Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 18:05:09 (3804)

2000-02-01 18:05:09# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[18:05]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að það er aðeins misbrestur á þessu atriði en í öllum tilnefningarbeiðnum, bréfum sem við sendum úr ráðuneytinu, er undantekningarlaust minnt á 12. gr. gildandi jafnréttislaga þar sem minnt er á þá skyldu að gæta kynjajafnréttis.

Í talningu sem gerð var fyrir örfáum árum vegna fyrirspurnar á Alþingi um hlut kvenna í nefndum og ráðum kom í ljós að félmrn. var með langbestan hlut kvenna allra ráðuneyta, þ.e. 41% af þeim sem sátu í nefndum á vegum félmrn. voru konur. Ég get getið þess líka til fróðleiks, sem hv. þm. veit sjálfsagt, að rúmlega 2/3 af starfsmönnum félmrn. eru konur og það hlutfall hefur farið hækkandi síðan hann var í því ráðuneyti. Um daginn var fundur lögfræðinga í félmrn., þ.e. lögfræðingar sem starfa í félmrn. áttu með sér fund og þar voru sjö konur og einn karl. Að vísu er þar svo komið að jafnréttið er ekki virt með nógu góðum hætti en á heildina litið er þetta í lagi hjá okkur en ég viðurkenni að mjög erfitt er að fá tilnefningar sem fullnægja þessu skilyrði í alla staði.