Ferill 223. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1023  —  223. mál.




Nefndarálit



um breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Þegar lögin um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins voru samþykkt á Alþingi var ákveðið að hafa sérstaka vöruþróunar- og markaðsdeild hjá Nýsköpunarsjóði. Þessi deild skyldi starfa í þrjú ár en síðan átti að leggja hana niður og eignir hennar að renna til almennrar starfsemi Nýsköpunarsjóðs. Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar er nú hætt við að leggja deildina niður. Nái vilji meiri hlutans fram að ganga verður deildin gerð að varanlegum hluta Ný­sköpunarsjóðs.
    Minni hlutinn telur ótímabært að breyta þessu ákvæði laganna um Nýsköpunarsjóð. Best væri að leggja deildina niður og láta eignir hennar renna til almennrar starfsemi Nýsköpunar­sjóðs. Verksvið deildarinnar er að stuðla að markaðsaðgerðum og vöruþróun en þau verkefni er samkvæmt lögum hægt að vinna að innan almennrar starfsemi Nýsköpunarsjóðs. Ekkert í núgildandi lögum styður það að hluti sjóðsins sé rekinn í sérstakri deild.
    Ástæða þess að deildin var stofnuð á sínum stíma er að iðnrekendur töldu að þeir ættu sér­stakan rétt á því fjármagni sem hafði verið innheimt með iðnlánasjóðsgjaldi. Hér er því uppi sígild staða í íslensku atvinnulífi. Forsvarsmenn hagsmunagæslufélags, í þessu tilviki starfs­menn Samtaka iðnaðarins, vilja hafa áhrif á hvernig iðgjöldum fyrirtækja frá fyrri tíð verður varið. Ef vafi leikur á hver á þetta fé hefði verið nærtækast að greiða það til þeirra sem lögðu það fram á sínum tíma. Það er hins vegar ekki vilji ríkisstjórnarinnar né vina hennar innan Vinnuveitendasambandsins. Þeir vilja fá að ráðstafa fénu eins og þá lystir. Minna má á að þegar gengið var eftir því kom í ljós að iðnlánasjóðsgjaldinu hafði verið varið til að reka skrifstofu iðnrekenda. Reynt er viðhalda leynd yfir ráðstöfun þessa fjár. Þannig þurftu dómstólar að skera úr um að Nýsköpunarsjóði væri skylt að veita upplýsingar um styrk­veitingar úr vöruþróunar- og markaðsdeildinni. Minni hlutinn átelur þessi vinnubrögð og telur að engin rök séu fyrir því að breyta núgildandi lögum. Deildin er óþörf en ef menn vilja ekki leggja hana niður strax hefði þó verið betra að gera það eftir þrjú ár eins og gildandi lög segja til um, frekar en að gera hana að varanlegum hluta Nýsköpunarsjóðs. Vitanlega er ekki skylt samkvæmt lögunum að eyða eignum deildarinnar á þessum þremur árum.
    Benda má á að Nýsköpunarsjóður hefur aðeins starfað í eitt ár og því hefði verið eðlilegt að fresta ákvörðun um framtíð deildarinnar t.d. til hausts eða næsta árs. Ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis vill hins halda áfram að gæta hagsmuna vinnuveitenda og í þessu tilviki með því að fela þeim sérstakt ráðstöfunarvald yfir fjármunum almennings. Að frumkvæði minni hlutans ætlar meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar þó að leggja til að í ársreikn­ingum Nýsköpunarsjóðs fylgi skrá yfir lánveitingar, hlutafjárkaup og óafturkræf framlög Ný­sköpunarsjóðs. Það er vitaskuld til bóta.
    Minni hlutinn telur algerlega ótímabært að lögfesta vöruþróunar- og markaðsdeild um aldur og ævi. Hægt er að vinna að þeim málum með almennu starfi sjóðsins á hagkvæmari og einfaldari hátt. Minni hlutinn leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 8. mars 1999.



Ágúst Einarsson,


frsm.


Steingrímur J. Sigfússon.


Sigríður Jóhannesdóttir.