Afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 10:40:28 (341)

1999-06-16 10:40:28# 124. lþ. 7.93 fundur 68#B afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), KPál
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[10:40]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Í hv. umhvn. var þetta mál tekið til umfjöllunar eins og komið hefur fram. Það liggur ljóst fyrir að þetta mál, umhverfismat á Fljótsdalsvirkjun, hefur verið til umræðu síðustu tvö árin í nefndinni. Við vitum jafnframt að með lögum um umhverfismat var það tekið sérstaklega fram í bókun að Fljótsdalsvirkjun ætti ekki að fara í umhverfismat.

Með lögum frá 1981 var jafnframt tekið fram að þessi virkjun mætti fara af stað þá þegar. Það hefur því margt gerst í þessu máli sem hefur komið í veg fyrir að menn næðu saman um að breyta einhverju sem varðar Fljótsdalsvirkjun sérstaklega. Ég er þá sérstaklega að tala um Eyjabakkasvæðið sem allir eru sammála um að sé náttúruperla sem hefði gjarnan þurft að koma til frekari skoðunar en orðið hefur.

Ég fullyrði að stjórnarliðar eru sammála um að reyna að skoða allar leiðir sem hægt væri að fara ef einhver er til til að ná sátt um þessa virkjun og verndun á Eyjabakkasvæðinu ef hún finnst. Ég hef a.m.k. lýst því yfir, bæði opinberlega og í nefndinni, að það væri vilji minn. Ég held að full rök séu fyrir því eins og komið hefur fram frá hv. formanni nefndarinnar að full ástæða sé fyrir þessa nýju nefnd að skoða þetta mál frekar og því ekki beinlínis ástæða til að vera að fara út í atkvæðagreiðslur um það. Allir eru sammála um að það eigi að skoða þetta og þegar hefur verið skipulögð ferð á vegum nefndarinnar á virkjunarsvæðin og reyndar í friðlönd almennt þannig að nefndin er í fullri vinnu við að reyna að átta sig á þessum hlutum. Ég held því að formaðurinn fari rétt að í því efni að gefa nefndinni tækifæri og okkur öllum til þess að skoða þetta mál enn frekar en gert hefur verið.