Ferill 576. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 946  —  576. mál.




Frumvarp til laga



um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.

    Tilgangur laga þessara er að stuðla að verndun lífríkis Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

2. gr.

    Landsvæði innan neðangreindra marka og Þingvallavatn skulu vera sérstakt vatnsverndar­svæði: Að sunnan eru mörkin úr Stapa við Úlfljótsvatn (markapunktur milli Kaldárhöfða og Efribrúar í Grímsneshreppi) þvert yfir vatnið í Sauðatanga, þaðan bein lína í hornpunkt jarðanna Úfljótsvatns og Hlíðar efst í Baulugili (við Þrívörðuflatir). Þaðan ráða mörk þeirra jarða að hreppamörkum Grímsnes/Grafningshrepps og Ölfushrepps. Þaðan ráða hreppamörk í hápunkt Skeggja (markapunktur jarðanna Nesjavalla og Nesja) og þaðan bein lína í marka­punkt við Sæluhúsatótt (á sýslumörkum Kjósarsýslu og Árnessýslu). Þaðan ræður lína í eystri enda Mjóavatns og áfram í markapunkt jarðarinnar Skálabrekku við Hádegisholt. Síð­an ráða mörk jarðanna Skálabrekku og Kárastaða í sýslumörk Árnessýslu og Kjósarsýslu. Sýslumörk ráða allt norður að mörkum Biskupstungnahrepps á Langjökli. Þaðan ráða mörk Biskupstungnahrepps og Laugardalshrepps í hornpunkt (vestan Brúarárskarða) á hreppa­mörkum á Rótarsandi, þaðan ræður bein lína í eystri Hrútatind (norðan Miðfjalls), síðan í hæsta punkt Ása og þaðan bein lína í há-Fagradalsfjall á mörkum jarðanna Snorrastaða og Laugarvatns. Þaðan ræður bein lína í hornpunkt jarðar Laugarvatns sunnan megin (á Marka­hryggjum) og síðan ráða mörk þeirrar jarðar og hreppamörk Laugardalshrepps og Grímsnes/ Grafningshrepps á Biskupsbrekkum. Þaðan liggja mörkin í há-Þrasaborg. Þaðan ráða mörk jarðarinnar Kaldárhöfða í Stapa við Úlfljótsvatn.
    Um vatnsverndun innan þjóðgarðsins á Þingvöllum eins og mörk hans eru ákveðin í lögum gilda ákvæði laga um þjóðgarðinn.

3. gr.

    Innan verndarsvæðisins er óheimilt að gera nokkuð það sem getur spillt vatni eða mengað það, bæði yfirborðsvatn og grunnvatn. Umhverfisráðherra setur að höfðu samráði við hlutað­eigandi sveitarstjórnir og Þingvallanefnd nánari reglur um framkvæmd vatnsverndarinnar og getur ákveðið að jarðrask, bygging mannvirkja, borun eftir vatni, taka jarðefna og vinnsla auðlinda úr jörðu og ræktunarframkvæmdir séu háðar sérstöku leyfi hans. Ráðherra er einnig heimilt að binda samþykki á framkvæmdum innan verndarsvæðisins þeim skilyrðum sem hann telur nauðsynleg vegna verndunar samkvæmt lögum þessum.
    Vatnsverndun á landinu skal ekki standa því í vegi að landeigendur, ábúendur og aðrir sem þar eiga nytjarétt geti haft hefðbundin beitar- og búskaparafnot af nytjalandi sínu nema umhverfisráðherra telji að sú notkun leiði til þess að vatni á svæðinu verði spillt. Getur ráð­herra þá ákveðið takmarkanir á beit og öðrum nytjarétti innan verndarsvæðisins.
    Ákvarðanir samkvæmt þessari grein skal birta í Stjórnartíðindum.

4. gr.

    Vernda skal lífríki Þingvallavatns og gæta þess að raska ekki búsvæðum og hrygningar­stöðvum bleikjuafbrigða og urriðastofna sem nú lifa í vatninu.
    Umhverfisráðherra setur nánari reglur um framkvæmd verndunarinnar, þar með talið um breytingar á vatnshæð og takmarkanir á losun úrgangsefna og um frárennsli og fráveitur í vatnið. Telji ráðherra að slík losun í Þingvallavatn samrýmist ekki verndun vatnsins getur hann bannað hana. Ákvarðanir þessar skal ráðherra taka að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórnir og Þingvallanefnd.
    Þrátt fyrir ákvæði laga um lax- og silungsveiði er óheimilt án leyfis umhverfisráðherra að stunda fiskirækt eða fiskeldi í eða við Þingvallavatn.

5. gr.

    Brot gegn lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi. Sektir renna í ríkissjóð.
    Beita má dagsektum sem renna í ríkissjóð, að lágmarki 10.000 kr. og að hámarki 50.000 kr., til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum sem þeim er skylt að hlutast til um sam­kvæmt lögunum eða til þess að láta af atferli sem er ólögmætt.

6. gr.

    Um verndarsvæði samkvæmt lögum þessum fer eftir 36.–38. gr. laga um náttúruvernd, nr. 93/1996.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Við umræður um endurskoðun laga um friðun Þingvalla sem eru frá 1928 og stækkun þess landsvæðis var vakin athygli á nauðsyn þess að tryggja verndun vatnasviðs Þingvallavatns og vatnsins sjálfs, en vatnasvið þess er stærsta grunnvatnsauðlind á Íslandi. Þar sem hér á landi hafa ekki enn verið sett almenn lög um verndun grunnvatns eða annars nytjavatns voru settar fram hugmyndir um að ný lög um friðun Þingvalla mundu einnig mæla fyrir um friðun eða verndun stærra svæðis en næsta nágrennis Þingvalla. Hér er hins vegar sú leið farin að kveða á um verndun lífríkis Þingvallavatns og vatnasviðs þess í sérstökum lögum. Slík laga­setning, þar sem kveðið er sérstaklega á um vernd tiltekinna vatna, vatnasviða þeirra og líf­ríkis, er ekki einsdæmi hér á landi, sbr. t.d. lög nr. 36/1974, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, og lög nr. 54/1995, um vernd Breiðafjarðar.
    Í þessu frumvarpi er lagt til að allt svæðið frá vatnaskilum í Hengli inn í Langjökul verði sérstakt vatnsverndarsvæði og fellur þannig Þingvallavatn og mestur hluti vatnasviðs þess saman í órofa heild með hinum menningarlegu og náttúrufræðilegu minjum. Frumvarpið var samið undir forsjá Þingvallanefndar og er með því og frumvarpi til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum leitast við að móta verndarstefnu á þessu svæði til frambúðar.
    Rannsóknir vísindamanna á Þingvallasvæðinu og sérstaklega Þingvallavatni og lífríki þess hafa orðið til að beina sjónum manna að mikilvægi þess að friða og vernda þetta land­svæði. Auk náttúrunnar eru orku- og neysluvatnsauðlindir svæðisins mikilvægar fyrir þjóð­ina. Talið er að á Þingvalla- og Brúarársvæðinu ofan við Brúarfoss, sem alls er um 1.260 ferkílómetrar, sé um þriðjungur af öllu lindarvatni í byggð á Íslandi. Þessi aðstaða auk hins sérstaka lífríkis Þingvallavatns hefur leitt til þess að talið hefur verið nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til að friða og vernda vatnasvið Þingvallavatns og vatnið sjálft. Þessi friðun kæmi til viðbótar friðun á því landi sem lagt er undir helgistað þjóðarinnar á Þing­völlum. Eins og áður sagði hafa almenn lög um vatnsvernd ekki verið sett hér á landi enn sem komið er en talið er brýnt að setja þegar lög sem tryggi verndun vatnasviðs Þingvallavatns. Við setningu almennra laga um vatnsvernd væri kostur á að fella þær lagareglur sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir inn í almenn lög um vatnsvernd.
    Með frumvarpinu eru birt eftirfarandi fylgiskjöl:
     I.      Yfirlitsmynd af Þingvallasvæðinu sem sýnir mörk verndarsvæðis vatnasviðs Þingvallavatns.
     II.      Um Þingvelli, Þingvallavatn og vatnasvið þess, greinargerð unnin af dr. Pétri M. Jónassyni prófessor.
     III.      Kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er kveðið á um tilgang laganna sem er að stuðla að verndun lífríkis Þingvalla­vatns og vatnasviðs þess. Er það í samræmi við þá verndarhagsmuni sem búa að baki frum­varpinu, þ.e. að tryggja fyrst og fremst verndun vatns og þá einkum grunnvatns.

Um 2. gr.


    Sú friðun sem hinu svonefnda verndarsvæði er búin í frumvarpinu tekur mið af því mark­miði að tryggja verndun vatns, einkum grunnvatns. Mörk vatnsverndarsvæðisins eru dregin með hliðsjón af niðurstöðum rannsókna á rennsli grunnvatns í Þingvallavatn og með það í huga að tryggja einnig verndun Þingvallavatns í heild. Þessar rannsóknir sýna að grunnvatn af svæðinu norðan Skjaldbreiðar milli hæstu tinda Þórisjökuls og Hlöðufells og inn á Lang­jökul hefur afrennsli í Þingvallavatn. Nær Þingvallavatni afmarkast aðrennslissvæðið að mestu af hæstu fjöllum og hryggjum milli þeirra. Sunnan Þingvallavatns liggur aðrennslis­svæðið frá hæstu brúnum Hengilsins og tekur verndarsvæðið til þess.
    Vatnsverndarsvæðið er afmarkað þannig að norðan Botnssúlna að vestan og Brúarár­skarða að austan ráða sýslu- og hreppamörk, þ.e. annars vegar sýslumörk Árnessýslu og Borgarfjarðarsýslu og hins vegar mörk Laugardalshrepps og Biskupstungnahrepps. Frá Brúarárskörðum er dregin bein lína til suðurs í há-Fagradalsfjall á mörkum jarðanna Snorra­staða og Laugarvatns.
    Innan vatnsverndarsvæðisins, eins og það er afmarkað í frumvarpinu, falla lönd jarðanna Mjóaness, Miðfells, Skálabrekku, Nesja, Villingavatns, Króks og Hagavíkur sem allar eru í einkaeign, svo og lönd jarðanna Nesjavalla og Ölfusvatns, og hluti af landi jarðarinnar Úlf­ljótsvatns, sem eru í eigu Reykjavíkurborgar, enn fremur lönd jarðanna Kaldárhöfða og Heiðarbæjar, en þær eru eign ríkisins og leigðar ábúendum. Þá tekur verndarsvæðið jafn­framt til hluta af landi jarðarinnar Laugarvatns.
    Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er ekki hluti af vatnsverndarsvæðinu. Samkvæmt frumvarpi til laga um þjóðgarðinn er Þingvallanefnd ætlað að tryggja verndun vatns, þar á meðal Þing­vallavatns, innan þjóðgarðsins og tryggir það að náð verði markmiðum þeirrar vatnsverndar sem felst í frumvarpi þessu.

Um 3. gr.


    Óheimilt er að gera nokkuð það sem getur spillt vatni eða mengað það innan vatns­verndarsvæðisins, bæði vatn á yfirborði og grunnvatn. Í samræmi við það skal umhverfis­ráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórnir og Þingvallanefnd setja nánari reglur um framkvæmd vatnsverndarinnar. Þannig getur hann ákveðið að jarðrask og bygging mannvirkja á verndarsvæðinu sé háð leyfi ráðherra, sem gætir verndunarsjónarmiða, auk þess sem fá þyrfti hefðbundin leyfi byggingar- og skipulagsyfirvalda, þ.m.t. leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Með sama hætti yrði óheimilt að reisa fjallaskála eða önnur mannvirki á verndarsvæðinu utan byggðarinnar nema með leyfi ráðherra en nokkuð hefur verið um að fjallaskálar hafi verið reistir á þessu svæði. Þá getur ráðherra sett reglur um flutning og meðferð mengandi efna á verndarsvæðinu, olíu og leysiefna.
    Rétt þykir að taka skýrt fram að ráðherra er heimilt að binda samþykki á framkvæmdum innan verndarsvæðisins þeim skilyrðum sem hann telur nauðsynleg vegna verndunarinnar, en þarna gæti t.d. verið um að ræða ákveðinn frágang mannvirkja til að koma í veg fyrir að mengandi efni berist frá mannvirkinu.
    Það land sem fellur undir verndarsvæðið er nú að stærstum hluta til nýtt sem upprekstrar­land fyrir sauðfé úr Þingvallasveit, Grímsnesi/Grafningi og Laugardal auk þess sem innan svæðisins eru lönd einstakra jarða. Í greininni er tekið fram að friðun á verndarsvæðinu skuli ekki standa því í vegi að landeigendur, ábúendur og aðrir sem þar eiga nytjarétt geti haft hefðbundin beitar- og búskaparafnot af nytjalandi sínu nema umhverfisráðherra telji að sú notkun leiði til þess að vatni á svæðinu verði spillt. Í slíkum tilvikum er gert ráð fyrir að ráð­herra geti ákveðið takmarkanir á beit og öðrum nytjarétti innan verndarsvæðisins.

Um 4. gr.


    Í frumvarpinu er mælt sérstaklega fyrir um verndun á lífríki Þingvallavatns og að þess skuli gætt að raska ekki búsvæðum og hrygningarstöðvum bleikju og urriðastofna sem nú lifa í vatninu. Þingvallavatn er nú á náttúruminjaskrá samkvæmt lögum nr. 93/1996, um náttúru­vernd, en sérstakar reglur hafa ekki verið settar á grundvelli þeirra laga til að tryggja frekari verndun vatnsins. Eins og lýst er í fyrsta kaflanum í fylgiskjali II með frumvarpinu er Þing­vallavatn sérstakt m.a. fyrir þær sakir að það er talið eina þekkta vatnið í heiminum þar sem finnast fjögur afbrigði af bleikju. Urriðastofn sá sem þreifst til langs tíma í Þingvallavatni og Efra-Sogi var einnig sérstakur. Mikilvægt er talið að gerðar verði ráðstafanir til að tryggja að búsvæðum og hrygningarstöðvum þessara stofna verði ekki raskað. Í því efni og fyrir lífríki vatnsins að öðru leyti skiptir miklu að vatnshæð sé haldið stöðugri og höfð sé sérstök gát á því hvaða efni kunna að berast í vatnið með frárennsli og fráveitum. Því er lagt til að umhverfisráðherra verði fengnar valdheimildir, auk hinna almennu valdheimilda sem önnur stjórnvöld hafa, til að setja reglur um takmarkanir á losun úrgangsefna og um frá­rennsli og fráveitur í vatnið. Þetta yrðu þá sérstakar og strangari reglur en almennt gilda um slík mál. Ákvarðanir um bann við losun í Þingvallavatn verður ráðherra að taka að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórnir og Þingvallanefnd.
    Vegna þeirrar sérstöku mengunar- og sjúkdómahættu sem stafar af fiskirækt og fiskeldi er lagt til að bannað verði að stunda slíka starfsemi í eða við Þingvallavatn. Með orðunum „við Þingvallavatn“ er miðað við að slík starfsemi taki vatn, hafi frárennsli eða hafi önnur líffræðileg tengsl við Þingvallavatn.
    

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Lagt er til að farið skuli eftir ákvæðum 36.–38. gr. laga nr. 93/1996, um náttúruvernd, um verndarsvæði samkvæmt frumvarpinu. Tilgreind ákvæði laganna mæla fyrir um hvaða reglur skuli gilda við sölu jarðar sem öll eða að hluta hefur verið sett á náttúruminjaskrá, heimild umhverfisráðherra til að taka eignarnámi lönd, mannvirki og réttindi og um bótareglur af þeim sökum.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal I.


Yfirlitsmynd af Þingvallasvæðinu sem sýnir mörk


verndarsvæðis vatnasviðs Þingvallavatns.




(Mynd.)









Fylgiskjal II.


Dr. Pétur M. Jónasson:

Um Þingvelli, Þingvallavatn og vatnasvið þess.



Gildi Þingvalla fyrir þjóðina.
    Þingvellir eru friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Á Þingvöllum var stofnað árið 930 elsta löggjafarþing á Vesturlöndum og síðan þá hafa Þingvellir verið samofnir sögu þjóð­arinnar. Þingvellir eru jafnframt frá náttúrufræðilegu sjónarmiði meðal merkustu staða landsins. Af brún Almannagjár má sjá flestar þær gerðir eldstöðva sem finnast hér á landi, einnig jarðhitasvæðið á Nesjavöllum, og sé nánar að gáð ýmsar menjar um áhrif ísaldar­jökulsins á mótun landsins. En frægastir eru Þingvellir þó vegna sigdældarinnar og sprungn­anna sem eru hluti af alheimssprungukerfinu. Hér koma saman á einum stað þau margvíslegu náttúrufyrirbæri sem örfáir staðir aðrir á jörðinni geta státað af og bera þögul vitni þeim frumöflum sem skópu Ísland í upphafi, en þau eru sprungukerfið, jarðeldar og jökulrof.
    Mið-Atlantshafshryggurinn liggur um Þingvallasvæðið og Þingvallasigdældin er líkust því sem menn finna á neðansjávarhryggjum. Þar geta menn því gengið á tindi Atlantshafs­hryggjarins og skoðað myndanir sem í rauninni eiga heima á botni Atlantshafsins. Þingvalla­svæðið er því furðuverk á landi. Á Þingvöllum birtist fjölskrúðugur sköpunarmáttur jarðar­innar þar sem andstæðurnar mætast. Á Þingvöllum sjáum við hvar Ameríkuflekinn hefst við Almannagjá og Evrasíuflekinn austan Hrafnagjár. Á Þingvöllum mætast austur og vestur ekki einungis jarðfræðilega heldur einnig í jurta- og dýraríkinu. Gliðnun meginlandanna skapar ný búsvæði fyrir jurtir og dýr. Þetta má sjá í Þingvallavatni. Það er stærsta veiðivatn landsins, og á 10 þúsund ára ferli þess hafa þróast þar fjórar gerðir af bleikju. Það er eins­dæmi á jarðríki.
    Þingvallavatn er ein af gersemum Íslands, glitrandi af fegurð. Heiðblátt, djúpt, kalt og tært vatnið kemur alla leið úr Langjökli en við barm þess getur að líta eitt gjöfulasta hvera­svæði Íslands. Eldfjöll fjallahringsins birtast í öllum regnbogans litum og endurspeglast í vatninu og auka á unað þess og töfra. Vatnið er miðdepill landslagsins og skapar úr því heild. Bláskógar með ilm birkiskógarins og litahaf botngróðursins með blágresi, engjarós, unda­fíflum og maríustökkum, bláberja-, beiti- og krækiberjalyngi, víðikjarri, fjalldrapa og skóf­um í öllum regnbogans litum ásamt víðáttumiklum sléttum grámosans, sem sífellt breyta um lit, skapar litasinfóníu sem á fáar sér líkar — að ógleymdu litskrúði haustsins þar sem eld­rautt bláberjalyngið og heiðgulur víðirinn teygja sig upp fjallshlíðarnar og gefa fjöllunum nýjan svip. Það er því ekki að furða þótt þessi heimur hafi seitt til sín flesta íslenska listmál­ara til að túlka töfralitina á léreft.
    Fáar þjóðir, ef nokkur, þekkja upphaf sögu sinnar betur en Íslendingar. Fáar þjóðir eiga einstæðari eða fegurri ramma um sögu sína þar sem sköpun Íslands er að verki á Þingvöllum.
    Vatnasvið Þingvallavatns og Brúarársvæði hið efra búa yfir miklu meiri þjóðarauðlind en flesta hefur órað fyrir. Fyrsta stóra átak þjóðarinnar í orkumálum var að reisa rafstöðvar við Sog. Eitt stærsta háhitasvæði Íslands er Hengilssvæðið sem liggur á barmi Þingvalla­vatns og fær vatn alla leið úr Langjökli. Vatnasvið Þingvallavatns og Brúarársvæði ofan Brúarfoss hafa að geyma um þriðjung af öllu lindarvatni í byggð á Íslandi. Í heimi, sem þjáist af vatnsleysi, er þetta ómetanleg þjóðarauðlind. Það er aðeins spurning um tíma hve­nær hún verður nýtt.

Vatnasvið Þingvallavatns. — Undraheimur í mótun.
    Þingvallasvæðið er eitt af furðulegustu og sérkennilegustu vatnasvæðum heims. Á hátindi Atlantshafshryggjarins, þar sem meginlönd Evrópu og Ameríku klofna sundur, myndast sig­dæld og flekana rekur hvorn í sína átt: Evrópu í austur en Ameríku í vestur.
    Þingvallasvæðið er hluti af gosbelti Atlantshafshryggjar, en hann nær norðan úr Íshafi suður fyrir Afríku þar sem hann beygir í austur. Eina eyjan, sem stendur á hátindi hans er Ís­land. Sú grein hans sem Þingvallasvæðið er hluti af nær frá Reykjanesi í Langjökul og er 130 km á lengd. Vatnasvið Þingvallavatns er um 75 km að lengd, allt að 25 km að breidd en mjókkar nokkuð til endanna. Flatarmálið er um 1.000 km2. Þingvallavatn fyllir syðsta hluta sigdældarinnar og yfirborð þess er 100 m yfir sjávarmáli. Vatnið sjálft er 84 km2 að flatarmáli og því1/ 12af vatnasviðinu. Hæstu fjöll í sigdældinni eru Þóris- og Geitlandsjökull (1.350 og 1.400 m.y.s) en lægst liggur Sandeyjardjúp 14 m fyrir neðan sjávarmál. Hæðarmismunur er því alls um 1.400 m. Vatnasviðið fylgir hæðarlínum á yfirborði en mörk vatnasviðs grunn­vatnsins eru nokkuð frábrugðin, einkum að austan og norðan. Hinn velþekkti fjallahringur afmarkar þó vatnasviðið í megindráttum. Langjökull er að norðan og Henglafjöll (805 m) að sunnan. Vesturkanturinn markast af Mosfellsheiði (410 m), Búrfelli (782 m), Súlum (1.095 m), Kvígindisfelli (786 m) og þaðan í Þóris- og Geitlandsjökul. Að austan liggja vatnaskilin um Lyngdalsheiði (404 m), Laugarvatnsfjall (612 m), Skriðu (1.005 m), Hlöðufell (1.188 m) og Skersli (900 m) norður í Langjökul.
    Elstur er vestur- og austurjaðar sigdældarinnar, þ.e. berglögin sem ganga undir Súlur, Búrfell og Kvígindisfell og dyngjur Mosfells- og Lyngdalsheiðar (1 milljón ára).
    Frægasta náttúrufyrirbæri Þingvalla er sigdældin sem sýnir 40 m sig í Almannagjá og Hrafnagjá og 300 m í Hestvík. Enn meira er sigið í Súlnabergi eða 400 m en það er á ytri mörkum dældarinnar eins og Drift í Lyngdalsheiði. Þingvallavatn, sem er um 10 þús. ára gamalt, tengir saman hinar ólíku jarðmyndanir og gerir úr svæðinu tignarlega heild. Sig­dældin einkennist af mikilli gosvirkni á síðustu ísöld og á nútíma. Þekktir stapar eru Ár­mannsfell, Hrafnabjörg, Skriða, Hlöðufell og Laugarvatnsfjall er hafa myndast við gos undir jökli sem ekki var þykkari en svo að ofan á kolli þeirra rann hraun. Miðfell og Búrfell eru hins vegar dæmi um gos sem ekki náðu upp úr jöklinum og mynduðu því móbergshrúgald án hraunkolls. Tindaskagi, Kálfstindar, Klukkutindar og Skriðutindur eru móbergshryggir sem mynduðust við sprungugos undir jökli og eru allt að 30 km að lengd.
    Þingvallasigdældin er afleiðing samfelldrar gliðnunar jarðskorpunnar um sprungubeltið. Landið sígur innan hennar en móberg og ný hraun hlaðast í hana og jafna upp sigið að nokkru. Áætlað er að við Almannagjá hafi sigið á sl. 10.000 árum numið samtals um 40 m og að gliðnunin hafi verið um 70 m á sama tímabili milli Almannagjár og Heiðargjár. Það þýðir að sigið er um 4 mm á ári en gliðnunin tæplega 7 mm. Sigið verður í lotum sem hraðsig eins og í sambandi við Suðurlandsskjálftana 1789. Þá seig landið í hliðum dældarinnar í Vatnsviki og frá Lambhaga að Almannagjá 1,20 og 1,40 m hvorumegin. Í sigdældinni miðri í Vatnskoti var sigið tvöfalt meira eða 2,80 m. Afleiðingin varð sú að reiðvegurinn vestur með vatninu fór undir vatn og varð ónothæfur. Þá fór og nokkur hluti túna í Vatnskoti og á Þingvöllum undir vatn. Þetta átti sinn þátt í því að Alþingi var lagt niður 1798 og flutt til Reykjavíkur.
    Nýtt hraðsig varð á tímabilinu 1973–1977 þegar Almannagjárgeirinn seig um 9 sm. Tún Þingvallakirkju, sem áður var samfelld heild, er nú orðið að hólmum næst vatninu.
    Skjaldbreiður er sígilt dæmi um eldfjall af dyngjugerð. Hin stærstu þeirra, eins og Skjald­breiður og Trölladyngja, eru meðal mestu hraunmyndana sem verða til í einu gosi, um 17 km3 að rúmmáli eða sexfalt rúmmál Þingvallavatns og yfir 200 km2 að flatarmáli.
    Yngri gosmyndanir eru Eldborgir í Þjófahrauni sem mynduðu mikil hraun sem runnu á milli Tindaskaga og Hrafnabjarga yfir Skjalbreiðarhraun að Mjóafelli. Suður af Hrafna­björgum er dyngja sem úr rann mikið hraunflóð yfir suðurhluta dældarinnar allt suður að Dráttarhlíð og Heiðarbæ. Hraunflóð þetta nær norður á móts við Arnarfell og þekur alls um 200 km2. Hraunbrúnin þvert yfir vatnið sést gerla á dýptarkortum. Við Miðfell er hraunflóðið um 100 m á þykkt og liggur þar ofan á Lyngdalsheiðarhrauninu. Hraunið olli því að vatnsborð Þingvallavatns stóð um tíma 10 m hærra en það er nú.
    Sogið gróf hins vegar farveg í gegnum hraunið við Sogshorn og vatnið lækkaði í nú­verandi hæð, 100,5 m.y.s. Gróðurleifar hafa fundist undir hrauninu við Sogshorn og voru þær aldursgreindar með geislakolsaðferð sem sýndi að hraunið er um 10.000 ára gamalt. Þetta var fyrsta greining sinnar tegundar á Íslandi og hefur hún nýlega verið endurtekin með sama árangri. Rétt mun áætlað að hraun þeki yfir helming vatnasviðsins (500 km2). Þá eru meðtalin Hagavíkur- og Nesjahraun sem liggja saman sunnan vatnsins.
    
Myndun Þingvallavatns.
    Við ísaldarlokin fyrir um 12.000 árum lá jökultunga fram Þingvallalægðina niður á móts við suðurenda Úlfljótsvatns. Fyrsti vísirinn að Þingvallavatni var jökullón sem stóð uppi milli jökuls og hlíða í um 165 m hæð yfir sjó eða 65 m ofan við núverandi yfirborð vatnsins. Þá mynduðust hinir efstu hjallar í Grafningi og jökulgarðar sem þeim tengjast.
    Við suðausturhorn Þingvallavatns má sjá þrjú þrep malarhjalla til marks um hærri stöðu vatnsins í ísaldarlok. Hið efsta þeirra er í um 65 m hæð yfir núverandi vatnsborði, miðþrepið um 35 m ofar, og neðsta þrepið 10 m ofar. Tvo efri hjallana má tengja ísaldarlokum fyrir um 11–12 þús. árum með jökulruðningi sem sýnir að Þingvallalægðin var að mestu fyllt jökli en jökullón voru við suðurenda hans. Hjallinn í 110 m hæð myndaðist hins vegar allt í kring­um vatnið og áður en Sogið gróf farveg sinn gegnum hraunhaftið áðurnefnda. Ölduþrepið í Dráttarhlíð er frá sama tíma.
    Þegar ísöld tók að slota fyrir 11.000 árum var Skjaldbreiður enn ekki til og auravötn frá hinum hopandi jökli í norðaustri runnu í Þingvallalægðina. Þegar Skjaldbreiður svo mynd­aðist fyrir um 10.000 árum tók fyrir streymi jökulvatna niður í Þingvallalægðina og vatnið varð tært. Safnsvæði Þingvallavatns hefur síðan verið Þingvallalægðin sjálf. Skjaldbreiðar­hraunin ná einungis suður á móts við Mjóafell. Hraun úr dyngjunni sunnan Hrafnabjarga mynda hins vegar alla norður- og austurströnd vatnsins eins og áður sagði.
    Sandey er yngsta gosmyndun svæðisins, um 2.000 ára gömul. Hún liggur á sprungu sem líkast til er hin sama og myndaði Nesjahraun norðaustan í Hengli. Öskulag frá Sandey hefur fundist í jarðvegi austan við vatnið allt austur fyrir Lyngdalsheiði. Sandeyjargosið var síð­asta eldvirknin á þessum slóðum.
    Í Sturlungu er greint frá því að fornmenn hafi breytt farvegi Öxarár og veitt henni niður í Almannagjá. Engin ástæða er til að efa það en áin hefur á 10.000 ára ferli sínum myndað marga farvegi milli Almannagjár og Skálabrekku. Vellirnir svokölluðu eru einnig myndaðir af Öxará sem þá hefur runnið í farvegi nokkru norðan við núverandi farveg.

Lífríki Þingvallavatns og tengsl þess við umhverfið.
    Þingvallavatn og vatnasvið þess eru efalítið ein dýrmætasta gersemi íslenskrar náttúru. Flestir halda að Þingvallavatn sé mjög ófrjótt, eins og eyðimörk, vegna þess hve djúpt það er og kalt og umlukt lítt grónum hraunum. En því fer fjarri að svo sé. Umhverfið og vistkerfi vatnsins vinna vel saman en á mjög sérstæðan hátt. Úrkoma er mikil á svæðinu og 90% af aðrennsli Þingvallavatns renna langar leiðir neðanjarðar eftir sprungum að vatninu að norð­anverðu en vatnsmesta bergvatnsá landsins rennur úr því, að mestu leyti um jarðgöng niður í Steingrímsvirkjun. Það vatn, sem rennur í vatnið norðan úr Langjökli, er um 10 ár á leiðinni og rigningin, sem fellur á hraunin ofan vatnsins, skilar sér 2–4 mánuðum síðar í Þing­vallavatn. Uppleyst efni verða því meiri í þessu vatni en ætla skyldi og það eykur alla möguleika til gróðurs. „Frjó eru vötn, sem renna undan hraunum“, segir fornt orðtak.
    Grunnvatnsrannsóknir sýna enn fremur að hið heita vatn Hengilsins er af sama uppruna. Það virðist fara mjög djúpt undir sprungukerfum vatnsbotnsins, en þau hafa líka verið könnuð.
    Gróður er mikill í vatninu og er1/ 3hluti botnsins þakinn gróðri. Enda þótt vatnið sé kalt er magn þörunga mikið. Lággróður er nokkuð mikill úti á 10 m dýpi en kransþörungar (há­gróður) verða mjög háir á 10–30 m dýpi og mynda stór gróðurbelti í vatninu sem hafa mikla þýðingu fyrir allt dýralíf, ekki síst fiskinn. Alls eru fundnar um 150 tegundir jurta á botni og sýnir það nokkuð fjölbreytni gróðursins. Um 50 tegundir dýra beita sér á þennan gróður, allt frá fjöruborði og út á mikið dýpi. Fæstum mun ljóst að 120 þús. dýr lifa á hverjum fermetra í fjöruborðinu en á 114 m dýpi lifa enn 5–10 þús. Dýr þessi mynda fæðu hinnar alþekktu og ljúffengu bleikju sem veiðist í Þingvallavatni. Mikilvæg fæða bleikjunnar er vatnabobbinn, en hann er þýðingarmikill hlekkur í fæðukeðju botnsins.
    Lífrannsóknir sýna að tengslin milli umhverfis vatnsins og lífríkis þess eru mjög mikilvæg fyrir jurtir og dýr þar eð fjölbreyttar botnmyndanir skapa fjölda búsvæða. Hraun af mismun­andi aldri og gerð skapa óvenjumikla fjölbreytni í búsvæðum vatnsins ásamt gliðnun jarð­skorpunnar sem skapar fylgsni fyrir fiska á milli steina og í gjám og gjótum. Einkum má nefna sérkennilegar hraunmyndanir eins og við Vellankötlu og aðrar líkar myndanir austan vatnsins og það lífríki sem tengist þeim. Þar má sérstaklega taka fram hin sérkennilegu tengsl botnafbrigða bleikjunnar við kaldavermsl vatnsins, en þau hrygna um hásumarið. Það er and­stætt hrygningu silunga að hausti sem venja er til við hærra hitastig.
    Hin nánu tengsl á milli vistfræði vatnsins og jarðfræði umhverfisins skapa vatninu algjöra sérstöðu meðal vatna heimsins. Fara þarf alla leið til Austur-Afríku til að finna hliðstæð vötn sem myndast í sprungum, en það eru hin frægu vötn Tanganyika, Nyasa og Eþíópíuvötnin og í framhaldi þeirra Dauðahafið og hið fræga Genesaretvatn.
    Við Þingvallavatn mætast austur og vestur í dýraríkinu. Himbrimi, straumönd, húsönd, bitmý og lítil krabbafló eru vestrænar tegundir allt vestan úr Klettafjöllum með austurmörk á Íslandi. Hins vegar eru flestar aðrar tegundir Evróputegundir með vesturmörk hér eða á Grænlandi.

Hvers vegna er Þingvallavatn svo blátt og tært?
    Í vatnsbolnum lifir jurtasvifið um mánaðartíma á vorin áður en það, fullnýtt, hnígur til botns og verður að seti, öðru nafni kísilgúr, á botni. Afleiðingin er að vatnið verður tært yfir sumarmánuðina. Í setinu hefur tekist að lesa helstu öskulög sem fallið hafa á þennan hluta landsins frá landnámstíð. Við getum nefnt landnámslagið frá 871, sem kom úr Torfajökli og Vatnaöldum, Kötlugosin árin 1000, 1500, 1721 og 1918. Enn fremur Heklugosin 1341 og 1693. Ástæðan fyrir því að svifið lifir svo stutt er sú að það deyr af níturþurrð í vatnsboln­um. Jurtasvifið er undirstöðufæða svifkerfisins og telur um 50 tegundir. Fæðukeðjan saman­stendur af fleiri liðum. Svifdýrin, aðallega þrjár tegundir smágerðra krabbadýra, lifa á jurta­svifinu, en þau eru hins vegar þýðingarmikil fæðudýr murtunnar. Rándýr kerfisins var urrið­inn auk stærstu bleikjanna. Gróðurinn í vatninu framleiðir um 30 þúsund tonn af þurrefni (sykrungum) á ári.

Fiskurinn og vistkerfið. — Fiskurinn og Sogið.
    Í Þingvallavatni eru þrjár tegundir fiska: bleikja, urriði og hornsíli.
    Í líffræðilegu tilliti hefur vatnið alþjóðlegt gildi þar eð Þingvallavatn er eina þekkta vatn­ið í heimi þar sem finnast fjögur afbrigði af bleikju (Salvelinus alpinus). Bleikjuafbrigðin má greina í sundur á útliti, fæðu og lifnaðarháttum. Murta lifir á dýrasvifi og skordýrapúpum og ránbleikja lifir á fiski, einkum á hornsíli og bleikjuungviði. Nefnist hún sílableikja. Bæði afbrigðin eru jafnmynnt, straumlínulaga og frekar ljós á lit. Þetta er aðlögun til að eltast við hreyfanlega fæðu sína í sjálfum vatnsbolnum. Murta er lítil, verður aðeins 20–22 cm á lengd og hún verður kynþroska 4–5 ára gömul. Sílableikja er murta sem 23 cm löng gerist fiskæta og stækkar þess vegna í 30–40 cm. Hún verður kynþroska 6 ára gömul. Í leit að hornsílum ferðast hún í hinum miklu gróðurbreiðum meðfram strandlengjunni á 10–30 m dýpi.
    Botnafbrigðin lifa á botndýrum strandgrunnsins og skiptast í dverg- og kuðungableikju. Dvergbleikjan verður aðeins 13 cm á lengd og kynþroska 2–4 ára. Kuðungableikjan verður stór og mjög fagur fiskur 55–60 cm á lengd en kynþroska verður hún fyrst 8 ára gömul. Bæði afbrigðin eru undirmynnt og því er auðvelt fyrir þau að taka fæðu af botninum. Dvergbleikj­an lifir góðu lífi í klettasprungum og gjótum á botni. Hér er fæða ríkuleg og hér er hún örugg í fylgsni sínu gegn ránfiskum. Dvergbleikjan má ekki verða of stór til að geta nýtt fylgsni sín og hún er fullkomlega aðlöguð mjög sérstæðu umhverfi. Bæði afbrigðin lifa á sömu fæðu, aðallega á sniglum, sem lifa í breiðum á klettum og grjóti því að þar grær fæða þeirra, þör­ungarnir, en einnig á rykmýslirfum.
    Auk bleikjunnar þreifst til langs tíma víðfrægur urriði (Salmo trutta) í Þingvallavatni. Stærsti og frægasti stofninn tengdist Efra-Sogi þar sem hið tilkomumikla afrennsli Þingvalla­vatns lá áður fyrr niður í Úlfljótsvatn. Marga aðra stofna urriða var að finna víðar í vatninu, bæði við uppspretturnar sem streymdu um gjár og sprungur í vatnið, en einnig við læki og ár sem falla í vatnið. Stórurriðinn var aðalfiskæta Þingvallavatns og beitti hann sér aðallega á murtuna. Dýralífið í Efra-Sogi var einstakt því að það skapaði fullkomna nýtingu á því lífræna efni sem barst með straumnum ofan úr Þingvallavatni. Urriðaseiði og smáurriði höfðu aðsetur milli steina í sjálfu Soginu og í iðunni ofan Sogs þar sem þau veiddu lífrænt „rek“ úr vatninu með því að liggja kyrr og grípa eða sía átu úr straumvatninu án þess að nota orku. Sú sía, sem tálknin mynda, síaði stærstu fæðuagnirnar frá og hafa það aðallega verið krabbadýrin úr svifinu ásamt bitmýslirfum sem voru aðalfæðan.
    Bitmýslirfur nærast á þann hátt að spenna út tvo háfa á hausnum þar sem möskvastærðin er1/ 1000úr millimetra. Bitmýið veiddi því allar minnstu fæðuagnirnar allt niður í bakteríustærð en urriðinn veiddi stóru agnirnar, eins og krabbadýr, í síur sínar á tálknunum sem eru um 1 mm eða þúsund sinnum grófari en hjá bitmýi.
    Urriðinn í Efra-Sogi náði fáheyrðri stærð og veiðibækur staðfesta að urriðar milli 20 og 30 pund hafi verið tíðir í veiðinni. Í bókinni Urriðadans eftir Össur Skarphéðinsson er sýnt fram á það með sterkum rökum að hvergi í heiminum hafi verið stórvaxnari urriði en í Þing­vallavatni, og einnig að ekkert vatn hafi státað af jafngóðri urriðaveiði og fékkst á haustin við Efra-Sog. Skýringar vísindamanna á hinni miklu urriðaveiði eru einkum þær að í og við Efra-Sog hafi verið hin ákjósanlegustu skilyrði fyrir hrygningu og uppvöxt á öllum stærðum urriðaseiða og er sérstaklega vísað til botngerðarinnar með breytilegum grófleika malar, mikils og stríðs straums, sem þó var mismunandi vegna fjölbreytileika í stærð botngrjótsins, og síðast en ekki síst gífurlegrar mergðar af bitmýi (Simulium vittatum) sem urriðinn er þekktur fyrir að sækja í. Straumvatn er forsenda fyrir þroska bæði urriðahrogna og bitmýs.
    Árið 1959 var hið náttúrulega útfall Þingvallavatns milli Kaldárhöfða og Dráttarhlíðar þvergirt með miðlunarstíflu og virkjunin í Steingrímsstöð tekin í notkun. Með þessum að­gerðum þurrkaðist árfarvegurinn í Efra-Soginu nánast alveg upp, bítmýið hvarf og urriðinn var sviptur helstu hrygningarstöðvum sínum. Breytingar á vatnsborðinu í kjölfar virkjun­arinnar höfðu líka afgerandi áhrif á viðgang annarra urriðastofna í vatninu sem hafa ekki borið barr sitt síðan.
    Þjóðhátíðardaginn 1959 urðu enn kaflaskil: Þann dag brast varnargarður fyrir framan inn­taksgöngin í Steingrímsstöð og vatnsflaumur með tíföldu magni Sogsins æddi niður í gegnum göngin og út í Úlfljótsvatn. Við þetta rask hurfu líklega síðustu leifar af riðastöðvum urrið­ans við útfallið sem hefðu getað haldið uppi einhverjum hluta urriðastofnsins við mynni Efra-Sogsins.
    Það leikur enginn vafi á því að með virkjun Steingrímsstöðvar og stíflun Efra-Sogs eyði­lagðist mikilfenglegt og merkilegt vistkerfi í og við hið náttúrulega útfall milli Þingvalla­vatns og Úlfljótsvatns. Erfðafræðirannsóknir benda til þess að urriðinn í Þingvallavatni sé af svokölluðu „fyrsta landnámi“ en slíkir stofnar eru á fallandi fæti og fáir eftir í Evrópu. Það eitt er talið ærin ástæða til að viðhalda urriðanum. Jafnframt hafa vísindamenn bent á að vistkerfi Sogsins, að urriðanum meðtöldum, hafi átt sinn þátt í árþúsunda þróun hinna sérstæðu bleikjuafbrigða í Þingvallavatni, fjarri íhlutun mannsins. Stíflun Sogsins raskaði þessu náttúrulega ferli. Líklegt er að urriðinn, sem er mikil fiskiæta, hafi virkað sem hemill á stóra murtuárganga og dregið úr mikilli fjölgun smárra fiska og þannig úr sveiflum í stofn­stærð og vaxtarhraða. Þetta samspil tegundanna er reyndar tilgáta sem virðist þó mjög senni­leg og fær stuðning af aflaskýrslum sem sýna mjög reglulegar sveiflur á tímabilinu 1896 til 1946 en mjög stórar og óreglulegar sveiflur eftir að Soginu var lokað 1959 og til 1988. Síðasta sveifla hefur varað mjög langan tíma eða þar til haustið 1993 þegar murtuveiði hófst að nýju, en á mjög lítilli murtu, aðeins 16 cm (sjá mynd 4).

Hreyfingar á vatnsborði og lífríkið.
    Strendur vatnsins eru óvenju fjölskrúðugar, myndaðar af hraunstraumum af ólíkum upp­runa, útliti og aldri, frá 2.000 til 150.000 ára gömlum. Útbreiðsla þeirra í vatninu er þekkt frá dýptarkortum.
    Hinar mörgu gerðir af strandlengjum skapa fjölda búsvæða fyrir dýr og jurtir. Þær eru undirstaða að auðugu botndýralífi og mikilli veiði.
    Þegar stöðuvötn eru virkjuð breytast eðlishættir þeirra og lífríki. Leyfðar vatnsborðs­breytingar í Þingvallavatni við virkjun Steingrímsstöðvar voru 1 m. Fyrsta áratuginn eftir virkjun Þingvallavatns voru þessar leyfilegu vatnsborðsbreytingar nýttar til fulls í þágu raf­orkukerfisins en síðustu tvo áratugi hafa vatnsborðsbreytingar minnkað. Síðasta áratuginn eru sveiflur á vatnsborði innan við hálfan metra, og undanfarin tvö ár hefur sveiflu vatns­borðsins verið haldið innan við 20 cm eins og fyrr segir.
    Meðan vatnsborð var hreyft ört, oft 10 cm á dag svo að dögum skipti, olli það myndun bárugarða sem mynduðust í mismunandi hæð og jurta- og dýralíf gjöreyðilagðist við örar hreyfingar. Afleiðingin var að veiði á kuðungableikju hrapaði mjög. Samvinna líffræðinga og Landsvirkjunar hefur jafnað mjög sveiflur á vatnsborði síðan 1980 og er árangurinn kom­inn fram í aukinni veiði og feitari fiski. Þetta sýnir hve aðlögunartími lífríkisins er langur á okkar breiddargráðu, þ.e. litlar sveiflur á vatnsborði halda lífi í þörungunum sem kuðungar beita sér á. Hinn upprunalegi fæðuhlekkur endurskapast og veiði kemst í fyrra horf.

Orkulindir vatnasviðsins.
    Auk hinnar miklu náttúrufegurðar er Þingvallasvæðið ein mesta auðlind íslensku þjóðar­innar. Hér voru byggð með fyrstu og öruggustu vatnsorkuverum landsins, Ljósafoss-, Íra­foss- og Steingrímsstöð, sem gefa af sér 89 MW.
    Hengilssvæðið, sem er meðal stærstu háhitasvæða á landinu, mun tryggja hita um langan aldur fyrir Reykjavíkursvæðið. Stærð Nesjavallavirkjunar er 100 MW en hana má auka í 400 MW. Auk þess er þar orka fyrir 80 MW rafmagnsvirkjun. Sýnt hefur verið fram á að vatn Nesjavallavirkjunar kemur alla leið úr Langjökli.
    Vatnasvið Þingvallavatns, sem er um 1.000 km2 að stærð, geymir stærstu neysluvatnslind í byggð á Íslandi. Það gefur af sér 100 m3 á sek. í Sogið við útfall úr Þingvallavatni, en 110 m3 á sek. við ármót Hvítár.
    Vatnasvið Brúarár ofan við Brúarfoss myndar ásamt Þingvallasvæðinu eina heild sunnan Langjökuls. Það er aðeins 225 km2 að stærð utan jökuls en gefur af sér mikið vatnsmagn eða 40 m3 á sek. Vatnasvið Brúarár nær neðanjarðar langt norður undir Langjökul og er því í raun miklu stærra.
    Samanlagt gefa þessi tvö vatnasvið því 140 m3 á sek. Hlutur þessara tveggja svæða er 30% af öllu lindarvatni sem rennur í byggð á Íslandi en það nemur um 400 m3 á sek., þar af a.m.k. 120 m3 á sek. sem hreint lindarvatn.
    Vatnsforði á höfuðborgarsvæðinu er 10–20 m3 á sek. en aðeins hluti hans verður nýttur áður en hann rennur til sjávar.
    Hið frábæra vatn Þingvalla- og Brúarárvatnasviðsins tryggir því neyslu- og nytjavatn fyr­ir Reykjavík og Reykjanesskagann fram á næstu öld eða aldir.
    Á Reykjanessvæðinu frá Selfossi að austan og að Kjalarnesi að vestan búa 67% þjóðar­innar eða 175.000 manns (Hagstofa Íslands des. 1992). Enn fremur er rétt að minna á að yfir 90% af fólksfjölgun í landinu verður á þessu svæði.
    Vatnsnotkun 50-faldaðist í Reykjavík frá 1903 til 1983 og er nú að meðaltali 600 l á mann á dag. Ef við reiknum með að vatnsnotkun 25-faldist aðeins á næstu öld verður vatnsnámið um 30 m3 á sek. Reynslan sýnir hins vegar að í verstöðvum þar sem fiskþvottur er mikill getur vatnsnotkun tvöfaldast á skömmum tíma. Það er því lífsnauðsynlegt fyrir fiskiðnað, fiskeldi og allan matvælaiðnað á Reykjanesskaganum að hafa aðgang að nægu neyslu- og nytjavatni í framtíðinni. Hafa ber í huga að ársframleiðsla frystra sjávarafurða frá 1942– 1985 hefur aukist úr 20 í rúm 140 þús. tonn. Ef fiskeldi tekur nýtt stökk eykst vatnsnotkun enn að mun.

Gróður og jarðvegur.
    Gróður er háður mörgum umhverfisþáttum eins og jarðvegi, hæð yfir sjó og loftslagi, þ.e. hita og úrkomu. Jarðvegur vestan og suðvestan vatnsins er víða um 1 m á þykkt. Þetta er mjög léttur jarðvegur og viðkvæmur fyrir uppblæstri.
    Hraun mynda yfir helming af öllu flatarmáli vatnasviðsins. Á þeim er þunnt, órofið jarð­vegslag með mosa, lyngi, víðirunnum og birki sem stenst vel uppblásturinn.
    Mýrlendi er örlítið umhverfis Þingvallavatn, í nánd við Ölfusvatn sunnan Sprænutanga og í hlíðunum vestan Þingvallavatns, ásamt Kringlumýri í Lyngdalsheiði.
    Frægastir eru Þingvellir fyrir birkiskóginn en hann er einkennandi fyrir svæðið. Allir þekkja nafnið Bláskógar úr Landnámu Ara fróða. Skilyrði fyrir birkiskóg eru ákjósanleg á svæðinu þar eð birki krefst 7,0–7,5°C hita yfir sumarmánuðina maí til ágúst til að þrífast en meðalhitinn var 9,5°C 1931–1960 og 8,3°C 1961–1980.
    Birkiskógurinn nær nú mannhæð eða meira eftir nær 70 ára friðun og einkennist af undur­fögrum botngróðri með blágresi, undafíflum, túnfíflum, brennisóley, maríustökkum, hrúta­berjum og Jakobsfífli. Hæst er birkið í Þingvallalægðinni sem er rúmlega 100 m.y.s. en birkið grær í allt að 340 m.y.s. í Ármannsfelli. Þar sem birkið nær hæst er gróðursamfélagið blanda af víði, lyngi og fjalldrapa enda glóa fjöllin á haustin í gulum og rauðum litum.
    Í Sturlungu segir að Bláskógaheiði hafi náð upp að Hallbjarnarvörðum. Hallbjarnar­vörður liggja í 340 m.y.s og hefur birki líklega náð langleiðina þangað. Hins vegar vex birki nú á dögum aðeins norður með Ármannsfelli að Hofmannaflöt. Mörkin eru því um 13 km sunnar nú og hefur skógurinn þannig dregist verulega saman.
    Álitið er að veðurskilyrði hafi farið versnandi frá landnámstíð og fram á 20. öld. Loftslag og sauðfjárbeit hafa valdið miklu foki og rofi á Skjaldbreiðarafrétti, í austurhlíðum Mosfells­heiðar og Hengilssvæðinu. Setmælingar á botni Þingvallavatns hafa sýnt að áfok var tvöfalt á tímabilinu 1918–1983 miðað við tímabilið 1500–1721.
    Á Skjaldbreiðarafrétti voru 430 km2 friðaðir fyrir sauðfjárbeit með þjóðarátakinu 1974. Þar hafa fundist 25 tegundir í hinni svörtu eyðimörk en búast má við að enn fleiri af þeim 250 tegundum sem finnast á vatnasviðinu hasli sér þar völl. Svæðið virðist nú í nokkurri framför en sandblástursgeirinn ofan Sandvatns og norðan í Skjaldbreið færist þó enn þá í aukana.

Fuglar og spendýr.
    Við vatnið lifa 52 tegundir fugla að staðaldri en aðrar 30 koma af og til. Þingvallavatn er djúpt. Í Þingvallavatni er því ekki fyrir hendi sá gróður og það dýralíf á grunnu vatni sem er undirstaða stórra fuglastofna eins og við Mývatn. Endur geta ekki kafað svo djúpt eftir fæðu. Mófugl er algengur á hinum miklu víðáttum. Allir þekkja tindrandi raddir spóans, lóunnar, hrossagauksins og skógarþrastarins. Þá er enn fremur nokkuð af rjúpu.
    Allmiklar breytingar hafa orðið á fuglalífi við Þingvallavatn undanfarin 30 ár. Orsakanna má ekki síst leita í því að á fyrri hluta fimmta áratugarins hóf minkurinn innrás sína á svæðið með válegum afleiðingum fyrir viðgang margra fuglategunda sem áttu búsvæði við vatnið. Einnig hefur gengið nokkuð á varpstaði andartegunda og annarra fugla sem eru nátengdir vatnsbakkanum. Það hefur meðal annars leitt til þess að einkennisfugli vatnsins, himbrim­anum, hefur fækkað.
    Þrjú villt spendýr lifa á Þingvallasvæðinu, en það eru fjallarefur, minkur og hagamús. Fjallarefurinn hefur lifað þarna frá alda öðli og sennilega komist til Íslands á ís. Það virðast vera nokkuð miklar sveiflur á fjölda hans á síðari hluta þessarar aldar samkvæmt veiði­skýrslum. Fæða hans er aðallega fuglar, sérstaklega rjúpa á vetrum, en einnig minkur og lömb. Lömbunum virðist hafa fækkað í fæðu hans eftir að farið var að ala sauðfé meira heima við. Veiðiskýrslur sýna enn fremur að bláum refum hefur fjölgað meðal skotinna dýra, en þeir hafa sloppið úr refabúum á Suðvesturlandi og blandast villta stofninum. Villti stofn­inn, hinn upprunalegi refur, er því í varnarstöðu.
    Minkur var fluttur til landsins 1931 til loðdýraræktar. Fyrstu minkar sluppu út úr minka­búi í Grímsnesi 1932, aðeins 17 km frá vatninu, og hann er nú algengur á Þingvallasvæðinu þar sem 50–200 dýr hafa verið skotin árlega. Minkur lifir aðallega á fiski en einnig fugli, með þeim afleiðingum sem áður er lýst.
    Hagamús er mjög algeng á Þingvallavatnssvæðinu. Álitið er að hún hafi flust til landsins með heyi landnámsmanna þegar á 9. eða 10. öld.

Hvaðan er líf á Þingvallasvæðinu ættað?
    Næstum allur gróður og allt dýralíf er ættað frá Evrópu en þó eru áberandi tegundir í gróður- og dýraríki vestrænar. Nefna má eyrarós, blástjörnu, friggjargras og grávíði. Úr dýraríkinu koma að vestan: Himbrimi, straumönd, húsönd (sjaldgæf) og bitmý Sogsins. Ein aðalkrabbafló vatnsins er einkennistegund í ,,Hinum stóru vötnum“ Norður-Ameríku. Ein­stæð er toppfluga vatnsins — Chironomus islandicus — en hún finnst aðeins á Íslandi, þ.e. hefur myndað nýja tegund fyrir Ísland.

Þróun byggðar og búskapar 1703–1993.
    Samkvæmt manntalinu 1703 bjuggu 135 manns á 17 jörðum kringum Þingvallavatn (í Þingvallasveit og hluta af Grafningshreppi). Um aldamótin 1800 var þjóðin mun fámennari en 100 árum áður er fyrsta manntalið fór fram. Ástæðan var sú að 25% þjóðarinnar dóu úr stórubólu 1707–1709 og í móðuharðindunum 1783–1786 fækkaði þjóðinni um 20% vegna horfellis, farsótta og ófrjósemi kvenna af völdum hungurs. Um miðja 18. öldina létust um 10% vegna hungursneyðar. Í Þingvallasveit einni bjuggu 87 manns 1703 og 98 árið 1801. Fjöldinn var 117 árið 1835 og hafði þannig aukist um 20%, en 1870 var talan 145. Harðæri orsakaði flutning úr sveitinni þannig að upp úr aldamótunum 1900 hafði íbúum fækkað í 100 og hélst þessi tala þar til um 1930 en þá fækkaði enn og íbúatalan var 43 árið 1991 (sjá mynd 1).
    Fjárbúskapur og veiði hafa alla tíð verið aðalatvinnuvegir við Þingvallavatn. Bæirnir liggja í 100–200 m.y.s. og viðkvæmt beitiland þeirra enn hærra. Fjöldi býla kringum vatnið réðst af því hvernig áraði. Eftir harðindin á 18. öld var fjöldi býla kominn niður í 17 en á köflum höfðu 16 önnur býli verið í byggð þegar vel áraði. Árni Magnússon og Páll Vídalín könnuðu búskap við vatnið á árunum 1706–1711. Þá voru byggðir 17 bæir og fjöldi heima­fólks var 135 og hver persóna hafði þá að meðaltali 1 kú og 10 sauðfjár sér til viðurværis.
    Búskapur var háður beit allt árið fyrir hross og sauðfé og að nokkru fyrir kýr þar eð tún voru lítil. Búskapur var því háður ýtrustu nýtingu á beitilandi og bústofn var nákvæmlega hinn sami við byrjun og lok 18. aldar. Skepnufjöldi og fjöldi ábúenda fór því eftir beit og túnstærð.
    Mynd 2 sýnir fjölda sauðfjár í Þingvallasveit og Grímsnes- og Laugardalshreppi 1711– 1810 og 1854–1990. Fjöldi sauðfjár í Þingvallasveit hafði tvöfaldast eftir 1830, þrefaldast 1854 fyrir fjárkláðann og fjórfaldast 1981. Þrátt fyrir fækkun fólks í sveitinni og sauðfjár­sjúkdóma var fjárstofn Þingvallasveitar að meðaltali 2.000 á ári fyrir tímabilið 1854–1990 en tveir alvarlegir sjúkdómar orsaka miklar sveiflur í bústofni á þessum tíma en þeir eru færilúsin (kláði) sem geisaði 1858–1859 og síðan mæðiveikin 1937–1951. Grímsnesingar hafa löngum beitt Þingvallaafrétt. Fróðlegt er að sjá sveiflur á fjölda sauðfjár í Grímsnesinu. Hreppaaðskilnaður Laugardals og Grímsness kemur fram í skýrslum 1905. Hér eru báðir hreppar meðtaldir til að fá samanburð við tölur frá 1708. Þá var fjárstofn þeirra alls 3.457 fjár. 1854 var stofninn kominn í 7.889 kindur og hafði þannig meira en tvöfaldast frá 1708. Færilúsin (kláði) fór illa með hann því að 1859 var fjöldinn kominn niður í 2.915. Á næstu 20 árum jókst talan upp í tæp 9.000. Þessi fjöldi hélst til 1926 að undanteknum þeim sveiflum sem voru á harðindatímabilinu frá 1883 til 1903. Mikil fjölgun varð á sauðfé með aukinni ræktun frá 1927 til 1938 er mæðiveikin gerði vart við sig og var hún illvíg á svæðinu til 1951. Upp úr 1955 fjölgaði fé ört í 15.000 og hélst sú tala í 30 ár til 1985 en þá fækkaði sauðfé mjög vegna markaðsörðugleika.
    Beitarálag á Þingvallaafrétti á síðari helmingi þessarar aldar hefur því um fjórfaldast frá 1708. Fyrir Þingvallasveit er talan um 360% og fyrir Grímsnes og Laugardal um 430%.
    Hætt er við að þetta álag, sem sífellt hefur aukist undanfarin 150 ár, sé ein af orsökum þess að áfok í Þingvallavatn hefur tvöfaldast á tímabilinu frá 1918 til 1983 miðað við tíma­bilið frá 1500 til 1721. Ætla má að beitarálag undanfarinna 150 ára á Þingvallaafrétti hafi verið frá 10–15 þús. fjár.
    Sauðfjárbúskapur sem aðalatvinnugrein er nú aðeins stundaður á fjórum jörðum í Þing­vallahreppi.
    Leiga eða sala á sumarbústaðalöndum er nú viðurkennd búgrein í sveit.
    Fjöldi sumarbústaða innan vatnasviðsins er um 600. Enn fremur eru um 200 óbyggðar lóðir.

Veiðibúskapur Þingvallavatns 1706–1993.
    Saga veiði við Þingvallavatn nær yfir 300 ára tímabil. Á árunum 1706–1711 var veitt frá 13 bæjum aðallega að vetri til með krókum, hoppungi og dorgi gegnum ís. Vaðmálsnet þekkt­ust en voru aðeins notuð á tveimur bæjum þar eð bátar voru ekki til á vatninu. Sr. Jón Þorkelsson hefur lýst breytingum sem urðu á Þingvallavatni við jarðskjálftana og landsigið 1789. Sum net hans lágu á þurru landi en eftir öðrum þeirra þurfti að vaða. Á síðustu öld keyptu bændur báta á vatnið og net urðu algeng. Hampnet voru notuð í Mjóanesi upp úr 1850, og Feddersen (1885) skrifar að sr. Jens Pálsson hafi látið honum í té net við rannsóknir hans 1884. Murtuveiði hófst um leið og hampnet urðu algeng. Veiðin jókst stórum og hafði mikla þýðingu fyrir bændur. Murta þótti ljúffeng og var seld sem ódýr soðning um Suðurland og Borgarfjarðardali. Kuðungableikja (botnbleikja) og sílableikja ásamt urriða voru seld sem lostæti til Reykjavíkur.
    Á tímabilinu frá 1896–1902 var veitt frá 17 bæjum (Bjarni Sæmundsson 1897–1904). Árið 1930 var enn veitt frá 17 bæjum en 1990 var talan komin niður í sex. Net úr hörtvinna voru notuð fram til 1920 en síðar úr bómull, nælon og girni. Öll net voru hnýtt á bæjum þar til nælon og girnisnet komu til sögunnar.
    Veiðin hófst ávallt með írekstrarveiði á vorin. Þegar hitastig komst í 3°C fór fiskurinn að ganga á grunnið og oft var hlutur urriðans stór í þeirri veiði.
    Veiðiskýrslur Þingvallavatns ná yfir tæp 100 ár, 1896–1987 að undanteknu tímabilinu 1947–1958.
    Veiði hefur stöðugt aukist. Framan af voru kuðungableikja og sílableikja aðalþáttur veið­innar, sérstaklega þegar markaðsverð hækkaði í fyrra stríði í Reykjavík. Bleikjan hélt áfram að vera í góðu verði, ekki síst eftir að samgöngur tóku að batna upp úr 1930. Sérstaklega tók veiðin mikið stökk eftir að niðursuða hófst 1938 og var murtan eftir það aðalstofn veiðinnar. Þegar hringvegurinn var fullgerður 1942 hófst stangaveiði meðfram flestum strandlengjum við suðausturhluta vatnsins ekki síst þeim sem friðaðar höfðu verið frá alda öðli. Mynd 3 sýnir að veiðin jókst jafnt og þétt en miklar voru sveiflurnar, en þó nokkuð reglulegar, á ára­bilinu 1896 til 1946. Bændur kvörtuðu sáran yfir veiðileysi þegar um aldamótin við Bjarna Sæmundsson. Enn fremur er mjög greinilegt að veiðinni var hætt í Grafningi að mestu upp úr 1930.
    Á mynd 4 er veiðin gefin upp eftir vigt. Þar sést að veiðin hefur 8-faldast á 100 árum, úr um 10 tonnum í um 75–80 tonn á ári. Þessar tölur sýna að Þingvallavatn er frábært veiðivatn samanborið við önnur vötn á sömu breiddargráðu með veiði upp á 10 kg á hektara á ári. Á þessari heildarmynd sést greinilega að sveiflurnar gerast mjög miklar og óreglulegar eftir virkjun Sogsins 1959. Virkjunin virðist því hafa haft grundvallaráhrif á veiðina, sérstaklega murtuveiðina.

Hve mikið magn af fiski er í vatninu?
    Tilraunaveiði var framkvæmd 1983 og 1984 og sýndi eftirfarandi:

Murta
642 tonn
Sílableikja
36 tonn
Kuðungableikja
22 tonn
Dvergbleikja
9 tonn
Hornsíli
50 tonn
Alls
759 tonn

    Heildarmagn af bleikju var því um 700 tonn vegna þess að hornsíli og dvergbleikja eru ekki veidd. Hornsíli er hins vegar nauðsynlegur hlekkur í fæðukeðju sílableikjunnar. Áber­andi er hve stofnarnir af kuðunga- og sílableikju eru litlir, nefnilega 22 og 36 tonn. Áætlað er að veiða megi allt að 50% af veiðanlegum murtustofni en sýnt var fram á að aðeins voru veidd 17%. Þessi staðreynd var augljós eftir 1985 þegar murtustofninn var stór en veiddist ekki vegna smæðar fisksins. Enn fremur var áætlað að 20% af veiðanlegri kuðunga- og síla­bleikju væru veidd. Þetta má kalla lágar tölur en taka þarf tillit til þess að bleikjuafbrigðin vaxa hægt og verða allt að 18 ára gömul. Á stórum svæðum í vatninu er ekki veitt. Það mun fara nærri lagi að hægt sé að veiða 10% af þeim 700 tonnum sem eru í vatninu.
    Fyrir stíflugerð við Sog 1959 var stór og mikill urriðastofn í vatninu. Murta var þýðingar­mikil í fæðukeðju urriðans og því má ætla að hann hafi verið um 8% af murtustofni eða 50 tonn.
    Á þessari öld hefur veiðin í vatninu margfaldast og hún hefur verið veruleg búbót fyrir margar jarðir en nýting á kuðunga- og sílableikju hefur víða gengið nærri stofni þeirra.


Heimildir:
    Árni Magnússon og Páll Vídalín.
    Manntal á Íslandi 1703.

    Árni Magnússon og Páll Vídalín.
    Jarðabók. 2. bd. Árnessýsla (Grafningur 1706 og Þingvallasveit 1711).
    Kaupmannahöfn 1918–1921.
    Önnur útgáfa, Reykjavík 1981.

    Skýrslur um Landshagi á Íslandi, bd. 1–5.
    Hið íslenska Bókmenntafélag í Kaupmannahöfn, 1858–1875.

    Landshagsskýrslur og Hlunninda 1899–1913.
    Reykjavík.

    Hagskýrslur Íslands og skýrslur um landbúnað á Íslandi 1703–1991.
    Reykjavík.

    Ecology of oligotrophic, subarctic Thingvallavatn.
    Ritstjóri: Pétur M. Jónasson.
    Kaupmannahöfn 1992.

    Össur Skarphéðinsson.
    Urriðadans.
    Reykjavík 1996.

    Bjarni Sæmundsson.
    Um Fiskirannsóknir 1897. — Andvari 1898, 22: 96–172. Reykjavík.
    Fiskirannsóknir 1902. — Andvari 1904, 29: 79–119. Reykjavík.







(2 myndir.)







(2 myndir.)



Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

    Með frumvarpi þessu er stuðlað að verndun lífríkis Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Lagt er til að allt svæðið frá vatnaskilum í Hengli inn í Langjökul verði sérstakt vatnsvernd­arsvæði og að óheimilt verði að gera nokkuð það sem getur spillt eða mengað vatn innan svæðisins.
     Ekki verður séð að samþykkt laganna hafi veruleg áhrif á kostnað ríkissjóðs.