Fæðingarorlof

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 15:27:42 (4167)

2000-02-09 15:27:42# 125. lþ. 60.2 fundur 153. mál: #A fæðingarorlof# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég held að það sé ein af forsendum þess að við náum frekari áföngum í jafnréttisbaráttunni að fæðingarorlof feðra verði lengt. Það þarf að auka sjálfstæðan rétt feðra til þess.

Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að viljinn væri fyrir hendi en það kom líka fram að það er ekkert sérstakt að gerast. Hæstv. ráðherra gat þess sem þingheimur vissi auðvitað að þetta er hluti af stjórnarsáttmálanum sem lagður var fram þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð. En mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir einu. Hann sagði að þetta mál væri flókið og þyrfti að ræða við marga, m.a. aðila vinnumarkaðarins. Er það svo að þetta kosningaloforð Sjálfstfl. og þessi varða í stjórnarsáttmálanum eigi að verða einhvers konar skiptimynt í kjarasamningum? Ég trúi því ekki, herra forseti, og ég bið hæstv. ráðherra að staðfesta að þessi skilningur minn á máli hans hafi verið rangur.