1999-06-10 14:57:04# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[14:57]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að það er mjög ankannalegt að ræða þetta mál án þess að hæstv. sjútvrh. sé viðstaddur. Það er rétt sem hæstv. utanrrh. segir að þetta er á forræði hans og það er líka rétt sem hann segir að ráðherrar eiga oft erfitt með að ráða tíma sínum. Þeir þurfa að sinna ákveðnum störfum fyrir land og þjóð á erlendri grundu.

Þessi þáltill. er hins vegar þannig vaxin að hún snertir mjög verulega starfssvið sjútvrh. Ég vek t.d. athygli á því, herra forseti, að nauðsynlegt er að geta átt orðaskipti við hæstv. sjútvrh. um hluti sem varða t.d. lög frá 1996 um úthafsveiðar Íslendinga. Þetta mál tengist því beint. Ég bendi líka á það, herra forseti, án þess að ég ætli að fara í efnislega umræðu, að hluti af þessum samningum er heimild til Norðmanna til þess að veiða stofna sem við í þinginu þurfum að ganga úr skugga um með samræðu við hæstv. sjútvrh. hvort unnt sé að heimila veiðar á. Ég nefni sérstaklega stofn eins og blálöngu.

Við þurfum líka að ræða við hæstv. sjútvrh. hvernig hann hyggist umbuna línuskipum og þeim sem sinna krókaveiðum sem virðast bersýnilega, eins og þetta mál er vaxið, þurfa að greiða ákveðið gjald til þess að hægt sé að leyfa stórútgerðinni að veiða fjarri Íslandi í þessum umsamda kvóta. Þetta liggur ekki skýrt fyrir í þeirri greinargerð sem liggur hérna fyrir og þess vegna get ég ekki annað en farið fram á það, herra forseti, að umræðunni verði hagað þannig að sjútvrh. verði viðstaddur hana.

Ég bendi á ef það er ómögulegt að koma því við sökum dagskrár þessara tveggja hæstv. ráðherra þá væri unnt að fara þá leið að heimila hæstv. utanrrh. að hefja framsögu sína og ljúka henni. Síðan yrði umræðu frestað þangað til að sjútvrh. hæstv. væri kominn til landsins og við gætum þá rætt málið bæði með spurningum til hans og í ljósi þeirra upplýsinga og þeirra orða sem hæstv. utanrrh. flytur á eftir.