Nýbúamiðstöð á Vestfjörðum

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 19:08:10 (3818)

2000-02-01 19:08:10# 125. lþ. 53.3 fundur 190. mál: #A nýbúamiðstöð á Vestfjörðum# þál. 19/125, JB
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[19:08]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við þáltill. sem hér er til umræðu um nýbúamiðstöð á Vestfjörðum og eflingu starfs á þessu sviði þar. Það er klárt að fólk frá hinum ýmsu löndum sem starfar og dvelur á Vestfjörðum eru hinir bestu þjóðfélagsþegnar hvort sem þeir starfa hér lengur eða skemur. Margt fólk ílendist hér og því er sjálfsagt að styrkja stöðu þess og jafnframt að gera því auðveldara að starfa í íslensku samfélagi og verða hluti af því.

Ég hlýt að leggja þunga áherslu á tungumálakunnáttuna, þ.e. á íslenskukennsluna. Þetta fólk þarf á sem skemmstum tíma að geta tileinkað sér íslenskt tungumál þannig að samskipti þess við aðra landsmenn verði sem greiðust og best. Tungumálið er lykillinn og ber að hafa það mjög svo rækilega í huga við eflingu þessa starfs.

Herra forseti. Ég lýsi því yfir að þetta er hið besta mál að mati okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði.