Rekstur Herjólfs hf. í Vestmannaeyjum

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:58:49 (3869)

2000-02-02 14:58:49# 125. lþ. 55.13 fundur 234. mál: #A rekstur Herjólfs hf. í Vestmannaeyjum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:58]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. samgrh. Í sumar ákvað ríkisstjórn Íslands samkvæmt reglum sem hún hefur sett sér og reglum Evrópska efnahagssvæðisins að bjóða út rekstur og starfsemi Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Ákvörðun þessi kom á óvart og hefur leitt til talsverðrar óvissu bæði hjá íbúum Vestmannaeyja og starfsmönnum Herjólfs. Að sögn framkvæmdastjóra Herjólfs er þegar komið los á starfsmenn ferjunnar vegna óvissu um framhald rekstrar.

Stjórnarformaður Herjólfs sagði í útvarpsviðtali þann 26. júní sl. að fyrrv. samgrh. Halldór Blöndal hefði gefið út yfirlýsingu í Vestmannaeyjum að ekki kæmi til greina að bjóða út rekstur Herjólfs. Því er greinilega um stefnubreytingu að ræða. Í samkomulagi fulltrúa Vegagerðarinnar og Vestmannaeyjabæjar, sem undirritað var 21. des. 1995, 2. gr. þess samkomulags segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Vegagerðin mun ekki gera breytingar á rekstri og rekstrarformi Herjólfs eða endurnýja eða velja annað skip til þess að annast flutninga á fólki, bílum og vörum til og frá Vestmannaeyjum nema í samkomulagi við bæjarstjórn Vestmannaeyja. Heimahöfn Herjólfs skal vera í Vestmannaeyjum.``

[15:00]

Hvað veldur þessari stefnubreytingu? Ég lagði fram fyrirspurn þessa í nóvember sl. en þá var óvíst hvernig farið yrði með þetta mál á nýbyrjuðu ári. Hins vegar var gerður samningur til eins árs um miðjan desember sl. þannig að reksturinn verður óbreyttur til 1. janúar 2001.

Í millitíðinni skapaðist mikil og óþolandi óvissa bæði fyrir íbúa Vestmannaeyja og starfsmenn Herjólfs. Þegar nýr Herjólfur hóf siglingar á milli lands og Eyja sagði þáv. samgrh. að nú væri loks komin brú á milli lands og Eyja. Brýr eru hluti af þjóðvegakerfinu, þess vegna má segja að Herjólfur sé þjóðvegur Vestmannaeyinga. Þetta er því í fyrsta sinn sem þjóðvegur verður boðinn út á Íslandi.

Fyrirspurn mín er svohljóðandi:

1. Hvað líður fyrirhuguðu útboði á rekstri Herjólfs hf. í Vestmannaeyjum?

2. Hvað sparast ef rekstur og starfsemi Herjólfs hf. verður boðinn út?

3. Hvernig sér ráðherra fyrir sér rekstur og starfsemi Herjólfs hf. í framtíðinni?

Auðvitað er mjög mikilvægt fyrir okkur þingmenn Suðurlands og reyndar þingmenn alla að vita hvernig þessum málum verður varið í framtíðinni og þess vegna óska ég eftir svörum við fyrirspurn minni.