Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 11:49:02 (56)

1999-06-10 11:49:02# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[11:49]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Umrætt fyrirkomulag er ekki á fallanda fæti, það er ekki rétt. Víðast hvar í Evrópu er reyndar stefnt að stjórnsýslueiningum á borð við þessa. Það eru sveitarfélög eða ,,regions`` og þangað er valdið að færast. Íslendingar hafa hins vegar misskilið þetta. Þeir hafa sent menn út á ráðstefnur. Og þegar verið er að færa verkefni til sveitarfélaganna í löndunum í kringum okkur, þá er það til þessara ,,regions``. Þá er hlaupið upp til handa og fóta hér og verkefni færð til fámennra hreppa sem engan veginn ráða við þau. Það gerist þegar menn skilja ekki að inntakið getur verið mismunandi á milli landa.

Ég sagði við umræðuna á síðasta þingi og endurtók það hér áðan, að ég sæi ýmsa kosti við núverandi fyrirkomulag. Misvægi atkvæða hefur aldrei truflað mig, ég hef horft á myndina heildstætt, misvægi í aðstöðu einstaklinganna og byggðarlaganna. Á því vildi ég finna heildstæða lausn.

Ég sagði að gagnrýnin á núverandi fyrirkomulag, þótt ég hefði ekki tekið undir hana, væri á misvægi atkvæðanna. Ég var að reyna að leita leiða og vil leita leiða til að sætta þessi sjónarmið. Ég vil að við finnum leið til þess að draga úr misvægi og misrétti sem landsbyggðarfólk margt býr við gagnvart þéttbýlissvæðum. Á þessum forsendum er ég að ræða um að gera landið að einu kjördæmi þar sem allir þingmenn eru ábyrgir gagnvart öllu landinu, öllum einstaklingum í landinu og öllum byggðarlögum. Þá þyrfti það að gerast um leið að við kæmum upp nýju stjórnsýslustigi, sem að sjálfsögðu yrði að kjósa til á lýðræðislegan hátt. Ég er að leita leiða til að sætta sjónarmiðin á milli manna í þessum málum.