Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 17:39:56 (233)

1999-06-14 17:39:56# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[17:39]

Árni Steinar Jóhannsson:

Hæstv. forseti. Mér finnst sorglegt að upplifa framsetningu hæstv. umhvrh. á þeirri beiðni að endurskoða málefni Fljótsdalsvirkjunar og hálendisins. Það er hægt að endurskoða alla hluti og verið er að rétta fram að sínu leyti sáttarhönd og fara í umhverfismat framkvæmda.

Það svífur einhvern veginn yfir vötnunum hér að það er eins og menn haldi að umhverfismat framkvæmda beinist gegn framkvæmdum. En það er aldeilis ekki svo. Nágrannar okkar eru komnir langt á undan okkur, eins og í svo mörgu öðru, með umhverfismat á framkvæmdum og í mjög mörgum tilvikum hefur umhverfismat framkvæmda leitt til þess hreinlega að farnar hafa verið aðrar leiðir. Fundnar hafa verið nýjar, betri og ódýrari leiðir til að ná sömu markmiðum og menn voru að stefna að.

Ég nefni bara sem dæmi Årland í Noregi þar sem ég kom eitt sinn. Þar er búið að virkja mikið og voru í kjölfarið á mati á umhverfisáhrifum valdar leiðir til að virkja sem voru miklu vistvænni og gáfu ofan í kaupið miklu meira afl. Umhverfismat framkvæmda er því ekki andstætt framkvæmdum, eins og menn halda. Það er svo oft sem fólk virðist halda að sú vinna byggi á því að vera á móti öllum framkvæmdum, vera á móti virkjunum. Við erum mjög stutt komin en þó vel áleiðis í umhverfismati framkvæmda víða um landið, hjá sveitarfélögum, hjá Vegagerðinni o.s.frv. Og ég fullyrði að umhverfismat framkvæmda, þar sem það er gert, leiðir yfirleitt til miklu betri lausna.

Af hverju eigum við að fara alla leið aftur til 1983? Það er verið að biðja um, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefnir, að menn endurskoði hlutina, menn skoði sinn gang. Og það er allt annað upp á teningnum árið 1999 en 1983 (Gripið fram í.) 1981 fyrst, já.

Þess vegna styð ég auðvitað heils hugar þá tillögu sem hér er fram komin og það eru margir, heyrist mér, sem styðja hana. Auðvitað eigum við að viðhafa slík vinnubrögð. Við eigum að nota þetta tækifæri núna til þess að brjóta í blað og gera hlutina eins vel og hægt er og taka síðan ákvörðun um það hverju við viljum fórna eða hvort við viljum yfir höfuð virkja. Þannig snúa málin við mér og frá mínum bæjardyrum séð.

Það er ekki neinn skaði skeður að fara í umhverfismat framkvæmda. Okkur liggur ekki það mikið á í neinum framkvæmdamálum að við höfum efni á því að gera stórkostleg mistök, ef menn eru sannfærðir um að það geti verið uppi á borðinu. Og þess vegna eigum við að samþykkja þessa tillögu og brjóta í blað.

Ég tek enn og aftur undir með hv. þm. Reykvíkinga, Össuri Skarphéðinssyni, að hér er tækifærið fyrir nýjan og ferskan umhvrh. að koma að málum á annan hátt en gerst hefur undanfarið.

Við erum mjög veik fyrir öllum framkvæmdum, það er eins og það liggi í Íslendingseðlinu. Og það er mjög andstætt hugsun okkar að menn þvælist fyrir, hvað þá svona grænt lið, eins og maður heyrir oft. Þetta heyrist jafnvel heima í sveitarfélögum að ómögulegt sé að þessir ,,grænu menn``, umhverfismenn, komi að málum því að þeir geri í raun og veru ekkert annað en að tefja mál.

En þetta er ekki sá tíðarandi sem við búum við í dag. Hinir grænu, vísindamennirnir okkar, náttúruvísindamenn, hafa sannað að þeir koma að málum með öðrum hætti og þeir vinna með verkfræðingum og framkvæmdaaðilum út frá allt öðrum forsendum, sem gerir það að verkum að við hvaða framkvæmd sem við tölum um fáum við betri lausnir. Það eru allir sammála um hvar sem farið er í heiminum, og sumir eru auðvitað komnir miklu lengra í þessari hugsun en við.

Við eigum að nota tækifærið núna, samþykkja þessa tillögu og fara í umhverfismat framkvæmda og styrkja þá hugsun að öll verkefni sem hugur okkar stendur til að fara í fái nákvæma og skýra umfjöllun út frá náttúruverndarsjónarmiðum þegar þau eru í undirbúningsfasa.

Ég hvet hæstv. umhvrh. að brjóta í blað og ljá þessari tillögu atkvæði sitt.