Fæðingarorlof

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 15:28:39 (4168)

2000-02-09 15:28:39# 125. lþ. 60.2 fundur 153. mál: #A fæðingarorlof# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[15:28]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög mikilvægu máli sem skiptir þjóðfélagið allt mjög miklu. Það er rétt sem hér kom fram að það er mikilvægur áfangi í jafnréttisbaráttunni að tryggja sjálfstæðan rétt karla og um það hefur verið rætt í þeim tillögum sem hafa verið á sveimi í þjóðfélaginu að skapa körlum sjálfstæðan rétt þannig að þeir eigi ekki annarra kosta völ, ef foreldrarnir ætla að nýta réttinn en að feðurnir geri það. Þetta er því mjög mikilvægt. Það er mjög mikilvægt þegar fundin er lausn á fæðingarorlofsmálum að við finnum samtryggingarleið sem tryggir rétt foreldranna og tryggir rétt barnsins til þess að vera samvistum við foreldra sína. Til þess að svo geti orðið þarf að búa um hnúta þannig að foreldrarnir haldi tekjum sínum óskertum í fæðingarorlofi og þess vegna minni ég á tillögur sem fram hafa komið á Alþingi m.a. frá undirrituðum, frá samtökum launafólks BSRB um fæðingarorlofssjóð sem leysi þennan vanda.