Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 17:11:43 (4290)

2000-02-14 17:11:43# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[17:11]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Mikið tek ég heils hugar undir þá frómu ósk hæstv. umhvrh. að menn geti farið að horfa fram á veginn. Ég taldi að það frv. sem við í Samfylkingunni höfum lagt fyrir og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir frá vinstri grænum tekur undir væri einmitt viðleitni okkar til að hjálpa hæstv. umhvrh. til þess að rífa sig upp úr þessu hjólfari sem hún er búin að spóla í núna í hálft ár og hefur satt að segja ekki gert orðstír hennar mikið gagn. Við vorum að vona að með þessu væri hægt að ná einhvers konar samstöðu milli a.m.k. hins hugsandi hluta stjórnarmeirihlutans og stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Ég tek auðvitað eftir því að hv. þm. Sjálfstfl. leggja a.m.k. hlustir við málið og hafa ekki andmælt því enda veit ég að a.m.k. sumum þeirra er málið kært og sumir þeirra hafa flutt miklar ræður um nauðsyn þess að vernda gróðurvinjar á hálendinu og vilja ýmislegt á sig leggja til þess.

Herra forseti. Vegna þess að hæstv. ráðherra taldi að það væri rangt að tala um valdníðslu af hálfu stjórnarmeirihlutans í umræðunni fyrr í vetur get ég ekki annað en farið nokkrum orðum um það þó að það sé ekki það efni sem er til umræðu. Það vill svo til að ég var í umhvn. eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir. Við sátum þarna daglangt og náttlangt við umræður um skýrslu Landsvirkjunar og við komumst að því að í einstökum köflum hennar, sér í lagi þeim sem lutu að náttúrufari, stóð ekki steinn yfir steini. Höfundar skýrslunnar urðu uppvísir að því að fara með rangt mál. Það kom líka fram að þeir urðu uppvísir að því að fara ekki að ráðleggingum grasafræðingsins sem fenginn var sem hlutlaus aðili til að meta þær rannsóknir sem gerðar höfðu verið. Hann benti einfaldlega á að þetta hefðu verið forathuganir sem hefðu verið eins konar undanfari alvörurannsókna.

Sá ágæti grasafræðingur gat þess líka í bréfi til mín að hann hefði aldrei komist inn á Eyjabakkasvæðið sumarið 1998. Hann hefði hins vegar rannsakað þrjú lónstæði og ýmis önnur svæði en aldrei það tiltekna svæði sem átti að fara undir lónið þannig að hann gat ekkert sjálfur sagt til um hvað var þar að finna af gróðri.

Þetta bentum við á, herra forseti, og vildum þess vegna fá frekari tíma til þess að kanna þetta frekar. Menn skelltu eyrum skolla við því og það var valdníðsla. Við vildum líka fá frekari sérfræðinga til ráðslags við nefndina og því var hafnað og það var valdníðsla. Ég vek eftirtekt á því að enginn gestur af þeim lista sem þingmenn Samfylkingarinnar vildu fá fyrir nefndina var kvaddur á fund nefndarinnar. Það var einfaldlega ekki tími til þess. Einungis var rætt við þá sérfræðinga sem stjórnarliðið, sem var að vísu sumt á móti tillögu ríkisstjórnarinnar, hafði kvatt til fundar við nefndina.

Ég gæti að sjálfsögðu líka, herra forseti, tekið vinnubrögðin í iðnn. þar sem því var lýst yfir með hástemmdum orðum af hv. formanni iðnn. að borgurum landsins yrði gefinn kostur á því að koma athugasemdum sínum á framfæri við nefndina. Ég skildi það þá í hinni upphaflegu umræðu að fólki yrði gefinn kostur á því að koma til fundar við nefndina eins og við gerðum þegar annað umdeilt mál var í umræðu, þ.e. gagnagrunnurinn. Það var ekki svo. Borgararnir máttu senda athugasemdir sínar á tölvupósti og þær athugasemdir voru ekki einu sinni gerðar að þingskjölum. Með öðrum orðum, þær voru í raun dæmdar dauðar og ómerkar þannig að þetta var líka valdníðsla, herra forseti.

[17:15]

Þegar stjórnarandstaðan í svona miklu máli fær fjóra daga til að véla um málið í nefnd og óskar eftir meiru, þá er það valdníðsla. Og þegar stjórnarandstaðan þarf að fara í umræðu með þriggja daga fyrirvara þegar fyrir liggja skjöl upp á 540 blaðsíður, þá er það valdníðsla og ekkert annað. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur því fullkomlega rétt fyrir sér þegar hún segir að af hálfu stjórnarmeirihlutans var auðvitað farið með ansi hörðum aðferðum á hendur þinginu.

Þetta mál var engum til sóma sem stýrðu för þess í gegnum þingið og mikið held ég að Austfirðingarnir, sem harðast börðust fyrir þessari virkjun, verði ósáttir þegar þeir horfa til baka við þá röngu ákvörðun sem tekin var af Framsfl. þegar hann fór á tauginni í þessu máli og vildi draga þingið og sér í lagi Sjálfstfl. til ábyrgðar í málinu og lét málið fara til þingsins, því að ef það hefði ekki verið þess vegna, þá hefðu menn aldrei komist að því hvað Landsvirkjun hafði unnið sleifarlega sína vinnu. Þá hefðu menn ekki komist að því að staðhæfingar um að enginn lófastór blettur á landinu, eins og það var orðað í fyrri umræðu af hæstv. forsrh., væri jafn vel rannsakaður og Eyjabakkasvæðið átti ekki við rök að styðjast. Ég eins og allir aðrir sem komu að málinu taldi alveg ljóst að Landsvirkjun hefði a.m.k. unnið þá heimavinnu, ég taldi ljóst að Landsvirkjun hefði árum saman eytt hundruðum millj. jafnvel milljörðum í slíkar rannsóknir eins og haldið var fram í grg. með þáltill. hæstv. iðnrh. Í ljós kom að milljarðarnir fóru í allt annað en rannsóknir. Í ljós kom að grundvallarrannsóknir skorti á því svæði sem á að fara undir lónið.

Ég ímynda mér, herra forseti, að þegar Norsk Hydro sem reynir að hafa umhverfisverndarstefnu í fyrirrúmi horfir yfir þetta kunni það að valda því að að lokum taki fyrirtækið ákvörðun sem ekki verður mjög hagkvæm Framsfl. og stjórnarliðinu í þessu efni. Ég held því fram, herra forseti, að það hafi einmitt verið þeir skafankar og annmarkar á málinu sem komu í ljós við meðferð þingsins sem gera það að verkum að nú er ekki bara hikst heldur verulegt hik komið á Norsk Hydro. Vera má að hæstv. ráðherrar Framsfl. sem settu málið í þennan farveg hafi það til síns máls að þeir eins og aðrir hafi talið að Landsvirkjun hafi unnið heimavinnuna sína, en allt annað kom í ljós.

Herra forseti. Það eru miklu merkilegri hlutir en deilur um það sem liðið er sem hafa komið fram í þessari umræðu. Hvað var það sem hæstv. ráðherrar og sér í lagi hæstv. umhvrh. færði fram sem vörn í málinu þegar deilurnar stóðu sem hæst? Rammaáætlunin. Settur var niður hópur sérfræðinga til að vinna rammaáætlun um virkjun fallvatna og nýtingu hálendisins. Hvað kemur síðan í ljós í þessari umræðu, herra forseti? Í ljós kemur að hér eru a.m.k. níu virkjanir, sumar er hægt að skilgreina sem stórvirkjanir, sem hafa heimild til þess að farið verði af stað með þær og hæstv. ráðherra segir að það sé kannski ekki beinlínis stefnt að því en hún útilokar ekki að af byggðalegum ástæðum eða af efnahagslegum ástæðum kunni menn eigi að síður að ráðast í þær virkjanir. Hvern er verið að draga á asnaeyrunum, herra forseti? Þjóðina, já, en örugglega þá sérfræðinga sem kvaddir hafa verið til þess að starfa að þeirri rammaáætlun vegna þess að hæstv. ráðherra er að segja að rammaáætlunin skipti í rauninni engu máli vegna þess að hér liggja fyrir heimildir til þess að ráðast í átta til níu stórvirkjanir á hálendinu í formi stækkana á núverandi virkjunum eða byggingu nýrra virkjana og það á alls ekki að koma til kasta sérfræðinganna sem eru að vinna rammaáætlunina.

Ég hjó líka eftir því, herra forseti, að hæstv. umhvrh. sagði að rammaáætlunin yrði ekki kynnt fyrr en á næsta kjörtímabili. Bíðum nú við, herra forseti. Hvað þýðir það? Getur verið að hér liggi sá fiskur grafinn undir steini að hæstv. umhvrh. sé kunnugt um að það sé vilji ríkisstjórnarinnar að semja um ýmsar viðbótarvirkjanir sem þarf til þess að knýja 480 þús. tonna álver í Reyðarfirði og gengið verði frá þeim samningum áður en rammaáætlunin kemur fram? Mig uggir, herra forseti, að hér sé eitthvað á ferðinni sem ekki þolir dagsins ljós. Fyrst hæstv. ráðherra kemur hingað og lýsir því yfir að hún sé sammála meginhugsuninni í þessu frv. en þorir ekki að lýsa stuðningi við það, þá er alveg ljóst að hæstv. ráðherra vill ekki slá á þær heimildir sem hér liggja fyrir, vill ekki afnema þær vegna þess að bersýnilegt er að ríkisstjórnin ætlar sér að koma fram virkjunum án þess að þær þurfi að sæta mati á umhverfisáhrifum. Ég tek líka eftir því að hæstv. ráðherra talar um það þegar hún segist sammála meginhugsuninni að koma þurfi inn sólarlagsákvæði í þau nýju lög um mat á umhverfisáhrifum sem á að samþykkja hér e.t.v. síðar í vetur en alla vega á næsta ári.

Getur verið, herra forseti, að það sólarlagsákvæði sé þess eðlis að það verði tímasett nægilega langt í framtíðinni til þess að hægt sé að nýta einhverjar af þeim sóðalegu heimildum sem enn er að finna í þessum lögum, sumar áratugagamlar? Mér finnst, herra forseti, fyrst hæstv. ráðherra kemur hingað og gefur upp boltann, þá verði hún að tala skýrar. Hún getur ekki sagt a án þess að segja b. Hvað þýðir það þegar hún talar um sólarlagsákvæði? Hæstv. ráðherra er manna best kunnugt um efni þessa frv. og ég held þess vegna að eðlilegt sé og sanngjarnt að krefjast þess af hæstv. ráðherra hvaða tímamörk eru í því sólarlagsákvæði. Og sömuleiðis, hvaða heimildir sem nú eru í fyrirliggjandi lögum falla þá innan þeirra tímamarka. Er það með öðrum orðum svo, herra forseti, að hæstv. ráðherra sé að ýja að því að hæstv. ríkisstjórn hyggist ráðast í frekari stórvirkjanir áður en búið er að afnema virkni hins umdeilda bráðabirgðaákvæðis II í lögunum frá 1992? Það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra tali skýrt hér. Það er líka nauðsynlegt miðað við það vægi sem hæstv. ráðherra hefur lagt á þann hóp sem vinnur að rammaáætluninni um virkjun og nýtingu fallvatna að hún tali skýrt um umboð þeirrar nefndar. Hvað er undir í þeirri vinnu? Eru það til að mynda virkjunarkostir norðaustan Vatnajökuls? Eru undir í þeirri vinnu virkjunarkostir sem heimild er fyrir nú þegar í gildandi lögum? Er hæstv. ráðherra reiðubúinn til þess að koma hingað og lýsa því yfir að henni sé ekki kunnugt um að fyrirhugað sé að ráðast í frekari virkjanir norðaustan Vatnajökuls áður en búið er að afnema þetta bráðabirgðaákvæði og jafnframt að ekki verði ráðist í að nýta þær heimildir sem hérna eru í þessum lögum sem raktar voru svo ítarlega í svari þáv. hæstv. iðnrh. við fyrirspurn hv. þm. Sighvats Björginssonar? Þar kemur einfaldlega fram að það er mýgrútur, sennilega á annan tug heimilda sem liggja fyrir þó að mér sýnist í fljótu bragði að þar sé um að ræða átta framkvæmdir, jafnvel níu sem mætti telja til stórvirkjana.

Það er nauðsynlegt, herra forseti, að hæstv. ráðherra tali skýrt í þessum efnum. Hún allra ráðherra helst hefur lagt mikinn þunga á þá lofsverðu og framsýnu vinnu sem er í gangi við rammaáætlunina en af þeim svörum sem hæstv. ráðherra hefur varpað hér eins og sprengju inn í þingsalinn í dag, þá er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að þessi vinna skipti litlu máli varðandi þau áform sem kunna að vera uppi um virkjanir innan ríkisstjórnarinnar. Ég fer fram á það, herra forseti, að hæstv. umhvrh. tali ekki í einhverjum gátum en tali skýrt um þessi mál.