Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:53:59 (198)

1999-06-14 15:53:59# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:53]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er enn á ungum aldri og ég verð að segja að miðað við það hvernig ræðum hans vindur fram er hann á mjög öru þroskaskeiði núna. Ef það er svo að hv. þm. gæti t.d. skrifað upp á þessa málamiðlun sem hann ímyndaði sér að kynni að verða á slíku starfi þá finnst mér að hann sé að þroskast mjög ört. Ég get nefnilega skrifað upp á slíka málamiðlun. Ég tel að þetta sé hin æskilega niðurstaða í þeim framkvæmdum sem tengjast einkavæðingu og einkaframkvæmdum. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að það sé í lagi að selja þann part ríkisrekstursins sem er í beinni samkeppni eða fara í beina samkeppni við rekstur á opnum markaði. Ég tel að ríkið eigi ekki að vera lengur í slíkum rekstri.

Ég er algerlega sammála hv. þm. að það eigi að verja það sem hann kallaði velferðarstofnanirnar. Ég bendi á þau dæmi sem við höfum úr nálægustu grannlöndum einmitt á sviði heilbrigðis- og öldrunarstofnana þar sem er sannarlega víti til varnaðar.

Ég viðurkenni hins vegar fúslega að málið er flóknara en svo að það sé hægt að koma hérna og leysa það á tveimur mínútum. Við erum t.d. að velta því fyrir okkur að fara að einkavæða, a.m.k. er verið að velta því fyrir sér í þjóðfélaginu að selja hluti sem tengjast raforkuframleiðslu og raforkudreifingu, í fyrstu lotu alla vega að gera það að hlutafélögum. Þá koma menn að spurningunni um byggðastefnu og ég verð líka að segja að þá er málið orðið flóknara vegna þess að ekki er hægt að ætla sér að leysa þau vandræði sem tengjast samspili einkavæðingar á því sviði og farsællar byggðastefnu einvörðungu á vettvangi markaðarins. Það er ekki hægt. Þess vegna kann það vel að vera að það sé nauðsynlegt að áður en menn ráðast í slíka hluti þá reyni þeir að setjast niður, leggja höfuðið í bleyti og finna einhverja farsæla lausn. Ég ímynda mér að lítill vilji sé til þess hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég segi það fyrir mína parta að mér finnst slík umræða heillandi og spennandi og það gleður mig að heyra að það sé vilji til þess að taka í fullri alvöru þátt í henni frá þeim hluta hins pólitíska litrófs þar sem ég taldi að menn væru frekar lokaðir fyrir slíku.