Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 14:20:01 (74)

1999-06-10 14:20:01# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[14:20]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. talaði um að þessi tillaga hefði verið rædd í lokuðum hópum, ef ég heyrði rétt. Það er nú þannig á hv. Alþingi og almennt í lýðræðislegum störfum að viðkomandi hópar eiga sér fulltrúa og þingflokkarnir áttu fulltrúa í þeirri nefnd sem mótaði þessar tillögur og gerðu sínum þingflokkum reglulega grein fyrir starfinu í nefndinni og höfðu umboð sinna þingflokka til þess að vinna áfram að málum þar til niðurstaða náðist. Ég vil því ekki taka undir það að málið hafi verið unnið í þröngum farvegi. Og ég átta mig ekki á hvað hv. þm. á við þegar hann telur að viðkomandi einstaklingar sem unnu þessar tillögur hefðu þurft að vera lausir undan flokksböndum. Ég veit ekki hvernig á að ná samstöðu um mál á hv. Alþingi ef örfáir þingmenn eiga að loka sig inni og reyna að ná einhverri niðurstöðu án þess að vera í nánu samstarfi og samvinnu við flokksbræður sína og félaga í viðkomandi þingflokki.

Ég vil segja að síðustu að ég tel að sú leið sem hér er fundin sé aðgerð til þess að koma í veg fyrir það að landið verði eitt kjördæmi á næstu áratugum.