Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:58:47 (200)

1999-06-14 15:58:47# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:58]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur að mörgu leyti verið mjög góð og ég vil þakka fyrir hana og mér finnst hún hafa sýnt hve nauðsynlegt er að skiptast á skoðunum og upplýsingum um þessi efni.

Menn spyrja stundum þegar litið er yfir farinn veg hvernig sitthvað gat gerst þegar illa fór. Þannig spyrja margir í Bretlandi núna varðandi einkavæðingu á vatnsveitum og skolplögnum og öðru af því tagi. Menn spyrja líka þessarar spurningar í Bandaríkjunum, háborg kapítalismans. Þar láta menn ekki sitja við það eitt að spyrja spurninga heldur breyta þeir líka í samræmi við svörin.

Fyrir nokkrum mánuðum birtist grein í breska stórblaðinu Observer. Ég ætla að byrja á því að lesa þetta á ensku, þetta eru örfáar setningar og ég sný þeim jafnóðum yfir á íslensku, með leyfi forseta:

[16:00]

,,Last month, the State of New York de-privatised the Long Island electricity system, borrowing 8 billion dollars, the largest public financing in US history, to buy out shareholders. This follows on the heels of several government takeovers of stockholder water companies. State-owned water authorities now serve 78% of all US households and are heading toward total control of the market.``

Með öðrum orðum, þarna kaupir ríkið hlutabréf að verðmæti 8 milljarða dollara í raforkugeiranum. Þetta eru umfangsmestu kaup til þess að koma þessum geira undir almannastjórn.

En síðan er spurt: Hverjir eru það sem framkvæma? Og svarið er:

,,Right-wing Republicans led the multi-billion dollar de-privatization of New York's water and electric systems, a buy-out demanded by manufacturers fed up with poor service and high prices charged by stockholder utilities. On the first day of the government takeover, electricity bills dropped 19.1%.``

Með öðrum orðum segir að fyrirtækin, forsvarsmenn þeirra og almennir notendur hafi gert þessa kröfu til stjórnvalda. Þau stjórnvöld voru hægri sinnaðir repúblikanar. Við þessi eigendaskipti hrapaði verðið um 19,1%. Þetta eru staðreyndir málsins. Síðan velta menn vöngum yfir því í þessari grein hvort þetta sé vísbending um það sem koma skal í þessum málum.

Ég sótti fyrr á þessu ári ráðstefnu sem haldin var á vegum veitustofnana hjá ríki og sveitarfélögum, sem haldin var hér í Reykjavík. Þar voru menn að tala um reynsluna af einkavæðingu, m.a. í Bretlandi og talsmenn Reykjavíkurborgar og talsmenn ríkis töldu að mjög vel hefði tekist til og nú yrði að halda áfram á sömu braut. Sannast sagna ætlaði ég ekki að trúa mínum eigin augum og eyrum þegar ég hlustaði á þetta. Ég velti því fyrir mér hvort verið gæti að þeir sem ráða för kynni sér ekki málavöxtu, kynni sér ekki staðreyndirnar. Eru þeir svo háðir tískusveiflum að þeir þori ekki að mynda sér sjálfstæða skoðun ef sú skoðun er í miklum minni hluta. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að sá sem hér talar hefur verið í minni hluta í þessum málum. Hins vegar get ég upplýst að ég hef gengið mjög langt í því að reyna að afla mér upplýsinga um skipulagsbreytingar á sviði almannaþjónustunnar og reynsluna af þeim.

Það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að sú grundvallarbreyting sem menn eru að leggja til núna er á þá leið að stjórnmálamenn setji sér takmark, ákvarði markmið og kostnað við almannaþjónustuna en valddreifi og jafnvel einkavæði síðan framkvæmdina. Þetta er hugsunin sem býr að baki. Sannast sagna hljómar þetta ágætlega. Það hljómar vel að stjórnmálamenn skilgreini hvaða þörfum eigi að fullnægja og hve miklum fjármunum eigi að verja til þess en síðan sé framkvæmdinni valddreift og hún jafnvel einkavædd.

Reyndin er hins vegar sú að þar sem þetta hefur verið gert innan almannaþjónustunnar hefur reynslan verið mjög slæm. Sem dæmi má nefna skóla á Nýja-Sjálandi og heilbrigðisstofnanir þar. Þær fengu tiltekna fjárveitingu og vald til að ráðstafa fjármunum. Áður höfðu verið gerðar svipaðar breytingar og við höfum verið að gera hér hjá ríkisstofnunum, að færa vald yfir kjarasamningum til forstöðumanna stofnananna og gera stofnanirnar sjálfráðar um ráðstöfun fjármuna.

Þegar þessi hugmyndafræði var fyrst sett fram af hálfu OECD kom það alltaf skýrt fram, í öllum skýrslum sem fylgdu þessum plöggum, að tilgangurinn væri sá að ná niður launakostnaði og opinberum útgjöldum. Þetta gengur þannig fyrir sig að stéttirnar sem starfa innan vébanda skólans eða sjúkrahússins og gættu þess áður fyrir hönd notandans að vel væri að verki staðið fóru að hugsa á annan veg. Þær hættu að krefjast þess að skólanum yrði haldið við reglulega og fóru að spyrja annarra spurninga, hvort ekki væri hægt að fækka í starfsliði, fjölga í bekkjardeildum og síðast en ekki síst innleiða notendagjöld, skólagjöld eða sjúklingaskatta. Það var einfaldlega búið að tengja markmið fjárveitingavaldsins um niðurskurð niður í þeirra eigin vasa. Þegar upp er staðið stóð deilan um það innan stofnunarinnar hvernig ráðstafa ætti peningunum, hvert ætti að beina þeim. Hvort áttu þeir að fara í þeirra eigin vasa eða til að bæta þjónustuna?

Þá vaknar þessi spurning: Hvernig á að gæta hagsmuna notandans, nemandans eða sjúklingsins? Á að setja á fót eftirlitsstofnanir til að rækja það hlutverk? Hver á þá að framkvæma það? Er það sveitarfélagið eða ríkið sem hefur hagsmuni af því að halda kostnaðinum sem mest niðri? Hver á að sinna þessu hlutverki? Þessum spurningum er ósvarað. Að mínum dómi er aðeins ein leið til. Það er samkeppni, að virkja þarna markaðslögmálin. Þá þurfa menn að velta því fyrir sér hvort þeir séu tilbúnir að taka afleiðingum þess. Það mun þá hafa það í för með sér að markaðslögmálin á sviði velferðarþjónustunnar verða virkjuð. Vilja menn það? Hvernig ætla menn að leysa þennan vanda varðandi eftirlitið fyrir hönd notandans? Ég fæ ekki séð hvernig á að sinna því hlutverki.

Hæstv. forseti. Mér finnst þessar umræður hafa verið góðar. Ég sakna þess að þær skuli ekki hafa verið breiðari og fleiri tekið þátt í þeim á liðnum árum. Þetta eru þær breytingar sem verið er að gera ekki bara í okkar þjóðfélagi heldur í samfélögum víðast hvar í heiminum, án þess að nægileg umræða hafi farið fram. Það má vel vera að menn séu örlítið að vakna til vitundar um mikilvægi þessarar umræðu en þó er það því miður fyrst og fremst í röðum stjórnarandstöðunnar.

Það sem hefur án efa truflað þetta mál er að meginfylkingar stjórnmálanna í Evrópu og í heiminum almennt hafa fært sig nær hvor annarri hvað þetta snertir. Það er t.d. athyglisvert að Verkamannaflokkur Tonys Blair í Bretlandi hefur farið inn á braut einkaframkvæmdar í almannaþjónustunni, í velferðarþjónustunni, í sjúkrahúsunum og í skólunum, ekki síður en ríkisstjórn Margrétar Thatcher. Þegar fyrirmyndirnar setja línuna, segja hver nýjasta tískan sé, þá þorir fólk ekki að andæfa. Mest af öllu óttast það að hafna í fámennum minni hluta. Þá er náttúrlega um að gera að fordæma alla sem halda sig þar. Það eina sem ég er að óska eftir og við erum að leggja til, er að stjórnmálamenn komi fram, ræði þessi mál opið og reyni að tefla fram öllum þeim upplýsingum sem til eru. Það eru til miklar upplýsingar um þetta og við erum að kalla eftir því að það verði gert skipulega.