Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 18:29:57 (3810)

2000-02-01 18:29:57# 125. lþ. 53.2 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[18:29]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þetta frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem hér er lagt fram og er hið þarfasta plagg. Það er angi af miklu stærra máli en titillinn gefur til kynna. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem fór yfir sviðið og talaði tæpitungulaust er þetta fyrsta skrefið til þess að geta komið einhverjum böndum á þá starfsemi sem hefur náð hér fótfestu, þ.e. nektardansstöðum og klámiðnaði víða um borgina, á 12--13 stöðum á landinu.

[18:30]

Árið 1994 þegar lögin um atvinnuréttindi útlendinga voru sett með undanþágu fyrir listamenn fylgdi engin skilgreining á orðinu listamaður. Ég held að árið 1994 hafi hreinlega ekki hvarflað að nokkrum manni hvernig hægt yrði að teygja orðið listamaður. En tímarnir hafa breyst hratt og við höfum ekki alveg náð að fóta okkur í þessari þróun í skemmtanalífinu. Því miður erum við svolítið á eftir með lagarammann og verðum að gera það sem við getum til að grípa í taumana og bæta umhverfi okkar þannig að hér þrífist ekki rekstur í skjóli almennra vínveitingastaða þegar alls staðar annars staðar í kringum okkur gilda ákveðnar reglur um næturklúbba eða starfsemi af þeim toga sem komist hefur á legg á Íslandi í dag. Nú er klámiðnaðurinn viðurkenndur hér á landi.

Ég tek undir það sem kom fram í ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, um það sem gerðist þegar komið var með athugasemdir um þessa iðngrein, sem skilgreind hefur verið sem listdans í kringum súlu, og þegar það var tekið upp á þinginu lenti umræðan út og suður í alls konar kjánaskap og útúrsnúningi. Mönnum fannst hálfhjákátlegt að taka þessa umræðu upp á þinginu en hefðu betur hlustað þá og gert þær ráðstafanir sem við sjáum í dag að verður að gera.

Í ljós hefur komið að þessar stúlkur sem koma hingað í fjórar vikur í senn undir því yfirskini að þær séu listamenn að dansa á skemmtistöðum eru réttlausar. Það er ekki alltaf farið vel með þær, tala mætti um þrælahald og misnotkun og í kringum þessa skemmtistaði þrífst vændi. Við erum ekkert öðruvísi en aðrar þjóðir og vændi þrífst í kringum þessa staði. Í kringum klámiðnaðinn þrífst líka og dafnar neysla á ólöglegum fíkniefnum. Hvort sem mafían er komin hingað til Íslands eða er væntanleg þá er þetta rekstur sem mafían hefur tileinkað sér og stundar a.m.k. í löndunum í kringum okkur.

Því fagna ég því að þetta frv. til laga um breytingu á lögunum um atvinnuréttindi útlendinga er komið fram þannig að hægt sé að skilgreina í reglugerð hverjir teljist listamenn svo hægt sé að vinna áfram að öðrum lagasetningum sem skilgreina þá klám og skilgreina vínveitingastaði. Þannig berum við hugsanlega gæfu til þess að hreinlega banna þennan iðnað á Íslandi.