Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 935  —  570. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um langtímaáætlun um jarðgangagerð.

Flm.: Magnús Stefánsson, Jón Kristjánsson, Árni Johnsen, Einar Oddur Kristjánsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristinn H. Gunnarsson, Sturla Böðvarsson,
Valgerður Sverrisdóttir.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi. Áætlunin feli í sér úttekt á kostum sem taldir eru á jarðgangagerð í landinu, kostn­aðarmat og arðsemismat einstakra framkvæmda og forgangsröðun verkefna.
    Áætlunin liggi fyrir áður en lokið verður við næstu reglulegu endurskoðun vegáætlunar.

Greinargerð.


    Góð reynsla er af jarðgöngum á Íslandi og hefur tilkoma þeirra valdið byltingu í sam­göngum á viðkomandi svæðum. Fyrstu göngin voru á leiðinni milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Síðan komu til Strákagöng á leið til Siglufjarðar, göng um Oddsskarð á leið til Neskaup­staðar, Ólafsfjarðargöng, Vestfjarðagöng og á síðasta ári voru Hvalfjarðargöng opnuð fyrir umferð. Með öllum þessum jarðgöngum hafa verið reistar styrkari stoðir undir byggð í land­inu, enda eru góðar samgöngur ein af forsendum þess að viðhalda megi og styrkja byggð úti um landið.
    Framkvæmdir við Hvalfjarðargöng voru ekki fjármagnaðar á vegáætlun heldur unnar af einkaaðilum og fjármagnaðar með innheimtu veggjalds. Síðustu jarðgangaframkvæmdir sem fjármagnaðar voru í vegáætlun voru Vestfjarðagöng. Í vegáætlun fyrir árin 1991–1994 var gert ráð fyrir rannsóknarfé til Austfjarðaganga, sem þá voru í umræðunni í framhaldi af Vestfjarðagöngum. Í vegáætlun og langtímaáætlun um stórverkefni sem samþykktar voru á Alþingi vorið 1998 er ekki gert ráð fyrir framkvæmdum við jarðgöng og því liggja ekki fyrir ákvarðanir í þeim efnum. Hins vegar gerir vegáætlun ráð fyrir fjárveitingum til rannsókna á kostum jarðgangagerðar.
    Ýmsar hugmyndir og tillögur hafa komið fram um gerð jarðganga í landinu. Á Austurlandi hafa komið fram hugmyndir um jarðgöng undir Hellisheiði eystri, settar hafa verið fram hug­myndir um jarðgöng til að tengja Seyðisfjörð og Neskaupstað með jarðgöngum til Mjóa­fjarðar og undir Mjóafjarðarheiði til Héraðs og fyrir Alþingi liggur tillaga um gerð jarð­ganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Hugmyndir og tillögur eru um gerð jarðganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, annaðhvort um Héðinsfjörð eða Fljót. Á Vestfjörðum hafa komið fram tillögur um að tryggja vegasamgöngur milli suður- og norðurhluta Vestfjarða með jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar svo dæmi sé tekið. Þá má nefna tillögu um jarðgöng um Bröttubrekku og gegnum Snæfellsnesfjallgarðinn á Vesturlandi. Loks hafa komið fram tillögur um jarðgöng undir Hellisheiði syðri og milli lands og Vestmannaeyja. Allar þessar hugmyndir og tillögur byggjast á góðum og gildum rökum en ekki hefur verið markvisst fjallað um þessa kosti í heild sinni þannig að fyrir liggi hvaða möguleikar eru raunhæfir og í umræðunni hefur verið tekist á um hvar næstu jarðgöng skulu gerð. Það er álit flutningsmanna að fjalla þurfi um málið í heild sinni og leitast við að vinna áætlun um jarðgangagerð í landinu til lengri tíma.
    Jarðgöng eru vel til þess fallin að bæta samgöngur á tilgreindum leiðum og stytta þær, rjúfa vetrareinangrun og auka umferðaröryggi. Reynslan af jarðgöngum hér á landi sýnir fram á það. Landfræðilegar aðstæður eru víða þannig að samgönguleiðir verða varla öruggar og greiðfærar nema um jarðgöng. Hins vegar eru framkvæmdir við gerð jarðganga mjög kostnaðarsamar. Á landinu öllu eru margar og dýrar vegaframkvæmdir óunnar og því hefur svigrúm til fjármögnunar vinnu við jarðgöng verið mjög takmarkað samkvæmt vegáætlun. Það er því ljóst að samhliða gerð langtímaáætlunar um jarðgangagerð þarf að fjalla um alla hugsanlega möguleika á fjármögnun þeirra verkefna.