Ferill 528. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1111  —  528. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um náttúruvernd.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Magnús Jóhannesson og Guðjón Ólaf Jónsson frá umhverfisráðuneyti, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun, Árna Bragason frá Náttúruvernd ríkisins og Sigurgeir Þorgeirsson og Jón Benediktsson frá Bændasamtökunum. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Rannsóknarráði Íslands, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Ungmennafélagi Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnun Háskóla Íslands, Eyþingi - Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veiðimálastofn­un, Landssambandi veiðifélaga, Siglingastofnun Íslands, Vinnueftirliti ríkisins, Kennarahá­skóla Íslands, Vinnuveitendasambandinu, Skotveiðifélagi Íslands, Jarðfræðifélagi Íslands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, SAMÚT, Félagi landfræðinga, Félagi húsbílaeigenda, Landsvirkjun, Landvernd, embætti yfirdýralæknis, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Skipu­lagsstofnun, Náttúruvernd ríkisins, Vegagerðinni, Hellarannsóknafélagi Íslands, Hollustu­vernd ríkisins, Orkustofnun, Félagi leiðsögumanna, Landgræðslu ríkisins, Náttúruverndar­samtökum Íslands, Fuglaverndarfélagi Íslands, veiðimálastjóra, Náttúrufræðistofu Kópa­vogs, umhverfisnefnd Félags íslenskra náttúrufræðinga, Ferðafélagi Íslands, Bændasam­tökum Íslands, Flugmálastjórn, Umhverfissamtökum Íslands, laganefnd Arkitektafélags Ís­lands, Veðurstofu Íslands, Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands, Landmælingum Íslands, Fjallinu, félagi jarð- og landfræðinema við Háskóla Íslands, Þjóðminjasafni Íslands, Æðar­ræktarfélagi Íslands, veiðistjóraembættinu, búnaðarþingi, Náttúruverndarráði, Náttúrustofu Austurlands og Hafrannsóknastofnuninni.
    Lengi hefur verið beðið eftir heildstæðu frumvarpi á sviði náttúruverndar. Núgildandi lög um náttúruvernd eru nr. 93/1996. Þau tóku við af lögum sem voru frá árinu 1971. Helstu breytingar í lögunum frá árinu 1996 lutu að stjórnsýslu á sviði náttúruverndar en efnis­breytingar voru smávægilegar. Það þótti hins vegar horfa til skilningsauka og einföldunar að setja heildstæð lög þar sem breytingar voru viðamiklar og snertu flestar greinar laganna. Til stóð svo í framhaldi af því að endurskoða efnisþætti sem snúa að náttúruvernd og er þeirri vinnu nú lokið með framlagningu þessa frumvarps. Í því eru lögð til ýmis nýmæli og er mörgum mikilvægum þáttum gert hærra undir höfði en verið hefur í eldri lögum. Höfð hefur verið hliðsjón af alþjóðasamningum sem Íslendingar eru aðilar að og með því móti er leitast við að færa Ísland nær öðrum þjóðum á sviði náttúruverndar.
    Nefndin hefur haft til umfjöllunar frumvarp Hjörleifs Guttormssonar um náttúruvernd (84. mál á þskj. 84) þar sem lagðar eru til ýmsar efnislegar breytingar á lögunum frá 1996 sem eru í samræmi við það sem kemur fram í þessu frumvarpi. Þegar því frumvarpi sem hér um ræðir var vísað til nefndarinnar ákvað hún hins vegar að einbeita sér alfarið að afgreiðslu þess.
    Við umfjöllun nefndarinnar á frumvarpinu kom í ljós að ekki var ágreiningur milli nefndarmanna um grundvallaratriði þess þótt margar athugasemdir væru gerðar við það. Frumvarpið var lagt fram seint á yfirstandandi þingi en nefndinni hafa þó borist margar um­sagnir um það og hefur hún farið yfir þær. Miklar umræður hafa farið fram í nefndinni og leggur hún til að ákveðnar breytingar verði gerðar. Helstu efnisbreytingar eru þessar:
     1.      Nefndin leggur til orðalagsbreytingu á 1. mgr. 1. gr. Í stað þess að talað verði um samskipti manns og náttúru verði talað um samskipti manns og umhverfis. Nefndin lítur svo á að það sé heppilegra orðalag með tilliti til þess að telja verður að maðurinn sé hluti af náttúrunni. Í 3. mgr. sömu greinar er lagt til að bætt verði við markmiðssetninguna að stuðlað verði að vernd auðlinda þjóðarinnar. Að mati nefndarinnar hlýtur það að vera eitt af markmiðum náttúruverndar og því er sjálfsagt að geta þess.
     2.      Lagt er til að 2. gr. frumvarpsins gildi einnig um landhelgi og efnahagslögsögu, sbr. 1. og 3. gr. laga nr. 41/1979. Íslendingar hafa tekið á sig ýmsar skyldur með aðild að ýmsum alþjóðlegum samningum, t.d. Bernarsamningnum um vernd villtrar náttúru í Evrópu og Ríósamningnum um líffræðilega fjölbreytni. Frumvarpinu er m.a. ætlað að sinna þessum skyldum og því mikilvægt að ákvæði þess gildi einnig um náttúru hafsins. Tekið er fram í frumvarpinu að það breyti í engu ákvæðum annarra laga um vernd, friðun og veiðar á villtum dýrum til lands og sjávar. Nefndin telur hins vegar rétt að til staðar séu lög um náttúruvernd sem taki til þeirra atriða sem ekki er getið um í sérlögum.
     3.      Nefndin leggur til viðbót við skilgreiningu frumvarpsins á rækuðuð landi. Nefndin lítur svo á að viðbótin taki fyrst og fremst til skógræktar á fyrstu stigum, þ.e. þegar plöntur eru á viðkvæmu stigi og lítt sýnilegar (t.d. lægri en 50 cm á hæð).
     4.      Lagt er til að í 2. mgr. 4. gr. verði kveðið á um að ráðherra hafi samráð við hlutaðeigandi aðila og aðra sem við á hverju sinni við mótun stefnu í náttúruvernd og fram­kvæmd og fræðslu á því sviði. Nefndinni hefur verið bent á að ýmsum aðilum er falið lögbundið hlutverk á sviðum sem tengjast stefnumótun og fleiru á sviði náttúruverndar en ekki var gert ráð fyrir þeim í frumvarpinu. Nefndin leggur því til að í stað þess að telja upp tilgreinda aðila verði ráðherra falið að útfæra nánar við hverja skuli haft sam­ráð og hvernig og taki við það tillit til gildandi löggjafar og hlutverks þeirra aðila sem starfa á hverju sviði.
     5.      Lagðar eru til breytingar á c-lið 6. gr. í samræmi við það að ýmsum aðilum er falið að fara með almennt eftirlit í samræmi við hlutverk sitt í stjórnsýslunni. Má sem dæmi nefna sýslumenn og lögreglu og Vegagerðina. Náttúruvernd ríkisins er ekki ætlað að taka yfir neitt af hlutverkum þessara aðila. Einnig er gerð breyting vegna útgáfu náttúru­minjaskrár, sbr. 67. gr. Nefndin vill leggja til að í stað þess að tala einungis um útgáfu skrárinnar verði einnig talað um skráningu hennar. Felst í því að ákvörðun um ný svæði á náttúruminjaskrá er alltaf aðgengileg almenningi, t.d. á internetinu, í stað þess að bíða þurfi útgáfu nýrrar náttúruminjaskrár.
     6.      Lagt er til í 1. mgr. 7. gr. að Náttúruvernd ríkisins sé einnig heimilt að fela einstaklingum og lögaðilum almennt eftirlit með náttúru landsins. Það hefur tíðkast hjá Nátt­úruvernd ríkisins undanfarin ár að hafa eftirlitsráðgjafa í öllum landshlutum og sinna þeir almennu eftirliti með náttúru landsins og vinna í samráði við náttúruverndarnefndir sveitarfélaga. Leggur nefndin til að þetta fyrirkomulag verði lögfest en góð reynsla er komin á það. Tillaga nefndarinnar felur það einnig í sér að öðrum en einstaklingum verði falið eftirlitið svo sem fyrirtækjum eða öðrum aðilum. Náttúruvernd ríkisins verður í sjálfsvald sett að ákveða hverjum hún vill fela eftirlitið en umhverfisráðherra verður þó að staðfesta samninga sem hún gerir um þetta efni.
     7.      Lögð er til sú breyting á 1. mgr. 8. gr. að Náttúruverndarráð skuli starfrækja skrifstofu með a.m.k. einum fastráðnum starfsmanni. Nefndin telur mikilvægt að starfsemi Nátt­úruverndarráðs verði fest í sessi og ein leið til þess er að setja það í lög að það hafi sjálfstæða skrifstofu. Starfsemi Náttúruverndarráðs eykst með hverju árinu og nefndin telur tímabært að það starfi sjálfstætt með eigin skrifstofu og fastráðinn starfsmann sem sinni eingöngu verkefnum sem heyra undir starfsemi Náttúruverndarráðs.
     8.      Nefndin leggur til breytingu á 2. mgr. 10. gr. sem felur það í sér að forstöðumenn allra stofnana sem starfa á sviði náttúrufræða eigi aðild að náttúruverndarþingi í stað þess að telja upp einstakar stofnanir. Náttúruverndarþing er vettvangur þeirra sem fjalla um náttúruverndarmál og því mikilvægt að sérfræðiþekking á þeim sviðum sem fjallað er um hverju sinni sé tryggð. Bent skal á að stjórnsýsla þessara mála hefur breyst síðustu ár og áratugi og nefndin telur eðlilegra að kveðið sé á um að forstöðumenn þeirra stofn­ana sem starfi á sviði náttúruverndar eigi sæti á náttúruverndarþingi og það þannig tryggt að nauðsynleg sérfræðiþekking sé til staðar.
     9.      Lagðar eru til breytingar á 11. gr. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar varðandi greiðslu kostnaðar af náttúruverndarnefndum. Meginreglan skal vera sú að sveitar­stjórnir greiði kostnað sem hlýst af störfum nefndanna enda starfa þær á þeirra vegum. Í öðru lagi eru gerðar tvær breytingar sem eru til þess fallnar að auka yfirsýn Nátt­úruverndar ríkisins yfir starfsemi náttúruverndarnefnda. Þannig skal tilkynna til Nátt­úruverndar ríkisins um kjör í náttúruverndarnefndir eftir hverjar sveitarstjórnar­kosningar og í lok hvers árs skulu nefndirnar senda skýrslu til Náttúruverndarráðs með yfirliti yfir störf sín.
     10.      Lagðar eru til breytingar á 13. gr., orðalags- og efnisbreytingar. Nefndin telur eðlilegt að kveðið sé á um að á leið sinni um landið skuli menn sýna landeigendum og öðrum rétthöfum lands tillitssemi og virða hagsmuni þeirra. Með því að vísa til lands almennt er ekki aðeins átt við eignarlönd heldur einnig þjóðlendur. Þá leggur nefndin til að orðið „prílur“ sé fellt brott. Enginn eðlismunur er á göngustiga og prílu og því skal nota annað orðið. Í lokamálsgreininni leggur nefndin til að orðuð verði varúðarregla og kveðið á um að för manna um land sé ekki á ábyrgð eiganda þess eða rétthafa. Þannig ber ferða­mönnum að gæta varúðar og almenna reglan er sú að þeir bera sjálfir það tjón sem þeir verða fyrir á för sinni um landið. Er þetta gert til að taka af allan vafa um að lögunum er ekki ætlað að setja nýjar reglur um skaðabótaábyrgð landeigenda eða annarra rétt­hafa. Að sama skapi er lögunum ekki ætlað að breyta núverandi réttarástandi til að draga úr þeirri ábyrgð sem hugsanlega hvílir á landeigendum og öðrum rétthöfum. Ræðst það af ákvæðum annarra laga og meginreglum skaðabótaréttar.
     11.      Nefndin leggur til að gerðar verði takmarkanir á heimildarákvæði 1. mgr. 14. gr. sem heimilar mönnum án sérstaks leyfis landeiganda að fara um óræktað land og hafa þar dvöl. Eiganda eða rétthafa eignarlands er heimilt að takmarka eða banna með merk­ingum við hlið og göngustiga umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að þessir aðilar telji ástæðu til að nýta þessa heimild. Má þar nefna beit eða aðra notkun á landinu. Þrátt fyrir þessa heimild landeiganda til að banna eða takmarka för almennings um afgirt svæði í byggð er það álit nefndarinnar að í þeim tilvikum er ríkisvaldið veitir einstaklingum og félögum stuðning til skógræktar, skuli stuðningurinn skilyrtur því að landeigendur heimili almenningi för um skóg­ræktarsvæði þegar skógrækt er komin af fyrstu stigum. Því er lögð til breyting á 2. mgr.
     12.      Á 17. gr. er að mestu um orðalagsbreytingar að ræða. Í síðari málslið 2. mgr. er jöklum þó bætt inn í reglugerðarákvæði. Getur ráðherra þannig í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, takmarkað eða bannað akstur á snjó og jöklum þar sem hætta er á náttúruspjöllum eða óþægindum fyrir aðra sem þar eru á ferð.
     13.      Miklar umræður spunnust um 20. gr. sem fjallar um heimild manna til að slá upp viðlegutjöldum og leggur nefndin til nokkrar breytingar. Nefndin telur staðsetningu og umhverfi hafa þýðingu fyrir það hvar heimilt er að tjalda. Samkvæmt breytingum sem lagðar eru til á 1. mgr. er gert ráð fyrir að við alfaraleið í byggð sé heimilt að tjalda til einnar nætur á óræktuðu landi, sbr. þó 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. þar sem eiganda eða rétthafa er heimilt að takmarka eða banna með merkingum dvöl eða umferð manna um afgirt óræktað land. Með byggð er átt við byggt svæði eða land, hvort sem er þéttbýlt eða strjálbýlt. Ef tjaldað er nálægt bústöðum eða bæjum manna eða ef um fleiri en þrjú tjöld er að ræða skal þó ætíð afla leyfis landeiganda eða annars rétthafa áður en slegið er upp tjöldum. Skv. 2. mgr. er heimilt að tjalda við alfaraleið í óbyggðum á eignarlandi eða þjóðlendu. Með óbyggðum er einkum átt við hálendi eða öræfi þar sem fólk býr ekki að jafnaði og ekki er að finna bústaði eða bæi manna. Skv. 3. mgr. er heimilt að tjalda utan alfaraleiðar á eignarlandi eða þjóðlendu nema annað sé tekið fram í sérreglum sem gilda um viðkomandi svæði. Takmarkast heimildin við göngutjöld. Með ferðum utan alfaraleiðar er átt við ferðir sem ekki þurfa að tengjast vegum eða stígum og leiðin getur legið um holt og móa. Göngutjald er létt tjald sem menn bera, draga eða reiða, t.d. í gönguferðum eða öðrum ferðum, og með sérreglum er átt við þær reglur sem kunna að gilda fyrir svæðið, t.d. um umgengni á því, og settar eru af bæru stjórnvaldi. Loka­málsgreinin hnykkir á því sem kemur fram í 17. gr., að akstur utan vega sé óheimill, auk þess sem orðuð er almenn leiðbeiningarregla um umgengni á tjaldstað.
     14.      Að mestu er um orðalagsbreytingar að ræða á 23. gr. Nefndin leggur þó til að bætt verði við að sömu reglur gildi um það þegar girða skal yfir forna þjóðleið og aðra stíga.
     15.      Lagðar eru til breytingar á 35. gr. Nefndin leggur til að sömu reglur gildi um hönnun allra mannvirkja án tillits til stærðar þeirra og að þess verði ávallt gætt að þau falli sem best að svipmóti lands.
     16.      Nefndin leggur til að notuð verði orðin „uppgræðsla lands“ í 36. gr. í stað orðsins „landgræðsla“. Í orðinu uppgræðsla felst merkingin beinar aðgerðir til ræktunar lands og með hliðsjón af heiti og efni greinarinnar er eðlilegra að það sé notað en það síðara sem getur hugsanlega einnig haft merkinguna að vera friðun lands fyrir beit án þess að þar fari fram ræktun.
     17.      Lögð er til sú breyting á d-lið 1. mgr. 37. gr. að hrúður og hrúðurbreiður bætist við þær landslagsgerðir sem njóti sérstakrar verndar. Á jarðhitasvæðum þar sem vatnshvera­virkni hefur verið mikil geta myndast breiður af kísli sem mynda áberandi fleti í lands­lagi, t.d. á Geysissvæðinu og Hveravöllum. Þetta er eitt af því sem skapar náttúru Íslands sérstöðu og því eðlilegt að það njóti sérstakrar verndar. Á 2. mgr. 37. gr. er um breytingar að ræða. Skv. 33. gr. skal leita umsagnar Náttúruverndar ríkisins og náttúru­verndarnefnda við gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana og verulegra breytinga á þeim og við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum. Umsögn þessara aðila liggur því þegar fyrir ef aðalskipulag hefur verið gert fyrir viðkomandi svæði þar sem þeir taka afstöðu til skipulags á viðkomandi svæði. Nefndin leggur þó til að leitað verði umsagnar þeirra ef aðalskipulag hefur verið samþykkt fyrir viðkomandi svæði fyrir gildistöku þessa frum­varps verði það að lögum.
     18.      Lagt er til að í 38. gr. verði kveðið á um að leita verði umsagnar auk þess sem tilkynnt verði til Náttúruverndar ríkisins um framkvæmdir þar sem hætta er á að spillt verði náttúruminjum á náttúruminjaskrá sem ekki eru friðaðar.
     19.      Ákvæðið sem nefndin leggur til að bætt verði við 39. gr. frumvarpsins er í núgildandi lögum en hefur fallið niður við vinnu nefndarinnar sem samdi frumvarpið. Orðalags­breytingin sem nefndin leggur til að verði gerð á fyrirsögn greinarinnar og samsvarandi breytingar á greininni er lagðar til af þeirri ástæðu að nefndin er sammála því viðhorfi sem hefur komið fram við meðferð málsins að skógur teljist til gróðurs og því sé eðlilegt að tala um hann í sömu merkingunni.
     20.      Breytingar sem nefndin leggur til að gerðar verði á 1. mgr. 41. gr. eru annars vegar til að hnykkja á því að sé kveðið á um þetta efni í öðrum lögum gangi þau ákvæði framar ákvæðum frumvarpsins. Hins vegar er gerð breyting sem er til samræmis við breytingu á skilgreiningu 3. gr. á ræktuðu landi þar sem land í skógrækt er fellt undir skil­greininguna. Nefndin telur rétt að umhverfisráðherra geti þrátt fyrir skilgreiningu 3. gr. kveðið á í reglugerð um um tegundir sem heimilt er að rækta hérlendis, þar með talið á skógræktarsvæðum.
     21.      Lagt er til að við 44. gr. bætist nýr málsliður þar sem kveðið er á um að ef talið er að um mannvistarleifar eða mannvirki sé að ræða sem hafi menningarsögulegt gildi skuli tilkynna það til Þjóðminjasafns Íslands eða aðila er starfar í umboði þess. Við þetta mat skal hafa hliðsjón af ákvæðum laga nr. 88/1989 um stjórn og skipulag þjóðminjavörslu þar sem er að finna ítarlegri reglur um slíkar minjar. Að öðru leyti er um orðalags­breytingar að ræða á greininni.
     22.      Lagðar eru til nokkrar breytingar á 47. gr. Breytingar á 1. mgr. eru í samræmi við lög nr. 73/1990 en samkvæmt ákvæðum þeirra er óheimilt að leita að efnum og taka eða nýta efni af eða úr hafsbotni án skriflegs leyfis iðnaðarráðherra. Nefndin leggur til að ráðherra verði gert að leita umsagnar Náttúruverndar ríkisins áður en slíkt leyfi er veitt. Breyting er lögð til á 2. mgr. til að tryggja að umsagnir Náttúruverndar ríkisins og nátt­úruverndarnefndar liggi fyrir áður en leyfi til efnistöku er veitt. Í 3. mgr. er lagt til að takmörkuð verði heimild til minni háttar efnistöku til eigin nota til að gæta samræmis við ákvæði 37. gr. þar sem ákveðnum landslagsgerðum er veitt sérstök vernd. Slíkum landslagsgerðum er óheimilt að raska með minni háttar efnistöku.
     23.      Lagt er til að í 48. gr. verði notað orðið „námuréttarhafi“ í stað „framkvæmdaraðili“. Ekki er sjálfgefið að um sama aðilann sé að ræða og nefndin telur eðlilegra að skyldur sem kveðið er á um í greininni séu lagðar á námuréttarhafa.
     24.      Lagðar eru til breytingar á 49. gr. þar sem fjallað er um endurnýtingu efsta hluta jarðvegs. Í mörgum tilvikum er slíkur jarðvegur ríkur af lífrænum efnum. Við undirbúning námuvinnslu er í mörgum tilvikum unnt að fletta jarðvegi og gróðri ofan af námusvæði og haugsetja sérstaklega. Að verki loknu er unnt að jafna þessu efni að nýju yfir sár námunnar og flýta með því gróðurmyndun að nýju.
     25.      Breyting sem lögð er til á d-lið 50. gr. er til samræmingar; ákvæðið varðar þær náttúruminjar sem fjallað er um í 54. gr.
     26.      Breytingar sem lagðar eru til á 2. mgr. 52. gr. eru orðalagsbreytingar. Í nýrri málsgrein er lagt til að lögfest verði að Náttúruvernd ríkisins geri tillögur um verndaráætlun og landnotkun innan þjóðgarða og skulu þær staðfestar af ráðherra. Þjóðgarðar og meðferð þeirra er í umsjón Náttúruverndar ríkisins og því eðlilegt að stofnunin geri tillögu um verndaráætlun þeirra.
     27.      Lagt er til að í 54. gr. verði orðið „náttúruminjar“ notað. Það er skilgreint í frumvarpinu og nefndin telur því eðlilegra að nota það. Að öðru leyti er um orðalagsbreytingar að ræða.
     28.      Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 57. gr.
     29.      Á 2. mgr. 60. gr. er um orðalagsbreytingar að ræða og breytingar sem lagðar eru til á 3. mgr. eru til nánari skýringar.
     30.      Í 62. gr. eru lagðar til orðalagsbreytingar. Kveðið verði á um að Náttúruvernd ríkisins veiti almennt upplýsingar um friðlýst svæði, þar með talið um friðlýsingu, en heimildir stofnunarinnar eru ekki tæmandi taldar.
     31.      Með breytingatillögum við 65. gr. leggur nefndin til að umhverfisráðherra skuli a.m.k. á fimm ára fresti láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir landið allt. Með þessu ákvæði yrði ráðherra veitt heimild til að láta vinna slíka áætlun oftar telji hann ástæðu til. Enn fremur er lagt til að náttúrustofur verði meðal þeirra sem sjá um undirbúning og öflun gagna við gerð áætlunarinnar. Þær eru meðal þeirra sem geta búið yfir nauðsynlegri þekkingu og því sjálfsagt að hafa samráð við þær.
     32.      Nefndin leggur til að gerðar verði breytingar á 2. mgr. 66. gr. hvað varðar tillit til hvers náttúruverndaráætlun taki. Lagt er til að hún taki til helstu tegunda búsvæða og vistkerfa hér á landi, svo og jarðmyndana en við gerð hennar verði m.a. tekið tillit til ósnortinna víðerna í stað þess að hún taki beinlínis til þeirra. Hugtakið hefur verið skilgreint af nefnd á vegum umhverfisráðherra, en hafa ber í huga að hugtakið ósnortin víðerni hefur ekki unnið sér fastan sess í umfjöllun um skipulag og landnotkun. Nefndin leggur því til að ekki verði að sinni kveðið afdráttarlaust á um að náttúruverndaráætlun taki til ósnort­inna víðerna.
     33.      Í 67. gr. er lagt til að heildstæð náttúruminjaskrá verði gefin út fimmta hvert ár og birt í Stjórnartíðindum en ráðherra geti hvenær sem er birt ákvarðanir um ný svæði sem tekin eru á skrána. Ákvarðanir um ný svæði sem færð eru á skrána verða birtar sér­staklega í Stjórnartíðindum, sbr. ákvæði 62. gr.
     34.      Á 1. mgr. 70. gr. er lögð til orðalagsbreyting til samræmis við aðrar greinar frumvarpsins. Auk þess er lagt til að fleiri aðilar geti haldið opnum ýmsum stígum og svæð­um til að greiða fyrir að almenningur fái notið náttúrunnar. Meðal helstu breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er að auka ábyrgð heimamanna á framkvæmd náttúru­verndarlaga. Því er ástæðulaust annað en að hvetja til þess að sveitarfélög séu meðal þeirra sem hafi frumkvæði að því að auka áhuga almennings á að stunda útivist.
     35.      Með breytingu á ákvæði til bráðabirgða I er lagt til að því verði seinkað til ársins 2002 að umhverfisráðherra leggi í fyrsta sinn fyrir Alþingi náttúruverndaráætlun skv. 65. gr. Nefndinni hefur verið bent á að áður þurfi að fara fram umfangsmikil gagnaöflun og því sé óraunhæft að ætla að ráðherra geti lagt áætlunina fyrir fyrr en árið 2002.
     36.      Lagt er til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að sveitarstjórnir skuli ljúka úttekt á ástandi skv. 44. gr. og skila skriflegri greinargerð þar að lútandi til Náttúruverndar ríkisins eigi síðar en árið 2002. Eðlilegt er að setja þessari úttekt tímamörk til að auðvelda Náttúruvernd ríkisins að meta ástandið í þessum efnum á ákveðnum tímapunkti og grípa hugsanlega til aðgerða telji hún að horfi til spjalla á náttúru.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 10. mars 1999.Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Árni M. Mathiesen.


Hjörleifur Guttormsson.


              

Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Magnús Árni Magnússon,


með fyrirvara.

Ísólfur Gylfi Pálmason.


Kristján Pálsson.


Tómas Ingi Olrich.