Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 888  —  9. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um viðræður við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslend­inga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fengið til viðræðna Helga Ágústsson, ráðuneytis­stjóra utanríkisráðuneytisins, og Þórð Ægi Óskarsson, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu. Þá hefur nefndin fengið gögn frá utanríkisráðuneytinu.
    Í apríl á þessu ári verður þess minnst á sérstökum hátíðarfundi í Washington að 50 ár eru liðin frá stofnun Norður-Atlantshafsbandalagsins, NATO. Íslendingar hafa átt aðild að bandalaginu frá upphafi. Hefur sú ákvörðun verið meginstoð utanríkisstefnu Íslendinga og grundvöllur varnar- og öryggismála þjóðarinnar, enda hefur bandalagið tryggt aðildarþjóð­um frið og öryggi allt frá stofnun þess og staðið vörð um hagsmuni lýðfrjálsra ríkja Evrópu.
    Með það að markmiði að styrkja í senn öryggishagsmuni Íslands og sameiginlegt öryggi bandalagsríkjanna fór NATO þess á leit við stjórnvöld á Íslandi og í Bandaríkjunum að gerð­ur yrði tvíhliða varnarsamningur á milli ríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamnings­ins. Varnarsamningurinn var undirritaður árið 1951.
    Frá 1989 hafa orðið miklar breytingar í varnar- og öryggismálum Evrópu. Frá lokum kalda stríðsins hafa mörg þeirra ríkja sem áður lutu oki Sovétríkjanna viðurkennt mikilvægi Atlantshafsbandalagsins sem friðar- og öryggisbandalags. Segja má að einhugur ríki meðal aðildarríkja NATO og annarra lýðræðisríkja í Evrópu um að bandalagið sé framtíðarvett­vangur varnar- og öryggismála í álfunni. Tólf nýfrjáls lýðræðisríki Mið-Evrópu sækjast eftir aðild að bandalaginu og í vor munu fyrstu þrjú þeirra hljóta inngöngu, þ.e. Pólland, Tékkland og Ungverjaland. Þessar þjóðir munu taka virkan þátt í varnarsamstarfi bandalagsríkjanna, leggja herafla bandalagsins lið og styrkja stöðu þess. Samtals 27 ríki sem ekki eiga aðild að NATO hafa tekið þátt í Félagsskap í þágu friðar, þar á meðal Svíþjóð og Finnland. Banda­lagið hefur gert sérstaka samstarfssamninga við Rússland og Úkraínu og 44 ríki eiga aðild að Evró-Atlantshafssamvinnuráðinu (EAPC) sem fjallar meðal annars um almannavarnir, varnar- og öryggismál, efnahagsmál og vísinda- og umhverfismál. NATO hefur gegnt for­ustuhlutverki í friðargæslu á Balkanskaga og hefur tryggt vopnahlé í Bosníu. Þannig hefur bandalagið fært út starfsemi sína á ýmsan hátt og leitast við að víkka það svæði öryggis og friðar sem áður var takmarkað við aðildarríkin.
    Norður-Atlantshafsbandalagið hefur því frá lokum kalda stríðsins lagað sig hratt að breyttum aðstæðum, eflst og orðið burðarásinn í þróun öryggismála álfunnar. Ísland tekur sem eitt af aðildarríkjum bandalagsins fullan þátt í viðræðum um innri aðlögun þess að breyttum aðstæðum.
    Þrátt fyrir miklar breytingar í varnar- og öryggismálum Evrópu hefur hlutverk Norður-Atlantshafsbandalagsins og framlag þess til öryggis- og friðarmála farið vaxandi. Rétt er að minna á að þrátt fyrir breytta heimsmynd í Evrópu hefur ekkert ríkja álfunnar afsalað sér rétti til landvarna. Því miður er ótryggt ástand í öryggismálum Evrópu. Á það rætur að rekja til ótryggs efnahags- og stjórnmálaástands og lítillar rótfestu lýðræðis og mannréttinda í Austur-Evrópu. Á Balkanskaga er mikil ólga sem getur leitt til mikilla átaka. Auk þessa ótrygga ástands í Evrópu hefur alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi þróast þannig að Íslendingar verða, ekki síður en aðrar þjóðir, að tryggja sig gegn þeirri ógn sem af slíkri starfsemi stafar. Ekki standa því nein efni til að veikja varnir Norður-Atlantshafsbandalagsins eða viðbúnað sem hér er til varnar landinu. Ekki hafa borist nein tilmæli frá Bandaríkjastjórn um að draga úr viðbúnaði varnarliðsins hér.
    Þingsályktunartillagan, sem hér er til umfjöllunar, kveður á um skipan nefndar til að ganga til viðræðna við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að með samkomulagi um brottför varnarliðsins skapist aðstæður til að móta „sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu“, eins og það er orðað, „stefnu sem grundvallaðist á vopnleysi, friðlýsingu og sjálfstæðri óháðri stöðu landsins utan hernaðarbandalaga“. Brottför varnarliðsins er því hugsuð sem liður í úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu og það skilgreint sem sjálfstæð utan­ríkis- og friðarstefna að rjúfa þá samstöðu lýðræðisríkja sem myndast hefur um NATO sem varnarbandalag og kjölfestu í öryggis- og friðarmálum álfunnar.
     Íslendingar hafa mótað sína utanríkisstefnu og valið að stuðla að friði og öryggi í Evrópu með samstarfi við önnur lýðræðisríki innan NATO og þau fjölmörgu ríki sem vilja eiga sam­starf við NATO-ríkin og sækjast eftir inngöngu í bandalagið. Skilaboð til samstarfsríkjanna og þeirra sem sótt hafa um NATO-aðild verða að vera skýr. Tillaga um úrsögn úr NATO grefur undan samstöðu og öryggismálum aðildarþjóða Norður-Atlantshafsbandalagsins. Því er mikilvægt að Alþingi taki afstöðu til efnis þessarar tillögu og þeirra markmiða með flutn­ingi hennar sem sett eru fram í greinargerð. Þau markmið ganga gegn öryggishagsmunum Ís­lendinga og brjóta í bága við þá farsælu stefnu í utanríkismálum sem þjóðin hefur fylgt og tryggt hefur samstöðu okkar með aðildarþjóðum Norður-Atlantshafsbandalagsins.
    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að tillagan verði felld.

Alþingi, 24. febr. 1999.



Tómas Ingi Olrich,


form., frsm.


Gunnlaugur M. Sigmundsson.


Árni M. Mathiesen.



Árni R. Árnason.


Siv Friðleifsdóttir.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.