Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 12:31:35 (376)

1999-06-16 12:31:35# 124. lþ. 8.31 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[12:31]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hér er til umræðu mjög lítið þingmál í rauninni sem mjög auðvelt er að taka afstöðu til. Ég hef þegar gert það og lýsti þeirri afstöðu minni í gær. Ég er andvígur frv. og andvígur því að það verði samþykkt. (GÁS: Er það prinsippmál?)

Hins vegar hafa menn í umræðunni notað tækifærið og rætt um ýmislegt fleira en þetta litla frv. Meðal annars var boðað til fundar í fjárln. í morgun til að fara yfir fyrirliggjandi upplýsingar um stöðu ríkisfjármálanna og þessari umræðu frestað af þeim sökum. Það hefur nú komið á daginn að ekkert nýtt kom út úr því.

Ég sagði í gær í umræðunum að við gerðum ráð fyrir að við gætum staðið við þær áætlanir sem fjárlögin gera ráð fyrir að því er varðar nettóniðurstöðuna, afganginn. En það þýðir auðvitað, eins og við vitum ævinlega, að útgjöldin breytast innan ársins og tekjurnar líka.

Það er algjörlega óábyrgur málflutningur, eins og hv. þm. hefur gert sig sekan um, bæði í dag og í gær, að rétt væri að afturkalla þennan tekjuauka sem felst í hækkun bensíngjaldsins vegna þess að hvort eð er væri svo mikið af tekjum á ferðinni í ríkissjóð. Það vitum við ekkert um enn þá. Reyndar hafa áætlanir að því er varðar bensíngjaldið staðist nákvæmlega upp á næstum því milljón á þessum stóra tekjupósti það sem vitað er af árinu. Það eru einhverjar umframtekjur væntanlega í þungaskattinum en það er hins vegar mjög óvíst vegna þess að þar hefur reglunum verið breytt og hinar nýju reglur koma ekki að fullu til framkvæmda fyrr en núna í sumar að því er varðar kílómetragjald, afslætti fyrir ákveðnar tegundir bíla o.s.frv. Það er því fullkomið ábyrgðarleysi að ætla að fara að gera út á einhvern tekjuauka í þessu fyrr en það er fyrirséð hvernig þær reglur koma út þegar upp er staðið.

Hv. þm. hafði því ekki neitt upp úr þessu krafsi, að ég tel. Hv. þm. hefur hins vegar fjallað um ýmis önnur atriði og nefndi hækkun áfengisgjalds. Það hefur ekkert hækkað. Það urðu smábreytingar á áfengisverði 1. júní vegna þess að þá er regluleg aðlögun hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins á ári hverju, sumt hækkar, annað lækkar. Ég held að meðaltalshækkunin hafi verið 1%. Hún var eitthvað örlítið meiri í bjór en hún var lægri í öðrum tegundum áfengis. Það er ekki hægt að blanda þessu inn í þessa umræðu um bensíngjaldið. Þarna er bara um að ræða eðlilegar breytingar, sumar til hækkunar og aðrar til lækkunar, eins og gengur.

Það er nefnilega ekki sama krísuástandið og var í verðlagsmálum og alveg ástæðulaust að magna þetta upp eins og einhvern gamlan verðbólgudraug aftan úr forneskju.

Ég sagði í umræðunum í gær að við gerum okkur enn þá vonir um að verðlagsbreytingarnar frá 1998--1999 verði ekki fjarri þeirri forsendu sem er í fjárlögunum, þ.e. 2,5%. Það er enn þá von til þess að það geti orðið. En það verða auðvitað allir að leggjast á eitt og hjálpar ekki þegar eitt stórt sveitarfélag, Reykjavíkurborg, hækkar strætisvagnafargjöldin um 25%, ekki tvö eða þrjú prósent eða eitt prósent, eins og hækkanirnar hérna eru. En þetta er eins og kunnugt er eina sveitarfélagið þar sem almenningssamgöngur kom beint inn í vísitöluna.

Hins vegar hefur hv. þm. látið hjá líða --- eins og honum var nú tíðrætt um vexti í umræðunum í gær --- að minnast á að Seðlabankinn hefur, frá því að við töluðum síðast saman hér, ákveðið að hækka stýrivexti sína um 0,5%. Ég tel að það sé mjög skynsamleg aðgerð í núverandi stöðu. Hún mun hafa áhrif til að draga úr útlánaeftirspurn, hún mun væntanlega líka hafa áhrif á að ýta genginu eitthvað upp á við og þar með væntanlega hafa áhrif á innflutningsverðlagið niður á við. Þannig getum við gripið til ráðstafana til að sporna gegn hækkun verðlags.

Þetta frv. er að mínum dómi sýndarmennskan ein og þess vegna er ég andvígur því.