Framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 15:37:12 (4248)

2000-02-10 15:37:12# 125. lþ. 61.94 fundur 304#B framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég ítreka það sem kom fram í fyrri ræðu minni að hér er um athugun að ræða, athugun á hagkvæmni þess að sameina fyrirtæki. Til þess að svo geti orðið þarf að breyta rekstrarformi þeirra. Í öðru lagi og tengt því yrði athuguð hagkvæmni þess að flytja höfuðstöðvarnar til Akureyrar. Óháður aðili mun vinna að hagkvæmniathuguninni. Miklar breytingar verða í orkugeiranum á næstu árum og ýmsar breytingar hafa verið að eiga sér stað á síðustu vikum og mánuðum.

Ég ítreka að málið snýst um athugun. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir. Ég geri mér fulla grein fyrir því að verði af flutningi höfuðstöðva Rariks er það viðkvæmt mál fyrir starfsfólk. Málið er alls ekki komið á það stig að starfsmenn séu kallaðir til. Ég hefði hins vegar gjarnan viljað greina starfsfólki frá þessum hugmyndum áður en málið barst fjölmiðlum.

Herra forseti. Ég veit að margt hefur verið gert til þess að ná fram hagræðingu hjá Rafmagnsveitunum frá því að athugun var gerð á hugsanlegri sameiningu Rariks og Rafveitu Akureyrar árið 1993. Ég tel eigi að síður að okkur beri skylda til að kanna hvort lækka megi rekstrarkostnað og þar með orkuverð í landinu með sameiningu. Jafnframt eigum við að skoða hvaða sóknarfæri slík sameining býður upp á. Þegar þau gögn liggja fyrir getum við tekið ákvörðun um hvort og þá hvaða skref verða stigin. Báðir aðilar, þ.e. iðnrn. og Akureyrarbær, ganga óbundnir til þessa samstarfs.