Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 11:46:24 (254)

1999-06-15 11:46:24# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[11:46]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil eins og hæstv. forsrh. óska hv. 3. þm. Norðurl. v., ágætum flokksbróður, til hamingju með jómfrúrræðu sína en þó eru nokkrar athugasemdir. Ég vil í fyrsta lagi taka undir með honum þar sem hann lýsir yfir vonbrigðum sínum með að ekki skuli hafa tekist í þessu nefndarstarfi og undirbúningi að ganga hraðar og betur fram hvað persónukjörið varðar. Þetta var eitt þeirra atriða sem var rætt mjög í nefndinni sem lagði drög að því frv. sem við erum að afgreiða. En lengra varð ekki komist. Að vísu voru tekin hænufet í þessa veruna, raunar í þá veru að útstrikanir og endurröðun á röðuðum listum hefðu meira vægi í væntanlegu fyrirkomulagi en nú er. Ég deili með honum vonbrigðum vegna þess, en þetta er eitt af þeim atriðum sem ekki tókst að komast lengra með.

Kjarni málsins er hins vegar sá sem fram kom í ræðu hv. þm. og lýtur að stærð kjördæma. Mér finnst margir þingmenn gera allt of lítið úr því sem áunnist hefur í þessu. Í fyrsta lagi er kjarni málsins sá að allir eru sammála um að draga þurfi úr misvæginu. Ég heyri engan í þessum sal mótmæla því að það misvægi er komið úr hömlu og að þar þurfi að draga úr. Menn hafa ekki farið alla leið. Menn hafa nálgast viðfangsefnið þannig að það sé eitt atkvæði á móti tveimur og menn geta deilt lengi um hvað sé viðunandi í þeim efnum. Í þessu fyrirkomulagi er það hins vegar niðurnjörvað. Og ég segi varðandi þessa ógnarstærð kjördæma sem menn hafa áhyggjur af að hugsunin er sú að kjördæmin búi við 10--11 þingmenn hvert um sig. Menn horfa til þess að þingmenn flokka sem þar verða kjörnir geti þá skipt með sér verkum að vissu marki eins og raunar er þekkt í þeim kjördæmum sem við búum við í dag. Ég vil enn og aftur árétta hvaða gagnrýni var háværust í þingsölum árið 1959 þegar við tókum upp núgildandi kerfi. Hún var að kjördæmin yrðu allt of stór fyrir þá þingmenn sem yrðu að sinna þeim.