Rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 13:52:08 (276)

1999-06-15 13:52:08# 124. lþ. 5.92 fundur 55#B rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[13:52]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Um mjög langan aldur hefur tíðkast að breyttar forsendur fjárlaga hafa alltaf verið teknar inn í aukafjárlög. Engin ástæða er til að ætla annað en að á næsta hausti verði það sama gert, breyttar forsendur eru náttúrlega fyrst og fremst laun og verðlagsbreytingar. Engin ástæða er til að ætla annað.

Fullyrðingar sem hér hafa komið fram um að Íslendingar eyði minna af opinberu fé til heilbrigðismála en aðrar þjóðir eða séu rétt í meðaltali eru rangar. Samkvæmt tölum frá OECD 1997 var Ísland í öðru sæti Norðurlandaþjóðanna, eyddi 6,5% af vergri þjóðarframleiðslu. Norðmenn einir voru hærri með 6,6%. Bandaríkjamenn voru hæstir 1997 með 6,7% vergrar þjóðarframleiðslu.

Samkvæmt þjóðhagsútreikningum fyrir árið 1998 námu opinber útgjöld til heilbrigðismála á síðasta ári 6,92%, þ.e. hækkuðu um 0,42% milli ára. Þetta er gríðarleg hækkun. OECD-tölurnar liggja ekki fyrir en flest bendir til þess að Ísland sé með mestu eyðslu allra OECD-þjóðanna í opinber framlög til heilbrigðismála. Við verðum að átta okkur á því að á síðustu átta árum hafa framlög til heilbrigðismála vaxið um 11% á föstu verðlagi. Ef við tökum tillit til fólksfjölgunar hafa framlög til heilbrigðismála á föstu verðlagi aukist á milli 3,5 og 4% á mann sem þýðir 0,5% hækkun á mann á hverju ári. Ég fullyrði að ekki nokkurs staðar finnst sambærileg hækkun hjá nokkru öðru ríki OECD. Það er ekkert upp á löggjafarvaldið að klaga varðandi þessa peninga. Hér leggjum við mest til af öllum. Ef það eru vandamál þá eru það skipulagsmál og stjórnunarmál.