Rekstur Herjólfs hf. í Vestmannaeyjum

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:06:47 (3871)

2000-02-02 15:06:47# 125. lþ. 55.13 fundur 234. mál: #A rekstur Herjólfs hf. í Vestmannaeyjum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin. Eins og fram kom í svörum hæstv. ráðherra talaði hann um ferjuna sem gengur m.a. milli Dalvíkur og Hríseyjar sem sér fyrst og fremst um vöruflutninga og þó líka auðvitað fólksflutninga á milli þessara staða. Eins og ég hef sagt og kom fram í ræðu minni áðan þá er Herjólfur í raun og veru þjóðvegur á milli lands og Eyja og það skiptir auðvitað mjög miklu máli að sá þjóðvegur sé greiðfær og opinn. Hugsanlega skildi ég ekki hæstv. ráðherra fullkomlega þegar hann var að tala um dagsetningar í þessu, hann talaði um febrúar á næsta ári og mars og apríl á næsta ári. Á hann við að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu fyrr en árið 2002? (Samgrh.: Það er á þessu ári.) Það er á þessu ári, þá eru þetta mismæli hæstv. ráðherra þannig að þetta er að ganga í gegn.

En við getum líka velt fyrir okkur rekstri þessa skips. Um tíma voru miklar umræður um fargjöld með Herjólfi og þá gripu bæjaryfirvöld bæði í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum til þess ráðs að lækka hafnargjöld af skipinu og með þeim hætti var hægt að ná niður fargjöldum. Það skiptir Vestmannaeyinga gríðarlega miklu að þessi mál séu í föstum skorðum og ég gleðst reyndar yfir því að ráðherra tekur skýrt fram að þjónustan komi ekki til með að minnka og þjónustan verði hugsanlega bætt og vonandi stendur hæstv. ráðherra við það. En eins og kom fram í fyrri ræðu minni tók fyrrv. samgrh. Halldór Blöndal skýrt fram að ekki ætti að hrófla við rekstri Herjólfs en ég treysti núv. samgrh. til að efla þjónustuna vegna þess að rekstur Herjólfs skiptir íbúa Vestmannaeyja og reyndar einnig íbúa fastalandsins mjög miklu máli.