verið starfræktur í þrjú ár. Í hann rennur gjald fyrir einkanúmer o.fl. Endurskoða þarf reglur, fjármögnun og markmið sjóðsins.
     4.      Samvinna þeirra fjölmörgu aðila er að umferðaröryggismálum vinna er forsenda öflugs og árangursríks umferðaröryggisstarfs. Samvinna hefur verið stóraukin og árlega ráðist í umfangsmikil samvinnuverkefni. Það starf verður að vera í stöðugri endurskoðun.
     5.      Samræma skal skráningu umferðarslysa á landinu öllu. Umferðarráð samræmi skráningu lögreglu, sjúkrastofnanir sína skráningu og tryggingafélögin sína. Þessir þrír aðilar sam­eini síðan sínar skrár í eina slysaskrá. Vinnuhópur vinnur að samræmdri slysaskráningu. Fjárveiting er á fjárlögum þessa árs.
     6.      Opinberar stofnanir, sem að umferðaröryggismálum vinna, sendi skýrslu til dómsmálaráðuneytis fyrir lok hvers árs um fyrirbyggjandi aðgerðir á sviði umferðaröryggismála. Sama gildi um sveitarfélög með fleiri en 1.000 íbúa. Margir opinberir aðilar hafa þegar gert sýnar eigin umferðaröryggisáætlanir. Skapa þarf lagagrundvöll til að skylda opinbera aðila til að gera umferðaröryggisáætlanir.
     7.      Samkvæmt forkönnun, sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði til að meta kostnað þjóðfélagsins vegna umferðarslysa, reyndist heildarkostnaður vera um 8 milljarðar kr. Lagt er til að Háskólinn geri heildarúttekt á þjóðfélagskostnaði vegna umferðarslysa og skili skýrslu þar að lútandi í haust. Nauðsynlegt er að Háskólinn komi í ríkari mæli inn í umferðaröryggisrannsóknir. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands samdi árið 1996 ítarlega skýrslu um kostnað vegna umferðarslysa. Reyndist þjóðfélagslegur kostnaður þá vera á bilinu 11–15 milljarðar kr.
     8.      Æskilegt er að kannað verði hvort niðurfelling skatta á sérstökum öryggisbúnaði bifreiða, t.d. loftpúðum, leiði til aukinnar notkunar og meira umferðaröryggis. Fallið var frá þessum áformum vegna slæmrar reynslu Dana af slíku kerfi.
     9.      Rétt er að láta kanna hvort opinber gjöld standi í vegi fyrir að ökutæki séu búin bestu fáanlegu öryggistækjum. Áfangi náðist árið 1996 með breytingu á vörugjöldum af bifreiðum.
     10.      Auka þarf umferðarfræðslu, bæta ökunám og efla upplýsinga- og áróðursstarf. Þessi atriði eru stöðugt til skoðunar. Fjárveitingar hafa aukist bæði hjá opinberum aðilum og hjá félögum og einkaaðilum.
     11.      Lögleiða þarf notkun hjólreiðahjálma innan nokkurra ára. Reglugerð um skyldu barna til að nota hjólreiðahjálma var sett 1. október 1997.
     12.      Samræma þarf reglur um allt ökunám og gera öllum ökuskólum skylt að starfa með starfsleyfi frá Umferðarráði. Í reglugerð um ökuskírteini sem tók gildi 15. ágúst 1997 eru nýjar reglur um allt ökunám. Reglur um ökuskóla eru væntanlegar í nýrri reglugerð um ökukennara og öku­skóla.
     13.      Breyta þarf reglum um heimild til aksturs á léttum bifhjólum, dráttarvélum, vélsleðum og torfærutækjum. Nýjar reglur eru í reglugerð um ökuskírteini frá 1997.
     14.      Gera þarf bóklegt ökunám fyrir alla flokka ökuréttinda að skyldu. Nýjar reglur eru í reglugerð um ökuskírteini frá 1997.
     15.      Koma þarf upp ökugerðum sem víðast í tengslum við ökukennslu og önnur umferðaröryggismál. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að gerast hluthafi í akstursíþróttasvæði á höfuðborgarsvæðinu. Óljóst er með þátttöku sveitarfélaga en aðrir hluthafar eru reiðubúnir.
     16.      Sérstakur ökuréttindaflokkur verði tekinn upp fyrir bifreiðir með stóra eftirvagna. Ný ákvæði eru í reglugerð um ökuskírteini frá 1997.
     17.      Samræma þarf reglur um ökutæki og búnað þeirra EES-reglugerðum og þar sem leyfilegt er að hafa strangari séríslenskar reglur sem stuðla að auknu umferðaröryggi skal það gert þar sem rök mæla með. Samræmdar reglur eru alfarið í gildi. Eftir er að fá heimild til að kveða á um að dagljósabúnaður skuli vera í bifreiðum.
     18.      Vinna skal að því að bæta umferðarmannvirki með tilliti til aukins umferðaröryggis. Umferðaröryggi verði fastur þáttur í allri skipulagsvinnu sem tengist vega- og gatnakerfi og í umhverfismati. Vegagerðin vinnur eftir sérstakri áætlun um fækkun einbreiðra brúa og lagfæringu umferðarmannvirkja með tilliti til umferðaröryggis sem m.a. byggist á umferðar­öryggismati.
     19.      Auka þarf eftirlit og löggæslu. Þar ber sérstaklega að nefna áhrifamátt sjálfvirks umferðareftirlits með myndavélabúnaði og ber að stefna að uppsetningu slíks búnaðar. Rauðljósamyndavélar voru teknar í notkun í febrúar 1997, en hraðamyndavélar í maí 1998. Verið er að fjölga þessum tækjabúnaði.
     20.      Taka ber upp punktakerfi í tengslum við ökuferilsskrá sem fyrst. Punktakerfi var tekið í notkun 1. janúar 1998 ásamt miðlægri ökuferilsskrá.
     21.      Stórefla ber rannsóknir á sviði umferðaröryggismála og nýta erlendar rannsóknir í umferðaröryggisstarfinu. Ísland hefur mikil erlend samskipti á sviði umferðarmála. Það á aðild að „High-Level Group“ hjá Evrópusambandinu, alþjóðasamtökum umferðarráða (PRI), norrænu um­ferðaröryggisnefndinni auk fjölbreyttra annarra erlendra samskipta.
     22.      Gera þarf eiganda ökutækis ábyrgari vegna aðildar bifreiðar hans að umferðarlagabroti. Skoða þarf lagagrundvöll og reynslu annarra þjóða. Er í athugun.



Fylgiskjal II.


Verkefnalisti 1999–2002.


     1.      Eftirlit með notkun bílbelta, notkun myndavéla, fjölgun punkta, hækkun sekta, staða metin með vissu millibili.
     2.      Hraðakstur, áætlun um notkun myndavéla, staður og umfang, hækkun sekta, staða metin með vissu millibili.
     3.      Rauðljósamyndavélar, fjölgun á gatnamótum, áætlun um aðgerðir, staða metin með vissu millibili.
     4.      Markvissar aðgerðir til að fækka svartblettum, upplýsingar til lögreglu á myndrænu formi.
     5.      Gera tillögu um lækkun gjalda á öryggisbúnað ökutækja, hjólbarða o.fl.
     6.      Fjölga þarf önunarsýnamælum (Intoxilyser 5000N) frá því sem nú er. Gera þarf aðgerðaráætlun um notkun tækjanna. Æskilegt að fjölgunin yrði um fimm tæki sem afhent yrðu lögregluembættum víða um land.
     7.      Aukið samstarf þeirra sem skrá umferðarslys.
     8.      Tryggja starfsemi rannsóknarnefndar umferðarslysa fjárveitingar.
     9.      Endurskoðun á umferðarmerkingum.
     10.      Skipulag umferðaráróðurs sem taki mið af áðurnefndum markmiðum og samræming milli aðila.
     11.      Fræðsla um öryggispúða og þær hættur sem þeim geta fylgt.
     12.      Aldraðir og umferðaröryggi.
     13.      Aðgerðir til að koma í veg fyrir aftanákeyrslur.
     14.      Aðgerðir í málefnum ökukennslu og ökuprófa. Skylduþátttaka í ökuskólum og lágmarkstímafjöldi í ökukennslu.
     15.      Kaupa þarf „laser“-radarbúnað sem er að ryðja sér til rúms víða erlendis, t.d. í Svíþjóð. Fylgja þarf tækniframförum í löggæslumálum. Búnaðurinn sem um ræðir er betur til þess fallinn að ná til einstaka ökumanna sem brjóta gróflega af sér en sá búnaður sem lögreglan notar í dag.
     16.      Árangursmat. Meta þarf árangur sérstakra löggæsluaðgerða og upplýsinga- og áróðursherferða.
     17.      Ljúka þarf við gerð forrits til að verkefnastýra umferðarlöggæsluaðgerðum svipað og Ástralir og Englendingar gera. (Targeted policing – verkefnastýrð löggæsla.)
     18.      Gera þarf tímaáætlun um helstu umferðaröryggisaðgerðir þannig að unnt sé að samræma þær á landsvísu.
     19.      Nýta þarf upplýsingar úr gagnagrunni lögreglu og annara aðila til að beina löggæslu og áróðri að réttum áherslum og stöðum.
     20.      Umferðardeild ríkislögreglustjóra verði efld til þess að annast þjóðvegalöggæslu. Eftirlitið verði starfrækt með fjórum heilum stöðugildum og fjórum 50% stöðugildum til við­bótar frá vori og fram á haust. Einnig verði keyptar fjórar merktar lögreglubifreiðar (þrjár fólksbifreiðar og einn jeppi). Æskilegt væri að fólksbifreiðarnar væru skutbifreið­ar, með öfluga vél og þannig útbúnar að þær þyldu akstur við íslenskar aðstæður.
     21.      Cobra-hugbúnaður. Hugbúnaður sem geymir og vinnur úr upplýsingum sem koma fram við öndunarsýnatöku (Intoxilyser 5000N). Brýnt að lögreglan geti sjálf stýrt þeirri vinnu en þurfi ekki að njóta aðstoðar norsku lögreglunnar.
     22.      „Targeted policing“. Hugbúnaður til stýringar og skipulags á umferðarlöggæslu þar sem helst er þörf á.
     23.      Markman 400. Búnaður sem settur er á akbraut til að fá upplýsingar um hraða ökutækja og fjölda þeirra. Notaður af lögreglu til upplýsingaöflunar vegna skipulags umferðar­löggæslu.
     24.      Öndunarmælum verði fjölgað, t.d. 10 S-D2 öndunarmælar til að framkvæma öndunarpróf á ökumönnum til að ákvarða um framhald málsins.
     25.      Filmulesarar, prentarar og annað sem til þarf til að vinna úr filmum sem koma frá hraðamyndavélabifreiðum. Búnaður sem yrði hreyfanlegur og hægt að fara með út á land með hraðamyndavélabifreiðum og vinna málin strax á staðnum.
     26.      GPS-staðsetningartæki verði sett á alla merkta lögreglubíla sem ekki eru þegar komnir með slíkan búnað. Liður í að öll umferðaróhöpp verði skráð með GPS-staðsetningu.
     27.      Setja þarf í reglur bann við notkun radarvara og annars sambærilegs búnaðar sem varar við hraðamælingu lögreglu.
     28.      Skoða þarf möguleika á samvinnu Landhelgisgæslu og lögreglu um notkun þyrla við löggæslustörf.



Fylgiskjal III.


Sektarinnheimta lögregluembætta.



Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu





Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu




Fylgiskjal IV.


Fjöldi sektarboða og sektargerða.


1. Sektarboð vegna mála ársins 1998:

Sektarboð send til TBR     1.348     4,14%
Ítrekað sektarboð      2.777     8,54%
    4.125     12,68%

Sent til dómsáritunar     1.693     5,20%
Ákæra send (sektarboð)      195     0,60%
    
1.888     5,80%

Sektarboð greidd     25.755     79,17%
Dómsáritun     710     2,18%
Dómur – sáttaboð     13     0,04%
Viðurlagaákvörðun – sektarboð      41     0,13%     26.519     81,52%

Samtals voru því send út 32.532 sektarboð vegna 42.008 brota á umferðarlögum.

2. Sektargerðir vegna mála ársins 1998:

Sektargerð     105     3,38%
Ítrekuð sektargerð      199     6,41%
    304     9,79%

Samþykkt     853     27,48%
Ákæra – sektargerð      90     2,90%

Viðurlagaákvörðun – sektargerð     37     1,19%
Dómur – sektargerð     25     250,81%
Sektargerð greidd      1.795     57,83%
    1.857     59,83%

Alls voru sendar út 3.104 sektargerðir vegna 3.205 brota á umferðarlögum.