Athugasemdir Samkeppnisstofnunar um samkeppni á fjarskiptamarkaði

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:30:39 (366)

1999-06-16 11:30:39# 124. lþ. 8.92 fundur 70#B Athugasemdir Samkeppnisstofnunar um samkeppni á fjarskiptamarkaði# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[11:30]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Nokkurt uppþot hefur orðið vegna þeirra tilmæla sem Samkeppnisstofnun hefur beint til mín sem samgrh. vegna Landssíma Íslands. Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að tryggja frjáls og eðlileg viðskipti. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið opnaðist ný veröld viðskipta og með einkavæðingu ríkisfyrirtækja hafa spjótin beinst að fyrirtækjum eins og Landssímanum.

Tilmæli Samkeppnisstofnunar hafa vakið umræðu og hörð viðbrögð og það er mitt mat að Samkeppnisstofnun hafi gengið mörgum fetum framar en efni standa til. Vil ég skýra það nánar og svara fyrirspurnum málshefjanda. Ég vil draga fram það sem ég tel að séu aðalatriðin í þessu máli.

Kjarnanum í áliti samkeppnisráðs má skipta í tvennt. Annars vegar að með vanmati á eignum Landssíma Íslands hf. hafi ríkið gefið Pósti og síma hf. 11,5 milljarða kr. Hins vegar er um að ræða tilmæli um að eigandinn sjái til þess að fyrirtækið haldi að sér höndum með aðgerðir sem skaðað geti samkeppni. Hér er væntanlega átt við fyrirmæli um að Landssíminn lækki ekki verð á þjónustu sinni.

Almennt má segja um álitið að víða er að finna ályktanir sem ráðið virðist draga á grundvelli gefinna forsendna og án efnislegs rökstuðnings. Sem dæmi má nefna að ráðið framkvæmir enga sjálfstæða úttekt á eignum Pósts og síma þrátt fyrir að komast að þeirri niðurstöðu að mat matsnefndar hafi ekki verið rétt. Samkeppnisráð telur að beita hefði átt þeirri aðferð við matið að núvirða tekjuflæði en framkvæmir ekki þennan útreikning sjálft.

Samkeppnisráð gefur sér sem forsendur að Póstur og sími hafi notið ríkisaðstoðar sem hafi falist í vanmati á eignum. Það telur að viðskiptavild sé ekki metin og skuldir vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins séu felldar niður að hluta.

Á þessu stigi vil ég ekki kveða upp úr með það hvort mat eignanna sé rétt, um það er deilt. Aðstæður hafa breyst og því nauðsynlegt að endurmeta stöðu mála. Það eru liðin þrjú ár frá því að matið var framkvæmt. Deilur um matið má segja að séu fræðilegar að hluta og hafi takmarkað gildi nema auðvitað til að skoða rækilega þegar kemur að því að verðleggja hlutabréfin þegar þau verða sett á sölu.

Öll umfjöllun samkeppnisráðs um ríkisaðstoð miðar við reglur EES-samningsins um bann við ríkisaðstoð. Rétt er að vekja athygli á því að það er ekki í verkahring Samkeppnisstofnunar að fjalla um þessa reglu heldur er það Eftirlitsstofnun EFTA sem þar á um að fjalla. Í samkeppnislögum er ekki að finna sambærileg ákvæði og í 65. gr. EES-samningsins um bann við ríkisaðstoð. Það orkar þess vegna tvímælis að ráðið skuli fjalla um þetta.

Einnig er rétt að taka fram að ekki verður séð af áliti Samkeppnisstofnunar að hún hafi gert Landssímanum og samgrn. grein fyrir því að athugun stofnunarinnar fjallaði um ólögmæta ríkisaðstoð. Hafa þessir aðilar því ekki fengið tækifæri til þess að tjá sig um þessi atriði fyrir samkeppnisráði, um túlkun Samkeppnisstofnunar á reglum um ríkisaðstoð og heimild samkeppnisyfirvalda til þess að fjalla um þær. Slík málsmeðferð er ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar. Auk þess tel ég mjög langt seilst að tala um ríkisaðstoð. Ég sé ekki hvers vegna Samkeppnisstofnun ætti að hafa frumkvæði og forustu í þeirri ströngu túlkun.

Samkeppnisstofnun gerir mikið úr vanmati á eignum Pósts og síma. Hlutabréf Landssímans hafa hvorki verið verðlögð né seld og því er enginn skaði skeður, nema ef vera skyldi að Landssíminn sé of verðmætur. Það er út fyrir sig fagnaðarefni ef hann er meira virði í dag en hann var fyrir þremur árum. Auðvitað verður tekið tillit til þess þegar hlutabréfin verða metin og afstaða tekin til þess hvort þau eigi að selja.

Samkeppnisráð framkvæmir ekki eigið mat, eins og ég sagði áðan, á eignum sem færðar voru á stofn efnahagsreiknings Pósts og síma, fullyrðir einungis að matið hafi verið of lágt. Engar tölulegar útlistanir er að finna á niðurstöðum ráðsins. Ráðið horfir auk þess alfarið fram hjá þeirri staðreynd að lögin um Póst og síma kváðu á um að hlutaféð skyldi vera 75% af bókfærðu eigin fé Pósts og síma. Það er ástæða til að vekja athygli á því að um þetta var ekki fjallað nema á jákvæðum nótum þegar frumvarpið var til umfjöllunar hér í þinginu og m.a. af hv. málshefjanda hér í dag.

Samkeppnisráð horfir algjörlega fram hjá þeim skyldum sem hvíla samkvæmt lögum á fjarskiptafyrirtækjum, t.d. um valþjónustu, skyldu til að veita aðgang að grunnnetinu og hvaða áhrif það hefur á stöðu Pósts og síma við breytinguna. Samkeppnisráð telur að viðskiptavild hafi ekki verið metin. Það er sérstaklega tekið fram á bls. 12, svo að fólk geti nú lesið það, að matsnefndin getur þess sérstaklega að viðskiptavildin hafi verið metin. Þess vegna gætir það furðu að þetta skuli koma fram í áliti Samkeppnisstofnunar.

Samkeppnisráð gerir athugasemdir við það sem nefnt er ,,niðurfelling skulda við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins``. Við stofnun hlutafélagsins þurfti að taka afstöðu til þeirra skuldbindinga sem hvíldu á Pósti og síma og Símamálastofnun vegna starfsmanna. Telja verður verulegan vafa á því hvort það sé ríkisaðstoð að losa fyrirtæki í ríkiseign undan hluta lífeyrisskuldbindinga, sem eru umfram skuldbindingar sem almennt gilda. Ekki er að finna í áliti Samkeppnisráðs neinn útreikning á því hvort niðurfellingin var umfram einhver mörk. Svo virðist sem ráðið gangi út frá því að það sé ólögmæt ríkisaðstoð að Landssíminn beri ekki allar skyldur gömlu ríkisstofnunarinnar.

Á Íslandi varð grundvallarbreyting á lagaumhverfi íslensks fjarskiptamarkaðar með lögum um fjarskipti. Ein helsta breytingin var sú að einkaréttur ríkisins var felldur niður og samkeppni heimiluð. Í tengslum við þær breytingar þurfti að setja sérstakt regluverk í gang til að tryggja frjáls viðskipti á þessum markaði. Þær reglur eru vissulega til staðar en engu að síður verður að endurskoða fjarskiptalögin í þessu ljósi. Að því gæti ég komið í ræðu á eftir.