Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 11:48:49 (255)

1999-06-15 11:48:49# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[11:48]

Katrín Fjeldsted:

Hæstv. forseti. Með frv. sem hér liggur fyrir er stigið skref í rétta átt til að jafna atkvæðisrétt á Íslandi. Eins og komið hefur fram fyrr í dag hefur misvægi atkvæða verið umræðuefni á Alþingi í áratugi en misvægið hefur aðallega bitnað á íbúum þéttbýlisins á Suðvesturlandi og ekki er hægt að fallast á að slíkt standi lengur óbreytt. Það er sannkallað óbermi eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson nefndi það hér áðan.

En misvægi atkvæða hefur heldur ekki stuðlað að jafnvægi í byggð landsins eins og ýmsum sýnist. Ég tel að bættar samgöngur og menntamál séu miklu líklegri til þess. Sagan hefur a.m.k. sýnt að núverandi misvægi atkvæða hefur ekki stuðlað að því að menn haldist í hinum dreifðu byggðum landsins.

Ég tel mjög skynsamlegt að stíga það skref að hægt sé að breyta kjördæmamörkum án þess að hrófla við stjórnarskránni. Það hefur verið bent á að með breytingunni nú verði kjördæmin afar stór og það má satt vera að þau eru landfræðilega stór. En þau eru þó vægast sagt afar fámenn alls staðar á landinu ef það er metið á heimsins hátt.

Ég er hlynnt því að í þessu landi hafi hver maður eitt atkvæði og að þau séu jöfn. Ég er þó ekki á sama máli og ýmsir þeir sem talað hafa á undan mér sem gera vilja landið að einu kjördæmi. Mér þætti nær að draga úr áhrifum flokka og flokksræðis og auka þess í stað ábyrgð þingmanna gagnvart kjósendum sínum með einmenningskjördæmaskipan. Báðar þessar leiðir hafa þó sína kosti og sína galla. Það er önnur saga og ekki til umræðu hér.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði snemma í umræðunni. Hann er fulltrúi fyrir þó nokkurn fjölda Reykvíkinga en hann er andvígur því að jafna atkvæðisréttinn eins og hér er lagt til. Hann verður að eiga það við kjósendur sína. En fráleit þóttu mér þau ummæli þingmannsins að fáir fulltrúar fátækra og öryrkja sitji á þingi fyrir hönd flokks hv. þm. Péturs Blöndals. Ég vil benda þingmanninum á að þingmenn Sjálfstfl., allir 26 að tölu, eru fulltrúar þeirra á Alþingi og að margfalt fleiri fátækir og öryrkjar styðja sjálfstæðisstefnuna en flokk Ögmundar Jónassonar.