Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 13:03:33 (386)

1999-06-16 13:03:33# 124. lþ. 8.31 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[13:03]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls aftur í umræðunni en fyrst farið var með tölur sem komu fram á fundi fjárln. í morgun verð ég að bæta einu orði við varðandi það. Ég vil undirstrika að endanlegar áætlanir liggja ekki fyrir um þessi mál og tekjuspáin var kynnt þannig að þarna væri um að ræða tekjuauka upp á 2--4 milljarða. Hins vegar tóku starfsmenn fjmrn. það fram að þeir væru yfirleitt varkárir í spám sínum þannig að ég er ekki að gera athugasemd við það þó hv. þm. hafi nefnt 4 milljarða.

Hins vegar er alveg ljóst varðandi útgjaldaaukann að menn verða að reikna með því að þarna séu tekjur og útgjöld nokkuð í jafnvægi. Það liggja fyrir umsóknir inn á fjáraukalög um hækkanir í tryggingakerfinu, um að menn verði að koma inn í heilbrigðismálin og það hefur yfirleitt verið reynslan að það falla til útgjaldatilefni á árinu. Ekki þarf annað en líta til reynslu síðustu ára með það þannig að mér finnst óvarlegt að reikna með því að það sé einhver milljarður þarna sem stendur út af. Ég undirstrika það. Jafnvel þó að tekjuspáin standist upp á 4 milljarða kr. viðbót sem þeir sérfræðingarnir töluðu um, 2--4, en ég ætla ekki að rengja hv. 7. þm. Reykv. eða fara að stæla við hann um það. Vel getur verið að þetta verði 4 milljarðar og vonandi verða þeir það. Hins vegar er ljóst að útgjaldatilefnin falla til þannig að ekki er varlegt að reikna með bata af þessum ástæðum einum.

Það hefur verið farið víða í þessari umræðu og ég ætla ekki að blanda mér í það. Talað hefur verið um að við séum á lokum uppsveiflunnar og það hefur verið frekar svartsýnistónn í umræðunni að því leyti. Það kann vel að vera rétt. Við erum mjög háð sjávarútvegi í landinu og sjávarútvegurinn er sveiflukenndur atvinnuvegur og hefur alltaf verið. Ég held að samt sé ekki ástæða til neinnar sérstakrar svartsýni en ég held að alveg sé ástæða til þess að hafa allan varann á og leita eftir öllum tækifærum til þess að auka hagvöxtinn.

Mér fannst athyglisvert að hv. 3. þm. Norðurl. e. talaði um að góðærið væri eyðslugóðæri en þyrfti að vera framleiðslugóðæri. Ég er honum alveg sammála í því og við þurfum að leita allra leiða til þess að auka framleiðsluna í þessu samfélagi. Við þurfum að leita allra leiða til þess að skjóta fleiri stoðum undir atvinnustarfsemina í landinu. Þess vegna höfum við t.d. verið að leita eftir því að nýta orku sem hefur verið til umræðu í morgun þó á öðrum vettvangi væri. Ég vil stuðla að því að góðærið í landinu byggist á framleiðslu. Ég vil líka óska þess að það byggist á því að fólk hafi bærileg lífskjör í landinu og við höfum sæmilegan jöfnuð milli manna og fólk hafi þau lífskjör að viðskipti geti gengið greiðlega fyrir sig. Mér finnst það ekkert af hinu vonda. En ég er alveg sammála því að góðærið á ekki að byggjast eingöngu á eyðslu eða fjárfestingu. Það verður að byggjast líka á framleiðslu og fjölbreyttum atvinnuvegum.