Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 18:35:15 (3811)

2000-02-01 18:35:15# 125. lþ. 53.2 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[18:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka góðar viðtökur þessa litla frv. og jákvæðar undirtektir. Staðirnir sem auglýsa þennan dans eru 12 og samkvæmt upplýsingum okkar í félmrn. má áætla að á milli 50 og 70 konur starfi í einu á þessum stöðum. Þetta er því töluverður hópur og þarna er töluverð starfsemi.

Í kjölfar mikilla umræðna um þessa nektardansstaði hafa fylgt staðhæfingar um að vændi sé stundað í tengslum við þessa starfsemi á Íslandi. Það hefur komið fram í þessum umræðum en rannsóknir lögreglu hafa ekki staðfest þennan orðróm. Íslensk yfirvöld hafa tekið þátt í samnorrænni umræðu um þróun og útbreiðslu vændis á Norðurlöndum og könnun á mögulegum aðgerðum til að sporna við frekari útbreiðslu. Talið er að rekja megi vændi að einhverju leyti til skipulagðrar glæpastarfsemi þar sem fram fer verslun með konur til kynlífsþrælkunar. Jafnvel er talið að Ísland sé ekki undantekning þar en í þeim efnum hefur ekkert sannast, því miður eða kannski sem betur fer. Væri þetta í mjög ríkum mæli orðinn þáttur í þjóðlífinu þá held ég að lögreglan hlyti að hafa komist á snoðir um það.

Þessi umræða um verslun með konur á alþjóðavettvangi hefur staðið í nokkur ár. Jafnréttisnefnd Evrópuráðsins stóð fyrir ráðstefnu um þessi mál árið 1998 þar sem fram kom að margar þeirra kvenna sem lenda í þessari aðstöðu eru frá Mið- og Austur-Evrópu. Þær eru tældar til Vesturlanda í von um betra líf en bíður þeirra í heimalandi þeirra. Þegar þær eru komnar yfir landamæri landsins sem förinni er heitið til er algengt að vegabréf þeirra séu tekin af þeim og þær lokaðar inni í vændishúsum. Við þekkjum dæmi þess hér að vegabréf hafi verið tekin af þessum stúlkum, að forráðamenn þessara húsa hafa tekið af þeim vegabréf og farseðla. Þær njóta náttúrlega hvorki heilbrigðis- né félagsþjónustu á vegum þess opinbera í þeim löndum þar sem þær dveljast.

Ráðherraráð Evrópuráðsins hefur látið vinna drög að leiðbeinandi reglum til aðildarríkjanna gegn flutningi fólks til kynlífsmisnotkunar ásamt greinargerð. Drögin hafa verið send dóms- og kirkjumrh., heilbr.- og trmrn., menntmrn. og samgrn. til kynningar. Þau verða lögð fram á fundi ráðherraráðs Evrópuráðsins þann 12. febrúar næstkomandi til samþykktar.

Eins og ég sagði áðan kom á síðasta ári upp atvik þar sem erlendar konur sem ráðnar voru til starfa á nektardansstöðum leituðu aðstoðar við að komast af landi brott. Þær töldu sig hafa verið sviknar um vinnuskilyrði og aðbúnað og leituðu til Kvennaathvarfsins um húsaskjól vegna ábendinga íslenskra aðila. Þær leituðu jafnframt til sendiráðs Ungverjalands í Stokkhólmi eftir liðsinni. Í framhaldi af þessu var ákveðið að efna til samstarfs og 12. janúar sl. var haldinn fundur með fulltrúum félmrn., Kvennaathvarfs, útlendingaeftirlits og lögreglunni í Reykjavík. Einnig var boðinn á fundinn fulltrúi félagsþjónustunnar í Reykjavík en hann komst ekki vegna forfalla. Niðurstaða fundarins var að þegar svipuð mál kæmu upp skyldi Kvennaathvarfið hafa samráð við útlendingaeftirlitið eða lögregluna í Reykjavík. Ef nauðsyn er á félagslegri þjónustu þá á að hafa samband við félagsþjónustuna í Reykjavík. Almenna reglan í þessu sambandi er að miðað er við dvalarstað viðkomandi. Hér er miðað við að dvalarstaður þeirra sé Kvennaathvarfið.

Eins og ég sagði áðan er verið að endurskoða lögin um atvinnuréttindi útlendinga. Nefndin er að störfum, það er náttúrlega nefnd á vegum félmrn. Þetta er hluti af hennar verki sem okkur þótti það áríðandi að taka yrði það strax fyrir. Því er þetta frv. flutt svo snubbótt.

Þá kemur að fjármálahlið málsins. Við höfum fylgst með fréttum, sem ég rengi ekki, um greiðslukortaúttektir á ótrúlegum upphæðum. Ef ég man rétt þá eyddi einn viðskiptamaðurinn milljón á tveimur kvöldum og annar 800 þúsundum á einu kvöldi. Forsvarsmaður greiðslukortafyrirtækisins kom í sjónvarpið og kallaði þessar greiðslur graðgreiðslur ef ég man rétt og rímar það við raðgreiðslur. Reyndar neitaði greiðslukortafyrirtækið eðlilega viðskiptum við tvo tilgreinda skemmtistaði. Nú hafa þeir að vísu náð samningum um viðskipti aftur.

Síðan kemur manni í hug: Hvað er klám og hvað er klámiðnaður, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon? Ég hef af því fréttir úr blöðum að í höfuðborg kjördæmis hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, Akureyri, hafi um síðustu helgi verið opnuð listsýning. Hún heitir Losti 2000. Ég hef einungis fréttir úr blöðunum. Ég hef séð myndir, t.d. af hæstv. iðn.- og viðskrh. sem var að skoða sýninguna furðu lostin á svip og má segja að hún ræki upp stór augu. Í blöðum hafa birst fréttir af nokkuð vafasamri hegðun sýningargesta. Þetta er ekki súludans sem þarna fer fram. Þar er eitthvað annað á ferðinni og ég veit satt að segja ekki hvert við erum komin. Ég hélt að Akureyringar hefðu náð botninum þegar þeir sýndu málverkið eftir köttinn en það er lengi hægt að bæta pinkli á Skjónu.