Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 11:12:33 (250)

1999-06-15 11:12:33# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[11:12]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef ekki tekið þátt í undirbúningi þess lagafrv. sem hér er til umræðu. Ég hef aðeins kynnst því, annars vegar eins og það var kynnt á sl. vetri og vori og svo núna í umræðunum.

Ég verð að segja að af því sem ég hef getað sett mig inn í, þá er ég andvígur frv. í veigamiklum atriðum og tel að þau séu ekki til bóta hvað mörg atriði varðar til breytinga á stjórnarskrá Íslands.

Í mínum huga á einingin ,,kjördæmi`` að eiga sér bæði félagslegar og landfræðilegar forsendur þar sem fólk innbyrðis á meira sameiginlegt en með íbúum annarra hluta landsins. Fækkun kjördæmanna og kjördæmaskipanin sem gert er ráð fyrir að fylgi í kjölfar þessarar lagasetningar er ekki í þeim anda.

Þá vil ég líka draga hér fram að umræðan um fækkun þingmanna á landsbyggðinni og stækkun kjördæmanna þar og niðurbrot þeirra félagslegu eininga sem kjördæmin hafa verið og byggð upp sem slík, er ekki til þess að styrkja landsbyggðina og er ekki til þess að auka trúnað milli landsbyggðarinnar og þéttbýlisins á suðvesturhorninu.

Ég tel reyndar að mörg af þeim rökum sem hér hafa verið dregin fram og eru að baki þessu tilheyri nokkrum áratugum, enda virðast menn gjarnan vitna í það sem þeir sögðu fyrir mörgum árum. Mér finnst að það sé tími til kominn að við lítum á þetta mál frá sjónarhóli nýrrar aldar en ekki frá árunum milli 1950--60.

Það er vissulega spor í lýðræðisátt að flokkur eða framboð sem fær ákveðinn hundraðshluta atkvæða fái kjörna þingmenn þó að enginn þeirra sé kjördæmakosinn. En þau mörk sem gerð er tillaga um, 5% atkvæða á landsvísu til að eiga þar rétt á þingmanni, finnst mér allt of há. Þau eru reyndar í ósamræmi við meginmarkmið þessara laga, þ.e. jöfnuð á milli þjóðfélagsþegnanna til að eiga fulltrúa á hinu háa Alþingi.

[11:15]

Frumvarpið leggur ríka áherslu á þennan rétt og þar hefðu þessi mörk --- ef frv. ætti að vera sjálfu sér samkvæmt og ekki aðeins ganga erinda flokkanna heldur einstaklinganna í þjóðfélaginu --- átt að vera miklu lægri og miklu nær því sem er að baki hvers þingmanns sem kosinn er.

Þessi tillaga, eins og hér hefur komið fram, gerir t.d. ráð fyrir því að þó að framboð fái 10 þúsund atkvæði, miðað núverandi fjölda kjósenda, mundi það ekki duga til fá mann kjörinn á þing. Þegar við erum að þræta um 100--300 manns á milli kjördæma virkar þetta ekki sannfærandi.

Hér hefði vissulega gefist tækifæri fyrir okkur til að stilla okkur í fremstu röð annarra lýðræðisþjóða og gefa hverjum stjórnmálahóp og hverjum atkvæðisbærum manni jafnan rétt.

Frumvarpið felur líka í sér skerðingarákvæði frá því sem nú er þannig að framboð sem fær kjördæmakosinn þingmann þarf jafnframt að fá 5% atkvæða til að eiga rétt á jöfnunarsæti. Þetta finnst mér rangt. Þetta er lýðræðisleg afturför sem ég get ekki stutt.

Ég vil vekja athygli á að í umræðunni um síðustu alþingiskosningar var ekki kosið um þessar breytingar. Það var ekki kosið um þessar breytingar á stjórnskipan landsins þó að vissulega væri vitað um hvað stæði til. Að mínu viti er í þeim tillögum sem fyrir liggja í allt of mörgu ábótavant og margt þar sem alls ekki samræmist nútímalýðræðisvitund fólksins í landinu. Ég tel því að semja ætti nýtt frv. um málið og gefa þá jafnvel raunverulega valkosti, gefa þjóðinni kost á lýðræðislegu vali því vissulega eru þar margar leiðir til. Þessi sem hér er lögð fram er bara ein þeirra.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta frv. og sjónarmið þess tilheyri að mörgu leyti fortíðinni. Ég tel að sú kjördæmaskipan sem væntanlega mun fylgja í kjölfarið muni leiða til aukinnar tortryggni á milli dreifbýlis og þéttbýlis.