Skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 13:39:40 (4321)

2000-02-15 13:39:40# 125. lþ. 63.94 fundur 314#B skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[13:39]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að hreyfa þessu máli hér. Ég tel að það sé ágætt tilefni til að fara yfir málið þannig að menn átti sig á því að ljóst er að Háskóli Íslands er ekki kominn að niðurstöðu sjálfur í málinu. Ekki hafa verið settar þær reglur af hálfu háskólans sem eru þess efnis að ég geti gefið skýr svör um þetta mál. Það er til skoðunar í háskólanum hvernig hann ætlar að sameina þau sjónarmið sem hv. þm. gerði grein fyrir í ræðu sinni og lúta annars vegar að því --- og það er kjarni málsins þegar litið er til þessa atriðis --- að verið er að ræða um endurmenntun hjá Endurmenntunarstofnun en síðan er líka verið að gefa til kynna að þeir sem taka þetta nám eða ganga í gegnum slíkt nám geti hlotið háskólagráðu. En samkvæmt þeim lögum og reglum sem við höfum er það ekki Endurmenntunarstofnunar að veita mönnum háskólagráður. Menn geta stundað þar háskólanám og lokið þar háskólanámi sem er að inntaki til sama efnis og menn stunda innan einstakra deilda háskólans en Endurmenntunarstofnun getur ekki veitt mönnum MBA-gráðu eða aðra gráðu.

Ég sé ekki og veit ekki hvernig háskólinn ætlar að sameina þetta tvennt. Það held ég að sé kjarni málsins. Ekki er búið að setja um þetta reglur af háskólans hálfu og þess vegna hef ég ekki staðið frammi fyrir því sem hv. þm. nefndi, að staðfesta slíka gráðu og inntak hennar með hliðsjón af þeim reglum sem um þetta gilda.

Ég vil líka geta þess til að svara fyrirspurnum hv. þm. að þegar lögin um Háskóla Íslands eða frv. var til meðferðar voru uppi hugmyndir og komu hugmyndir og tillögur frá Háskóla Íslands m.a. um að í 18. gr. sem hv. þm. benti á væri tekið fram að háskólaráð hefði heimild til að ákveða sérstakt gjald fyrir þá þjónustu við stúdenta eða aðra sem felst í skrásetningargjaldi, svo sem vegna náms til meistara- og doktorsnáms. Þetta var fellt út úr greininni í meðferð málsins þannig að 18. gr. eins og hún er núna er alveg skýr. Og ef menn kynna sér forsögu málsins og þær umræður sem urðu um frv. á sínum tíma, þá var þessi hugmynd uppi og síðan tók ráðuneytið það til skoðunar og við töldum að ef háskólinn vildi fara fram á þá heimild þyrfti að orða það með alveg sérstökum hætti. Það var ekki ætlunin að taka upp kennslugjöld með þessu móti en síðan varð það niðurstaða háskólans sjálfs að falla frá tillögu sinni um þetta efni þannig að það er ekki í lögunum. Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga líka þegar menn ræða málið.

Í 18. gr. er ekki vikið að því að háskólinn hafi sérstaka heimild til gjaldtöku vegna meistaranáms eða doktorsnáms, en hins vegar segir í grg. um 18. gr.: ,,Enn fremur er lögð áhersla á að heimild 18. gr. tekur til þess að taka gjald fyrir endurmenntun.`` Það var nauðsynlegt að okkar mati að hafa slíkar heimildir eins og 18. gr. til að mæla fyrir um það að háskólinn hefði möguleika á því að afla sér sértekna og þar nefndum við endurmenntunina sérstaklega en hún er rekin á vegum Endurmenntunarstofnunar og Endurmenntunarstofnun getur ekki veitt háskólagráðu eins og ég sagði. Þarna er því viðfangsefni á ferðinni sem er nauðsynlegt að háskólinn skýri betur fyrir væntanlegum nemendum og einnig af þessu tilefni fyrir hv. alþm. og ráðuneytinu hvernig á að sameina þetta tvennt.

Hv. þm. spyr hvort þessar fjárhæðir séu eðlilegar. Ef við lítum á þá gjaldskrá sem Endurmenntunarstofnun hefur sett sér og starfar eftir er t.d. um að ræða þriggja anna nám sem kostar um það bil 250 þús. kr. bæði í rekstrar- og viðskiptafræðum og einnig í stjórnsýslufræðum. Ég og hv. þm. ræddum saman um þetta í morgun og ég hef því ekki haft tök á að leggja mat á inntakið í náminu, hvort það er 250 þús. kr. eða hvar eigi að setja mörkin þegar um nám er að ræða og hvaða inntak menn hafa í þessu MBA-námi miðað við þá gjaldskrá sem Endurmenntunarstofnun hefur sett sér. En ég vil vekja máls á túlkun minni á 18. gr. og vekja máls á því líka að háskólinn á eftir að ganga frá þessum reglum og útfæra nákvæmlega hvernig beri að standa að þessu.