Kortlagning ósnortinna víðerna

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:24:23 (3878)

2000-02-02 15:24:23# 125. lþ. 55.10 fundur 252. mál: #A kortlagning ósnortinna víðerna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Í kjölfar samþykktar þingsályktunar Alþingis um kortlagningu ósnortinna víðerna 10. mars sl., fól umhvrn. Náttúruvernd ríkisins að vinna áætlun um verkefnið, umfang þess og kostnað, í þeim tilgangi að hægt yrði að taka tillit til kostnaðar og nauðsynlegra fjárframlaga við fjárlagagerð eins og kveður á um í þingsályktuninni. Náttúruvernd ríkisins hefur nýverið gert ráðuneytinu grein fyrir framvindu og stöðu málsins og hvernig fyrirhugað er að ljúka gerð áætlunarinnar. Þar kemur fram að stofnunin telur brýnt að afmarka ósnortin víðerni á korti, t.d. í mælikvarðanum 1:750.000 og hefur stofnunin þegar haft samband við Landmælingar Íslands sem getur unnið kort þar sem stuðst verður við vinnuaðferðir Norðmanna, þ.e. að kortleggja ósnortin víðerni með tilliti til fjarlægðar frá mannvirkjum, þannig að ná megi fram fjórum flokkum. Það fer eftir því hvað mannvirkin eru í margra km fjarlægð frá þar sem svæði I er 5 km eða lengra í næsta mannvirki, sem er þá besta svæði. Þegar liggur fyrir lauslegt mat á vinnuframlagi og kostnaði Landmælinga Íslands vegna verkefnisins og á næstu vikum er fyrirhugað að Náttúruvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands og Landmælingar fari yfir verkefnið í heild og hvernig verkþættir verkefnisins skiptast á milli stofnananna, tímaáætlun og kostnaður við verkið í heild. Á fjárlögum þessa árs, yfirstandandi árs, eru 5 millj. kr. til gerðar náttúruverndaráætlunar sem á að skila inn til þings árið 2002, sem er fyrsta sinnar tegundar heildstæð á landsvísu. Verið er að ráða fólk til að sinna þeirri vinnu sem þar verður innt af hendi í sambandi við þá áætlun og er að hefjast núna. Samkvæmt upplýsingum mínum frá Náttúruvernd ríkisins mun sú vinna nýtast að talsverðu leyti til þessarar kortlagningar sem hér um ræðir. Því verður nú þegar unnt að hefja það verk með vinnu við náttúruverndaráætlunina. Samkvæmt upplýsingum mínum frá Náttúruvernd ríkisins er búist við því að unnt verði að ganga frá kortlagningu ósnortinna víðerna á næsta ári.