Tollalög

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 15:55:54 (4266)

2000-02-14 15:55:54# 125. lþ. 62.12 fundur 196. mál: #A tollalög# (aðaltollhafnir) frv. 87/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram er þetta í þriðja sinn sem frv. er lagt fyrir hv. Alþingi um breytingu á tollalögum, þannig að höfnin í Þorlákshöfn og höfnin á Höfn í Hornafirði verði gerðar að tollhöfnum.

Árið 1994 var stofnað embætti tollvarðar við embætti sýslumanns á Selfossi. Það hefur vissulega skilað töluverðri aukningu í tollafgreiðslu í gegnum Þorlákshöfn en engu að síður telja heimamenn og þeir sem eiga viðskipti og fara um höfnina í Þorlákshöfn að þjónustan yrði mun betri og skilvirkari ef þar væri staðsettur tollvörður.

Það kom fram hjá hv. framsögumanni og 1. flm., hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, að þetta er í fyrsta skipti sem frv. þessa efnis er lagt fyrir núv. hæstv. fjmrh. sem er einstaklega öflugur eins og kom fram hjá hv. þm. Hins vegar má ekki gleyma að embætti tollvarðar á Selfossi var sett á árið 1994 í tíð ráðherrans sem var á undan núv. hæstv. fjmrh. Sú tilhögun hefur skilað okkur verulegum árangri á Suðurlandi varðandi tollafgreiðslur. Rökin fyrir því að þessar hafnir verði viðurkenndar tollhafnir eru mörg. Í fyrsta lagi má benda á þá miklu vöruflutninga sem fara í gegnum þessar hafnir í dag. Þar er bæði um að ræða vikur- og vöruflutninga í Þorlákshöfn og mjög mikla vöruflutninga austur á Höfn. Í öðru lagi væri þetta hluti af þeirri byggðastefnu sem við viljum sjá í framkvæmd, að embættin séu staðsett úti á landi jafnt sem í Reykjavík. Eins og kom fram hjá hv. frsm. verður að leita eftir heimildum til Reykjavíkur og mönnum þykir það stirt í vöfum og óþarfa töf á afgreiðslu. Í þriðja lagi verður þjónustan betri og skilvirkari. Þetta eykur möguleika beggja þessara svæða, þ.e. Höfn í Hornafirði og eins í Þorlákshöfn, á að þar komi ný iðnaðarfyrirtæki og séu staðsett á svæðinu.

Í viðræðum við fyrirtæki sem hafa skoðað staðsetningu úti á landi hefur komið í ljós að þau sækjast eftir að fara á staði þar sem tollafgreiðsla er á vöru til útflutnings eða vöru sem þeir fá inn, hráefni til úrvinnslu. Eitt af því sem menn hafa sett fyrir sig varðandi Þorlákshöfn er að þar er ekki um slíka afgreiðslu að ræða. Þar er annars vegar embættið á Selfossi og hins vegar þarf heimildir frá embættinu í Reykjavík. Einnig ber að nefna að áður en Ölfushreppur yfirtók reksturinn á Þorlákshöfn --- áður var Þorlákshöfn landshöfn --- þá var mikið lagt upp úr því að hafnir sem sveitarfélögin yfirtækju yrðu efldar og að ríkisvaldið mundi stuðla að því með einum eða öðrum hætti, eins og mönnum er tamt að segja. Þá þegar hófst umræða um að þegar Þorlákshöfn hætti að vera á vegum ríkisins, svokölluð landshöfn, og færi yfir til sveitarfélagsins þá yrði hún tollhöfn. Þá var talað um það að styrkja mætti höfnina verulega og þá starfsemi sem þar færi fram með því að gera hana að tollhöfn.

[16:00]

Hér er þetta frv. lagt fram í þriðja sinn. Það hefur ekki hlotið afgreiðslu áður en ætti nú að vera nægjanlega vel rætt og rökstutt til að höfnin hljóti þessa viðurkenningu og þau störf verði til í Þorlákshöfn.

Vissulega er embætti tollvarðar til staðar hjá sýslumannsembættinu á Selfossi. Ég er ekki sammála því sem hér kom fram hjá hv. 1. flm. og framsögumanni. Hann sagði að þessi tilhögun ætti ekki að skerða möguleika þess embættis. Ég tel ekki rétt að hafa embætti tollvarðar á Selfossi og líka í Þorlákshöfn. Ég tel eðlilegt og raunar sjálfgefið að þessi staða sé í Þorlákshöfn en hún á ekki að vera, eins og oft vill verða, hrein viðbót við rekstur ríkisins. Þetta embætti á hvergi betur heima en í Þorlákshöfn. Þó að ég vilji kjördæmi mínu vel og mörg störf þangað inn þá tel ég bara óraunhæft að hafa embætti tollvarðar á báðum þessum stöðum.

Virðulegi forseti. Mér er náttúrlega tamara að tala um Þorlákshöfn en Höfn í Hornafirði í þessum efnum. Menn verða bara að líta svo á að rökin sem fram eru færð gildi fyrir báðar hafnirnar. Þingmenn Sunnlendinga hafa lagt áherslu á að efla höfnina í Þorlákshöfn. Á sínum tíma voru starfandi þrjár hafnir á Suðurlandsundirlendinu, á Eyrarbakka, Stokkseyri og í Þorlákshöfn. Þegar brú var sett yfir Ölfusárósa var því heitið af sveitarstjórnarmönnum á þessu svæði að höfnin yrði aðeins ein, það yrði gert í sparnaðarskyni til að ná fram hagræðingu. Þá þótti eðlilegt að aðeins yrði um eina höfn að ræða og ekki yrði farið fram á fjárveitingar til smærri hafna, á Eyrarbakka og Stokkseyri, en höfnin í Þorlákshöfn stækkaði að sama skapi. Nú hefur það ekki gengið eftir að þær fjárveitingar sem áður voru ætlaðar í hafnirnar tvær, Eyrarbakka og Stokkseyri, færu í höfnina í Þorlákshöfn. Engu að síður hefur verið staðið mjög myndarlega að uppbyggingu hennar. Þarna er mikil vöruflutningahöfn. Við þurfum hins vegar að reka á verkð lokahnykkinn með því að skýra sérstöðu hennar með því að gera hana að aðaltollhöfn.

Virðulegi forseti. Nú þegar þetta frv. er lagt fram í þriðja sinn gildir vonandi, eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir sagði, að allt sé þegar þrennt er og nú verði frv. samþykkt og gert að lögum.