Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 12:32:24 (63)

1999-06-10 12:32:24# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[12:32]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú þetta með réttlætið. Hv. þm. spurði hvort þeir sem sættu sig við 1:2 væru þeirrar skoðunar að réttlætið væri relatíft. Sjálfur hafði hann skömmu áður verið að velta fyrir sér einmitt relatífu réttlæti. Hann taldi að kosningagólf á 5% væri ekki lýðræðislegt en 4%, helst 3%, væru lýðræðislegt, þó að 1,5% pössuðu við 63 þingmenn. Hann var því sjálfur kominn í relatíft réttlæti.

Síðan tók hann Kvennalistann til dæmis hvað þessa breytingu varðar. Það munaði hársbreidd að Kvennalistinn kæmist ekki inn 1995 með 4,9% atkvæða. Hann hefði ekki komist inn miðað við þetta 5% gólf sem við erum með núna. En það er ekki mikil breyting á réttlæti þar því að Kvennalistinn var við það að komast ekkert inn þrátt fyrir núverandi skipan. Og mætti nú nefna dæmi hans sjálfs.

Fræðimaður, virtur mjög, við háskólann, reiknaði hv. þm. út með 6--8% slag í slag og hvað eftir annað, þrátt fyrir núverandi kosningakerfi. Hins vegar mundi 5% reglan hafa tryggt þingmanninum að einhver á hans vegum kæmist inn. Réttlætið er með öðrum orðum dálítið relatíft stundum. Og ég sé svo sem ekkert að því, ef ekki fæst fullkomið réttlæti, að fá þá hlutfall af því og því hærra hlutfall því betra.