Byggðavandi og staða fiskverkafólks

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 14:22:56 (171)

1999-06-14 14:22:56# 124. lþ. 4.92 fundur 44#B byggðavandi og staða fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[14:22]

Árni Steinar Jóhannsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna umræðu um vanda fiskvinnslufólks og um leið vanda landsbyggðarinnar. Ég held að það liggi fyrir okkur í þinginu að skoða alvarlega stöðu mála varðandi landsbyggðina og þar með vandamál fiskvinnslufólks.

Það er einkennilegt að hlusta á það í þingsölum að alltaf er talað um hagræðingu í útgerðinni og menn virðast líta á það sem einhverja töfralausn að þar séu hagnaðartölur o.s.frv. Auðvitað þarf útgerðin að ganga vel en minna er talað um það að vegna kerfisins stendur fólk í heilu byggðarlögunum uppi með það að eignir þess eru verðfelldar kannski yfir nótt svo að nemur milljónum króna. Margir standa í þeim sporum að lífssparnaðurinn í formi hússins er farinn vegna sölu kvóta á milli staða. Þetta eru hlutir sem við verðum að horfast í augu við.

Ég beini orðum mínum til hæstv. sjútvrh. um lagfæringar á fiskveiðistjórnarkerfinu þar sem hagsmunir fólksins í byggðunum verða hafðir að leiðarljósi. Við getum litið til einhvers konar tengingar, byggðatengingar á kvóta. Við getum haft það að leiðarljósi að efla strandveiðar og koma þannig á móti. En eitt er víst að það verður ekki bara horft á hagræðingu fyrirtækjanna. Það er fólk sem býr í þessu landi, það er fólk sem á bæina og húsin og hagsmunir þess eru engu minna virði en hagsmunir fyrirtækjanna. Og það ber auðvitað að hafa hagsmuni fólksins að leiðarljósi.