Ferill 545. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 870  —  545. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um könnun á aðstæðum til jarðgangagerðar á Bröttubrekku.

Flm.: Þorvaldur T. Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta kanna aðstæður til jarðgangagerðar á Bröttubrekku milli Bjarnadals í Mýrasýslu og Sökkólfsdals í Dalasýslu.

Greinargerð.


    Nú um stundir eru bættar samgöngur milli landshluta og innan þeirra ein meginkrafa íbúa á landsbyggðinni. Fyrir því liggja margar ástæður. Eftir því sem fólki fækkar á landbyggðinni þurfa íbúar á stærri svæðum en áður að koma sér saman um rekstur stofnana og fyrirtækja, svo sem skóla, heilsugæslu, afurðastöðva í landbúnaði o.fl. Sveitarfélög eru að sameinast og stækka og jafnframt að auka samstarf sitt innan kjördæmanna. Góðar samgöngur landsbyggð­arhéraða við þéttbýlissvæðið á suðvesturhorni landsins eru lykillinn að markaði fyrir þau verðmæti sem sköpuð eru úti um landið, ekki síst fyrir atvinnugreinar tengdar landbúnaði og ferðaþjónustu.
    Stysta leið milli Borgarness og Búðardals liggur um þjóðveg nr. 60 um Bröttubrekku. Er þetta jafnframt stysta leið landveginn frá Reykjavík til sunnanverðra Vestfjarða. Með tilkomu brúar um Gilsfjörð er Brattabrekka orðin meginfarartálminn á leiðinni frá Reykjavík og allt vestur á Barðaströnd. Yfir vetrartímann verður vegurinn oft ófær og er auk þess varasamur vegna þess hve brattur hann er og krókóttur og liggur víða um gilbrúnir.
    Markmiðið með flutningi þessarar tillögu er að Vegagerðin kanni aðstæður til jarðganga­gerðar, jarðfræðilegar og vegtæknilegar, og mögulega staðsetningu jarðganga og áætli enn fremur hugsanlegan kostnað við gerð jarðganga og lagningu vegar að gangamunna beggja vegna fjalls. Með því væri stigið fyrsta skrefið í undirbúningi að lagningu varanlegs vegar um Bröttubrekku sem fær væri árið um kring. Er það mikilvægur liður í áframhaldandi vinnu að uppbyggingu vegar sem tengir Dali og sunnanverða Vestfirði við þjóðveg nr. 1 og þar með aðra landshluta.