Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 17:08:10 (4288)

2000-02-14 17:08:10# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[17:08]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að svara síðustu orðum hæstv. umhvrh. um afgreiðsluna á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun. Ekki með öðrum orðum en þeim að það er alveg sjálfsagt mál að þjóðin trúi á þá löggjöf sem sett er í þessu landi og hún þarf ekki að geta skýrt nákvæmlega út fyrir Gallup eða neinu öðru skoðunarkönnunarfyrirtæki hvað felst í einhverjum lagabálki. Allir vita að vestrænar þjóðir eru ágætlega að sér í lögum og í öllum skoðanakönnunum kemur fram að 20% þjóða vita nokkuð vel hvað stendur í lögunum, 80% treysta hins vegar anda laganna. Það gerir íslenska þjóðin líka.

En ég sakna þess að hæstv. umhvrh. skuli ekki svara orðum mínum er lúta að rammaáætluninni því að þetta var megininntak spurningar minnar í andsvarinu: Hvað telur hæstv. umhvrh. að það fólk sem starfar að því að gera rammaáætlunina eigi að hafa margar hendur bundnar? Eins og ég nefndi í andsvari mínu er a.m.k. um níu virkjanir að ræða sem búið er að hleypa út fyrir lög og rétt og þar með er ekki mikið eftir fyrir það fólk sem er að starfa að rammaáætluninni að forgangsraða eða meta. Hvert er álit hæstv. ráðherra á að svona skuli vera í pottinn búið og svo kannski í framhaldi af því, hvaða stjórnsýslulega vægi kemur þessi rammaáætlun síðan til með að hafa að hennar mati? Hvernig ætlar hún að beita sér fyrir því að þessi rammaáætlun verði eitthvað annað en orðin tóm? Mér þætti gaman að heyra hæstv. ráðherra svara því líka.