Endurskoðun skattalöggjafarinnar

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 15:46:17 (4179)

2000-02-09 15:46:17# 125. lþ. 60.3 fundur 157. mál: #A endurskoðun skattalöggjafarinnar# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[15:46]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Unnið er að undirbúningi margra skattamála í fjmrn. og því verður haldið áfram eins og ég sagði áðan. Hins vegar hefur þessi umræða kannski eins og vænta mátti snúist um eilítið annað af hálfu þeirra sem hafa gert athugasemdir en það sem um er spurt. Menn vilja ræða almennt um skattkerfið og eðli þess sem er það að skattbyrðin eykst þegar tekjur hækka og skattbyrðin minnkar þegar tekjur lækka. Þetta hefur löngum verið talið þessu skattkerfi til tekna alveg frá því að það var innleitt 1988.

Ég verð að leiðrétta það sem sagt var. Ekki er gert ráð fyrir 5% launahækkun í fjárlögum þessa árs. Það er einhver misskilningur sem er kominn á kreik og hver maður étur upp eftir öðrum, bæði hér í þingsal og í fréttabréfum frá virðulegum samtökum hér í bæ. Gert var ráð fyrir 3% launahækkun í fjárlögunum og 1% var að auki sett á sérstakan launa- og verðlagslið til ráðstöfunar eftir því sem sérstök tilefni gæfust til. Skattleysismörkin hækka um 2,5% eins og ákveðið var með lögum 1997. Það reyndist vera undir verðlagshækkunum öll árin síðan, 1997 og 1998, og óvíst hvernig verður með árið í ár. En það verður ekki bæði haldið og sleppt í þessu frekar en öðru. Stefnan hefur verið sú, og hún er eðlileg að mínum dómi, að reyna að miða hækkanir bótamarka við hækkun verðlags en að menn sætti sig síðan við það, eftir því hvort laun eru undir eða yfir verðlaginu, að skattbyrðin sveiflist til til þess að kerfið virki sveiflujafnandi. Það er lykiatriðið í málinu. Þannig var þetta kerfi hugsað og þannig hefur það virkað í öll þessi ár.